Fjórða iðnbyltingin – styrkir til framhaldsskóla á Vesturlandi

SSVFréttir

Í ár hefur verið unnið að áhersluverkefni Sóknaráætlunar Vesturlands um Fjórðu iðnbyltinguna.  Meginmarkmiðið með verkefninu er að framhaldsskólar á Vesturlandi geti aðlagað námsframboð sitt að þeim þáttum sem einkenna Fjórðu iðnbyltinguna.  Þetta var gert með tvennum hætti.  Annars vegar með stuðningi við ráðstefnuna „Menntun fyrir störf framtíðarinnar“ sem Menntaskóli Borgarfjarðar hélt í maí s.l.  Ráðstefnan vakti mikla athygli og er áætlað að á fjórða hundrað manns hafi fylgst með ráðstefnunni.  Nálgast má erindin sem flutt voru á ráðstefnunni á slóðinni: Menntun fyrir störf framtíðarinnar

Hins vegar hefur verkefnið styrkt alla framhaldsskólanna á Vesturlandi vegna verkefna sem þau hafa ráðist í til að efla námsframboð sitt.

Fjölbrautarskóli Vesturlands á Akranesi býður nemendum sínum upp á nýjan námsáfanga sem heitir Menntamaskína, en áfanginn er nýsköpunarhraðall þar sem þróaðar eru hugmyndir, þeim komið í verk og sköpunarkraftur ungs fólks er nýttur til að takast á við áskoranir framtíðarinnar.  Menntamaskínan er líka samkeppni á milli framhaldsskóla og snýst um lausnaleit í málaflokkum heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Fjölbrautarskóli Snæfellinga hefur verið að undirbúa stofnun nýsköpunarbrautar og mun nýta þann styrk sem fæst úr verkefninu til kaupa á búnaði og endurmenntunar kennara þannig að hægt verði að bjóða upp á kennslu á nýrri námsbraut sem fyrst.

Menntaskóli Borgarfjarðar mun vinna áfram með að aðlaga námsframboð sitt og kennsluhætti að áherslum fjórðu iðnbyltingarinnar og nýta niðurstöður ráðstefnunnar „Menntun fyrir störf framtíðarinnar“  til þeirrar vinnu.  Skólinn hefur sett á laggirnar vinnuhóp og mun fá til sín ráðgjafa, en þessir aðilar munu vinna tillögur um breytingar á námsframboði og kennsluháttum.