Greinagerð sóknaráætlana landshluta 2015-2019

SSVFréttir

Út er komin greinargerð sóknaráætlana landshluta fyrir tímabilið 2015-2019. Í henni kemur m.a. fram að rúmum 5 milljörðum króna var varið til sóknaráætlana landshluta á tímabilinu.

Af þessum rúmu 5 milljörðum komu 4 frá ríkinu en tæpar 500 m.kr. frá sveitarfélögunum. Unnið var að 283 áhersluverkefnum um land allt og framlag til þeirra nam 1,6 ma.kr. Styrkir úr uppbyggingarsjóði námu 2,3 ma.kr. á tímabilinu og voru 2966 verkefni styrkt, en rúmar 5. þúsund umsóknir bárust.

Sóknaráætlanir landshluta eru samstarfsverkefni ráðuneyta og sveitarfélaga. Markmiðið er að færa aukin völd og ábyrgð til landshlutanna á ráðstöfun fjármuna frá ríkisvaldinu til verkefna á sviði byggðamála og samfélagsþróunar. Samráð og samvinna ríkis og sveitarfélaga fer fyrst og fremst fram í gegnum stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál og landshlutasamtök sveitar­félaga. Landshlutasamtök sveitarfélaga skipa samráðsvettvang í hverjum landshluta og skilgreina hlutverk og verkefni hans.  Samráðsvettvangurinn hefur beina aðkomu að gerð sóknaráætlunar.

Samkvæmt samningum um sóknaráætlanir renna framlög ríkisins annars vegar til áhersluverkefna og hins vegar til uppbyggingarsjóða. Uppbyggingarsjóðir eru samkeppnissjóðir. Áhersluverkefni eru samningsbundin verkefni sem hafa beina skírskotun til sóknaráætlunar landshlutans og áherslna samráðsvettvangs og þar er ekki gerð krafa um mótframlag. Samningurinn við höfuðborgarsvæðið er frábrugðinn samningunum við aðra landshluta, þar er eingöngu veitt fjármagn til framkvæmdar áhersluverkefna en ekki til uppbyggingarsjóðs.

Nýtt fimm ára tímabil sóknaráætlana landshluta hófst árið 2020 og stendur út árið 2024.

Greinargerð sóknaráætlana 2015-2019