Fjöldi ferðamanna og tekjur og kostnaður íslenskra sveitarfélaga

VífillFréttir

Í gær var gefin út fræðigrein eftir Vífil Karlsson, Hjalta Jóhannesson og Jón Óskar Pétursson um áhrif ferðaþjónustu á fjárhag sveitarfélaga í fræðiritinu Stjórnmál og stjórnsýsla. Greinin byggir á vinnu við verkefni sem gekk undir vinnuheitinu Bakpokar og bæjarsjóðir og sagt var frá bráðabirgðarniðurstöðum á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 2016. Í útgáfuferlinu tók greiningin breytingum til batnaðar og breytileiki á milli sveitarfélaga varð augljósari en í fyrstu lá fyrir. Þetta verkefni var leitt af SSV í samstarfi við Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri  og þá meðhöfunda Hjalta Jóhannesson og Jón Óskar Pétursson. Stjórnstöð ferðamála styrkti verkefnið. Best er að horfa til þessa textabrots úr skýrslunni þegar kemur að samantekt um efni hennar: „Hvatt er til þess að niðurstöður rannsóknarinnar séu túlkaðar með almennum hætti: Að líklegt sé að flest sveitarfélög sem sótt eru af ferðamönnum verði fyrir kostnaði vegna þeirra en mun færri verði vör við tekjuauka – einkum þeim sem jafnar út kostnaðinn og gott betur. Hins vegar eru þau sem verða fyrir tekjuauka gjarnan með fjölmennustu sveitarfélögum landsins og því líklegt að samanlagt fái íslensk sveitarfélög meiri tekjur en kostnað vegna ferðaþjónustu. Niðurstöðurnar (einkum þegar greiningunni á gistinóttum er bætt við) benda til þess að líkurnar á jákvæðri framlegð sveitarfélaga af ferðþjónustu séu miklar ef tvennt kemur til: 1) að ferðamennirnir gisti í sveitarfélaginu og 2) að í sveitarfélaginu sé það fjölbreytt atvinnulíf að ferðamenn geti notið margvíslegrar þjónustu og keypt sér fjölda fallegra muna svo margfeldisáhrif þeirra verði meiri.“ Greinina í heild sinni má nálgast hér á þessari slóð (http://www.irpa.is/article/view/a.2017.13.2.3). Hún er skrifuð á íslensku.