Nýtt skipurit Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV)

SSVFréttir

Á fundi stjórnar SSV nýverið var samþykkt nýtt skipurit fyrir samtökin og hefur verið unnið að innleiðingu þess undanfarið.  Megin breytingin felst í því að Markaðsstofa Vesturlands sameinast SSV og verða því til tvö svið, annars vegar atvinnuþróun og hins vegur áfangastaðurinn.  Eftir sem áður verður Markaðsstofan í sérstöku hlutafélagi og í gegnum það verða öll markaðsverkefni fyrir ferðaþjónustuna rekin.  Margrét Björk verður fagstjóri áfangastaðar og forstöðumaður Markaðsstofu Vesturlands eins og hún hefur verið undanfarið ár.  Ólafur Sveinsson verður áfram fagstjóri atvinnuþróunar.

SSV hefur frá árinu 2013 átt allt hlutafé í Markaðsstofu Vesturlands.  Fyrr á þessu ári var sú breyting gerð á starfseminni að rekstri Upplýsingamiðstöðvar Vesturlands var hætt og hefur Borgarbyggð tekið yfir rekstur miðstöðvarinnar í Borgarnesi.  Undirrót breytinga á skipuriti er einnig áhersla yfirvalda ferðamála að á grunni markaðsstofa landshlutanna verði stofnaðar áfangastaðastofur sem hafi mun víðtækara hlutverk en markaðsstofurnar höfðu og komi til með að veita ferðaþjónustunni mun fjölþættari þjónustu.  Mörg af þeim verkefnum hafa t.d. verið unnin af atvinnuráðgjöfum SSV.  Með því að þétta samstarf og auka samlegð af starfi Markaðsstofu Vesturlands og SSV teljum við okkur í stakk búin til þess að veita atvinnulífi á Vesturlandi betri þjónustu.

Með þessari breytingu vonast stjórn SSV til þess að auka skilvirkni í starfseminni, efla þjónustuna, nýta betur þekkingu og hæfni starfsfólks, nýta betur það fjármagn sem er til umráða og síðast en ekki síst að efla samráð og samstarf út á við.

Meðfylgjandi er mynd af nýju skipurit og helstu verkefnum SSV.

SKIPURIT Í SKJALI