76 – SSV stjórn

admin

76 – SSV stjórn

F U N D A R G E R Ð
Stjórnarfundur haldinn í Snæfellsbæ mánudaginn 21. júní 2010 kl. 12:00

Stjórnarfundur Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, haldinn í Klifi í Ólafsvík, mánudaginn 21. júní 2010 kl. 12:00.
Mætt voru: Páll Brynjarsson, Hrönn Ríkharðsdóttir, Finnbogi Leifsson, Kristjana Hermannsdóttir, Ása Helgadóttir og Rósa Guðmundsdóttir.  Eydís Aðalbjörnsdóttir og Þorgrímur Guðbjartsson boðuðu forföll og sat Ása Helgadóttir fundinn sem aðalmaður.  Jenný Lind boðaði forföll og mætti Finnbogi sem hennar varamaður.  Erla Friðriksdóttir boðaði forföll og sat Rósa fundinn sem hennar varamaður.

 

Formaður PB bauð fundarmenn velkomna til fundarins og gekk til dagskrár sem er eftirfarandi:

1. Efling sveitarstjórnarstigsins.
2. Málefni fatlaðra. Staða verkefnis og fulltrúaskipti.
3. EFTA og sveitarstjórnarstigið.
4. Fundur formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna 3. júní 2010.
5. Samgöngumál.
6. Málefni atvinnuráðgjafar
7. Aðalfundur SSV 10. – 11.. sept. 2010.
8. Fundargerðir
9. Umsagnir þingmála
10. Önnur mál.

 

1. Efling sveitarstjórnarstigsins.
Lögð fram skýrsludrög. ,,Sveitarfélagið Vesturland, sameining Vesturlands í eitt sveitarfélag“  Páll Brynjarsson fór yfir skýrsluna og niðurstöðu fundar starfshóps um eflingu sveitarstjórnarstigsins frá 10. júní sl.
Páll fór í stuttu máli yfir væntingar landsnefndar til sameininga og reifaði niðurstöður skýrslunnar.
Stjórn SSV þakkar fyrir vel unna skýrslu og tekur undir það með starfshópi að það sé mikilvægt að skýrslan verði kynnt vel fyrir sveitarfélögunum.

 

2. Málefni fatlaðra. Staða verkefnis og fulltrúaskipti.
Páll Brynjarsson gerði grein fyrir fundum sveitarstjórnafulltrúa með fulltrúum starfshóps á landsvísu, þeim Sigurði Helgasyni og Hólmfríði Sveinsdóttur.  Hann sagði frá viðræðum sem væru í gangi innan Vesturlands.  Rætt um mögulegar útfærslur.
Erla Friðriksdóttir hefur sagt sig úr starfshópi SSV um málefni fatlaðra og mun Kristinn Jónasson taka hennar sæti.

 

3. EFTA og sveitarstjórnarstigið.
Íslenska og norska sveitarfélagasambandið hafa undanfarin ár beitt sér fyrir því að settur verði á laggirnar sveitarstjórnarvettvangur innan EFTA/EES-samstarfsins sem geti myndað tengsl við Héraðanefnd ESB.  EFTA skrifstofan er tilbúin til að hefja undirbúning 1. fundar sveitarstjórnarvettvangsins.  Til þess þurfa sveitarfélagasamböndin að tilnefna allt að sex fulltrúa hvert fyrir sig og varamenn þeirra.  Undirbúningsfundurinn verður haldinn í tengslum við ráðherrafund EFTA sem haldinn verður í Reykjavík 22. og 23. júní.  Óskað var eftir því við landshlutasamtökin að formenn þeirra yrðu fulltrúar vettvangsins, þ.e. fjórir fulltrúar og fjórir til vara.  Formenn SSV, FV, SSNV og SSH eru aðalfulltrúar.  SSS, Eyþing, SSA og SASS til vara.

 

4. Fundur formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna 3. júní 2010.
Sumarfundur landshlutasamtakanna var haldinn á Hótel Hamri fimmtudaginn 3. júní sl.  Formaður gerði grein fyrir fundinum og lögð var fram fundargerð.

 

5. Samgöngumál.
a. Umsagnir og fundir með þingmönnum
Á vegum samgöngunefndar SSV var unnin umsögn um tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2009 – 2012, 582. mál.  Í NV kjördæmi liggja um 39% af heildarvegakerfi landsins, eða um 5.000 km.  Vesturland er dreifbýlt og mikil þörf er á því að endurgera vegi og auka við slitlag á tengi- og héraðsvegum.  Á árinu 2010 eru áætlaðar 3.082 milljónir kr. til vegaframkvæmda í NV kjördæmi.  Þar af fara 2.113 milljónir kr., eða tæp 70%, til Óshlíðarganga.  Samgöngunefnd SSV benti á að sú framkvæmd var sett á sem neyðarframkvæmd á sínum tíma og var það ítrekað í  umsögn að það væri óásættanlegt að framkvæmd sem þessi myndi skerða framlög til brýnna framkvæmda á Vesturlandi.

Samgöngunefnd SSV óskaði eftir fundi með þingmönnum og hitti þá 20. apríl sl. Formaður nefndarinnar og framkvæmdastjóri fóru síðar á fund samgöngunefndar Alþingis, eða eftir að umsögn var komin til Nefndasviðsins.

b. Almenningssamgöngur og stutt um vegstyttingaverkefni
Ólafur Sveinsson gerði grein fyrir fundi með fulltrúum samgönguráðuneytis varðandi almenningssamgöngur.  Vinna er í gangi um hvernig megi vinna betur úr þeim fjármunum sem fara til samgönguverkefna.  Ólafur og Vífill áttu fund með fulltrúum samgönguráðuneytisins og var það ósk þaðan að fá upplýsingar um það fjármagn sem lagt er til sameiningarmála á vegum sveitarfélaganna á Vesturlandi.  Er þar verið að tala um strætó, skólaakstur, akstur í tengslum við þjónustu við fatlaða.

Ólafur  gerði grein fyrir vegstyttingaverkefni og lögð var fram skýrsla þar um.  Formaður lagði til að farið yrði í kynningu á skýrslunni og óskaði eftir því að starfsmenn SSV myndu gera tillögu að henni.

 

6. Málefni atvinnuráðgjafar
a. Íbúakönnun á Vesturlandi.
Ólafur gerði grein fyrir vinnu við íbúakönnun á Vesturlandi.  Starfsmaður hefur verið fenginn til starfa í gegnum átaksverkefni fyrir háskólamenntaða, atvinnulausa, einstaklinga.  Verkefnið er hafið og er þetta í þriðja skiptið sem unnin er íbúakönnun fyrir Vesturland.

 

b.  Starfshópur um breytingar á stoðkerfinu.
Ólafur gerði grein fyrir því að hann hefði tekið sæti í starfshópi til að móta tillögur um breytingar á stoðkerfinu.  Hann er annar fulltrúi tveggja, á vegum atvinnuþróunarfélaganna í viðkomandi starfshópi.

 

7. Aðalfundur SSV 10. – 11. sept. 2010.
Samþykkt að halda aðalfund SSV í Snæfellsbæ.  Formaður sagði frá því að óskað hefði verið eftir því að sendiherra Íslands í Brussel kæmi á aðalfundi landshlutasamtakanna og kynnti aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið.  Einnig hefur komið til tals að verkefnisstjórar í Sóknaráætlun 20/20 komi og kynni stöðu verkefnisins á aðalfundi.
Hrefnu falið að senda stjórnarmönnum hugmyndir að efnistökum á fundinum.

 

8. Fundargerðir
a. Efling sveitarstjórnarstigsins 10.06.2010
b. Samgöngunefnd SSV 10.05.2010
c. Samgöngunefnd SSV með þingmönnum 20.05.2010
d. Formenn og framkvæmdastjórar landshlutasamtakanna 3.06.2010
e. Samráðsnefnd sorpsamlaganna 31.05.2010
Lagðar fram.

 

9. Umsagnir þingmála
• Tillaga til þingsályktunar um jöfnun samkeppnisstöðu framleiðslufyrirtækja á landsbyggðinni með endurskoðun á reglum ÁTVR, 357. mál.
• Frumvarp. til lögreglulaga, 586. mál..
• Frumvarp. til laga um skipan ferðamála. 575. mál.
• Frumvarp til laga um hafnalög, 525 mál..
• Tillaga til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012, 582. mál.
• Frumvarp til laga um raforkulög.
• Frumvarp til laga um stefnumótandi byggðaáætlun 2010 – 2013, 521. mál.
• Frumvarp til laga um upprunaábyrgð á raforku (EES reglur) 576. mál.
• Frumvarp til laga um skipan ferðamála, 575, mál.
• Tillaga til þingsályktunar um úttekt á virkjunarkostum fyrir álframleiðslu, 91. mál.
• Frumvarp til laga um mat á umhverfisáhrifum.  (lengri úrskurðarfrestur ráðherra), 514. mál.
• Frumvarp til laga um erfðabreyttar lífverur, 516. mál.  (EES-reglur, upplýsingagjöf til almennings)
• Frumvarp til laga um grunngerð landupplýsinga
• Tillaga til þingsályktunar um eflingu græna hagkerfisins.
• Tillaga til þingsályktunar um frumkvæði að almennu hvatningarverkefni til að efla innlenda framleiðslu og fjölga störfum.

Lagðar fram umsagnir um tillögur til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2009 – 2012 og stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2010 – 2013.

 

10. Önnur mál.
Framhaldsaðalfundur Menningarráðs 2. júlí 2010.
Lagt fram fundarboð um framhaldsaðalfund Menningarráðs 2. júlí 2010.  Samþykkt að Kristjana Hermannsdóttir verði áfram fulltrúi SSV í Menningarráði og hún fari með umboð SSV á fundinum.

 

Aðalfundur Símenntunarmiðstöðvarinnar.
Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir aðalfundi Símenntunar sem haldinn var 8. júní sl.

 

Aðalfundur Vesturlandsstofu 25.06.2010.
Aðalfundur Vesturlandsstofu verður haldinn föstudaginn 25. júní n.k.  Samþykkt að Hrefna B. Jónsdóttir fari með umboð SSV á fundinum.

 

Open Days.
Lagt fram minnisblað varðandi Open Days sem haldnir verða í Brussel 4. – 7. október 2010.

 

Kragasjúkrahúsin.
Lagðar fram slæður/minnispunktar frá fundi sem haldinn var með fulltrúum frá landshlutasamtökum og heilbrigðisstofnana og tengist skýrslu um ,,Endurskipulagningu sjúkrahúsþjónustu á suðvesturhorninu.
Lögð fram tillaga að bókun til heilbrigðisráðherra.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl.14:50.
Fundarritari. Hrefna B. Jónsdóttir.