Á 147. fundi stjórnar SSV var rætt um þær breytingar sem framundan eru á umsjón með rekstri almenningssamgangna á milli sveitarfélaga á Vesturlandi. Nú liggur fyrir að SSV mun láta af umsjón með verkefninu og mun Vegagerðin taka yfir frá og með 1. janúar 2020. Stjórn bókaði eftirfarandi um málið:
Stjórn SSV tekur undir afstöðu fulltrúa landshlutasamtaka í viðræðum um framtíðar rekstrarform almenningssamgangna. Ítrekað er að almenningssamgöngur eru verkefni á ábyrgð ríkisins og eiga því að vera fjármagnaðar að fullu af ríkinu. Það að gera landshlutasamtökin og þar með sveitarfélögin í landinu fjárhagslega ábyrg fyrir málaflokknum að hluta er ekki ásættanleg niðurstaða.
Stjórn SSV skorar á Vegagerðina að reka áfram þær leiðir á Vesturlandi sem eru í núverandi leiðarkerfi. Þá vill stjórn árétta mikilvægi þess að heimamenn hafi aðkomu að skipulagi almenningssamgangna vegna staðbundinnar þekkingar á þörf og leiðarvali og er reiðbúin til samstarfs um það verkefni.