Vinsældir hlaðvarpa hafa farið vaxandi að undanförnu og skal engan undra. Hlaðvörpin eru frábær aðferð til að bæði njóta og miðla skemmtun, fróðleik og upplýsingum til áheyrenda í gegnum snjalltækin. Á Vesturlandi eru starfandi og í bígerð nokkur hlaðvörp sem við vekjum hér athygli á.
MYRKA ÍSLAND OG ÞJÓÐLEGIR ÞRÆÐIR
https://kjarninn.is/hladvarp/2018-09-20-thjodlegir-thraedir/
Þær stöllur Sigrún Elíasdóttir og Anna Dröfn Sigurjónsdóttir halda úti hinum geysivinsælu þáttum í seríunni „Myrka Ísland“ sem fjalla um alls konar hrylling í sögu og menningu þjóðarinnar. Morð, draugar og plágur eru gjarnan umræðuefnið en gaman er að geta þess að Myrka Ísland fékk til liðs við sig unga listamenn úr Borgarfirði, þá Lúkas Guðnason og Sigurjón Líndal Benediktsson til að myndskreyta efnistök þáttanna. Myndirnar verða svo til sýnis á völdum stöðum á Vesturlandi og hlaut verkefnið styrk úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands. Sigrún og Anna framleiddu jafnframt þættina „Þjóðlegir þræðir“ sem eru ekki eins myrkir, en fjalla um handverk með skemmtilegu og þjóðlegu ívafi.
MUNNBITAR OG MENNINGARVITAR
Félagarnir Gunnar Garðarsson og Héðinn Sveinbjörnsson eru nýfarnir af stað með stórskemmtilega þætti „Munnbitar og menningarvitar“ frá Grundarfirði. Gunnar rekur veitingastaðinn Bjargarstein þar í bæ sem er rómaður fyrir góðan mat í fallegu umhverfi. Héðinn er að eigin sögn mikill matmaður og saman kanna þeir hvernig matur og menning fara fram í litlum samfélögum á Vesturlandi. Þegar þetta er ritað hafa þrír þættir verið gefnir út. Fyrsti er um Inga Hans úr Sögumiðstöðinni í Grundarfirði, Lúðvík betur þekktur sem Liston og svo Hjalta Allan, allir eru þeir frá Grundarfirði.
LÍFIÐ Á LAUGUM – Væntanlegt
Sigrún Hanna Sigurðardóttir fékk styrk úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands í ár til að framleiða hlaðvarpsþætti um lífið á Laugum og eins og nafnið gefur til kynna er kafað í minningarkistilinn og grafnar upp sögur, atvik og fleira áhugavert um lífið á heimavistinni og skólanum. Vinnsla við þættina er í fullum gangi og er áætlað að fyrstu þættirnir komi út í kringum Jörvagleði sem er á döfinni nú í maí.
VESTURLAND Í SÓKN
Að lokum minnum við á okkar hlaðvarp „Vesturland í sókn“. Komnir eru út fjórir þættir og í nýjasta þætti ræðir Thelma Harðardóttir við Margréti Björk Björnsdóttur forstöðumann Áfangastaðastofu Vesturlands um ferðaþjónustu í landshlutanum og hvert við stefnum í þeim efnum. Nýir þættir í seríunni eru væntanlegir vikulega.