Á fundi sínum 12. desember s.l. samþykkti stjórn SSV samhljóða svohljóðandi ályktun um veggjöld.
„Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi fagnar áformum um að notuð verði veggjöld til að fjármagna stórfelldar og nauðsynlegar samgöngubætur sem fyrirhugaðar eru á næstu árum. Með innheimtu veggjalda er einnig hægt að fjármagna átak til uppbyggingar á leiðum á Vesturlandi eins og Uxahryggjum, Skógarströnd og fjölmörgum tengivegum sem ekki voru á samgönguáætlun næstu fimm ára. Í samgönguáætlun Vesturlands sem samþykkt var af sveitarfélögunum á Vesturlandi árið 2017 er sérstaklega fjallað um forsendur þess hvenær komi til greina að nota veggjöld til þess að fjármagna framkvæmdir. Í fyrsta lagi á það við þegar það er verulegur hagur íbúa af því að framkvæmdum verði flýtt, í öðru lagi að gjaldtöku sé stillt í hóf gagnvart þeim sem eru reglulega í förum á leiðum þar sem veggjald er lagt á og í þriðja lagi þá þurfi að liggja fyrir almenn stefnumótun stjórnvalda um í hvaða tilvikum skuli beita veggjöldum til þess að flýta framkvæmdum eða koma nauðsynlegum öryggisúrbótum í verk. Ef þessar forsendur eru hafðar að leiðarljósi telur stjórn SSV að ásættanlegt sé að nota veggjöld til að flýta framkvæmdum. Jafnframt hvetur stjórn SSV til þess að ný samgönguáætlun verði kláruð hið fyrsta þannig að hægt sé að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir.“