Stjórn SSV skorar á Heilbrigðisráðuneytið að endurskoða afstöðu sína

SSVFréttir

Á fundi stjórnar SSV nýverið var rætt um um biðlista eftir hjúkrunarrýmum og fjölgun þeirra við dvalar- og hjúkrunarheimili á Vesturlandi.  Þá var sérstaklega rætt um höfnun Heilbrigðisráðuneytisins á erindum Brákarhlíðar í Borgarnesi og Höfða á Akranesi um fjölgun rýma.  Stjórn SSV bókaði eftirfarandi:

Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi skorar á Heilbrigðisráðuneytið að endurskoða afstöðu sína til erinda hjúkrunar- og dvalarheimilanna Brákarhlíðar í Borgarnesi og Höfða á Akranesi um fjölgun hjúkrunarrýma.  Þörfin fyrir fjölgun rýma er afar brýn, en hátt í þrjátíu aðilar eru á biðlista eftir því að komast inn á þessi heimili.  Þá liggur ljóst fyrir að með afar litlum tilkostnaði er hægt að fjölga rýmum á þessum heimilum.

Að mati heilbrigðisráðuneytisins er staðan varðandi fjölda hjúkrunarrýma þokkaleg í umdæmi Heilbrigðisstofnunar Vesturlands.  Hins vegar er umdæmið afar stórt og nær yfir 15 sveitarfélög á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi.  Því má heildarstaðan í umdæminu aldrei verða til þess að útiloka fjölgun rýma þar sem þörfin er brýn.  Þörfin fyrir dvalar- og hjúkrunarrými í sveitarfélögum getur verið mjög misjöfn þar sem þættir eins og íbúaþróun, aðstaða á dvalar- og hjúkrunarheimilum og vegalengd á milli þéttabýlis og jaðarbyggða geta haft áhrif á þörfina fyrir fleiri rými.