Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi afhentu í gær Nýsköpunarverðlaun Vesturlands fyrir árið 2020. Að þessu sinni var það Skaginn 3X sem hlaut verðlaunin.
Ingólfur Árnason frá Skaganum 3X og Páll S. Brynjarsson framkvæmdarstjóri SSVUndanfarin fjögur ár hafa Nýsköpunarverðlaun Vesturlands verið veitt fyrirtækjum sem þykja hafa komið fram með áhugaverðar nýjungar í rekstri. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) hafa umsjón með valinu en sá háttur er hafður á að atvinnuráðgjafar SSV tilnefna þrjú fyrirtæki og eru tilnefningarnar lagðar fyrir stjórn SSV sem ákveður hver hlýtur verðlaunin. Verðlaunagripinn í ár hannaði Dýrfinna Torfadóttir gullsmiður. Páll S. Brynjarsson framvæmdarstjóri SSV afhenti Ingólfi Árnasyni hjá Skaganum 3X verðlaunin og fór afhending fram í Breið nýsköpunarsetri við Bárugötu á Akranesi.
Stofnun Skagans 3X má rekja aftur til ársins 1985 þegar Ingólfur Árnason aðaleigandi Skagans hf. hóf að vinna við nýsköpun og þróun á vinnslubúnaði fyrir fiskiðnað. Í dag er fyrirtækið rekið í þremur einingum sem eru Skaginn hf., Þorgeir og Ellert hf. og 3X Technology á Ísafirði. Þessi þrjú systurfyrirtæki vinna þétt saman að þróun, hönnun og framleiðslu og eru framleiðsluvörurnar kynntar og seldar undir sameiginlegu merki félaganna – Skaginn 3X. Skaginn hefur selt vörur sínar víðsvegar um heiminn. Meginþunginn hvað fiskiðnað varðar er á svæðinu í kringum Norður Atlantshaf og hvað kjötiðnað varðar þá er hann mestur í Suður- og Norður-Ameríku. Fyrirtækið er í fremstu röð þeirra íslensku fyrirtækja sem hafa náð að brjóta sér leið inn á alþjóðlegan matvælamarkað með framleiðsluvörur sem í upphafi eru þróaðar í nánu samstarfi við íslensk framleiðslufyrirtæki. Sérstaða Skagans er fólgin í byltingarkenndum tækninýjungum hvað varðar íslausa kælingu á matvælum, sjálfvirkni og lausnum við pökkun og flutning á afurðunum.
Verðlaunagripurinn – Hönnuður: Dýrfinna Torfadóttir, gullsmiðurNýsköpunarverðlaun Vesturlands voru fyrst veitt árið 2016 og hér fyrir neðan má sjá verðlaunahafa fyrri ára:
2016 – The Cave, ferðaþjónusta við hellinn Víðgelmi
2017 – Asco Harvester, Stykkishólmi
2018 – G.Run, Grundarfirði
2019 – Ferðaþjónustan Húsafelli
2020 – Skaginn 3X