Vel heppnuð afmælishátíð SSV

SSVFréttir

Föstudaginn s.l. fögnuðu Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi 50 ára afmæli. Í tilefni dagsins var blásið til ráðstefnu um framtíð Vesturlands þar sem sviðsmyndagreining um þróun atvinnulífs á Vesturlandi unnin af KPMG var kynnt og fjórir ungir Vestlendingar voru með erindi um sína sýn á framtíð landshlutans. Þá voru pallborðsumræður um framtíð Vesturlands endapunktur ráðstefnunnar en í pallborðinu sem Gísli Einarsson stýrði styrkri hendi voru ráðherrarnir Ásmundur Einar Daðason, Guðmundur Ingi Guðbrandsson og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ásamt bæjarstjórunum Sævari Frey Þráinssyni Akraneskaupstað og Björgu Ágústsdóttur Grundarfjarðarbæ. Það var mikil ánægja með ráðstefnuna og voru gestir sammála um að dagskráin hafi verið áhugaverð.

Eftir pallborðið var skipt um gír og nutu gestir tónlistar og léttra veitinga undir veislustjórn Gísla Einarssonar. Soffía Björg gladdi gesti með sínum flutning og að lokum voru afhent Nýsköpunarverðlaun SSV 2019 en það var Ferðaþjónustan Húsafelli sem fékk verðlaunin í ár. Eggert Kjartansson formaður SSV afhenti þeim Bergþóri Kristleifssyni og Hrefnu Sigmarsdóttur verðlaunin en þau hafa verið gríðarlega öflug í uppbyggingu á sínu fyrirtæki undanfarin ár. Hrefnu og Bergþóri var afhent listaverk eftir Dýrfinnu Torfadóttur gullsmið.

Þetta var virkilega góður og skemmtilegur dagur og tala myndirnar sínu máli.