Snæfellsbær hlaut á dögunum Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu fyrir verkefnið „Bjarnarfoss í Staðarsveit – aðgengi fyrir alla allt árið“.
Bjarnarfoss er tignarlegur foss sem fellur fram af hamrabrúninni upp af Búðum á Snæfellsnesi. Verkið var unnið á árunum 2015 – 2016 og er gott dæmi um hvernig heimafólk og sveitarfélag, með liðsinni Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða, hafa unnið faglega að uppbyggingu áningarstaðar þar sem allir geta notið fallegrar náttúru. Staðurinn er nú aðgengilegur allt árið.
Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu hafa verið veitt árlega frá árinu 1995 og er þetta því í 24. sinn sem þau eru afhent. Verðlaunin eru nú í þriðja sinn veitt fyrir verkefni sem hlutu styrk úr Framkvæmdasjóði ferðmannastaða á tímabilinu 2014-2016 og voru til fyrirmyndar. Það þýðir að verkefninu sé lokið, reglum framkvæmdasjóðsins fylgt og það hafi verið í samræmi umhverfistefnu Ferðamálstofu og áherslur Framkvæmdasjóðsins um sjálfbæra þróun, gæði hönnunar og skipulags.
Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ, og Margrét Björk Björnsdóttir verkefnastjóri, veittu verðlaununum viðtöku fyrir hönd Snæfellsbæjar og eru hér með Skarphéðni Berg Steinarssyni ferðamálastjóra. Mynd: Ferðamálastofa Mynd: Ferðamálastofa