Í dag afhenti MEST ehf. Sorpurðun Vesturlands nýjan sorptroðara af Bomag gerð.
Um er að ræða sérhannaða vinnuvél til að minnka umfang sorps og nýta land betur til urðunar. Á sorptroðaranum er öflugur gálgi sem nýtist til að moka og ýta sorpi í gryfjur.
Aðalvél sorptroðarans skilar 304 hestöflum enda þarf mikið afl til að knýja 30 tonn af stáli. Þrátt fyrir stærð og þyngd tækisins er auðvelt að stjórna honum þar sem liðstýring er notuð til að gera þetta stóra tæki eins lipurt og 30 tonna vél getur verið. Sorptroðarinn er knúinn áfram af glussadrifi sem tryggir hámarks dreyfingu á afli með lágmarks viðhaldskostnaði og eldsneytiseyðslu.
Ökumannshúsið er búið loftkælingu og olíumiðstöð sem tryggir jafnt hitastig fyrir stjórnanda sorptroðarans hvort sem það er frost úti eða steikjandi hiti. Loftþrýstingur í húsinu er yfir umhverfisþrýstingi, þannig að engar gufur eða rykagnir geti smogið inn í húsið.
Til að tryggja öryggi á vinnustað er bakkmyndavél staðsett aftan á vélinni þannig getur stjórnandinn alltaf fylgst með því hvort að einhver hindrun eða umferð sé í kringum vélina á vinnutíma.
Þegar verið var að flokka tækið í vinnuvélaskrá, þá þurftu menn að skoða hvaða flokk þetta fellur í, og kom þá í ljós að þetta er flokkað með hjólaskóflum.
En munirinn er samt mjög mikill, því að dekkin eru úr stáli með gríðarlega öflugum göddum sem mala allt mélinu smærra. Allur búnaður tækisins er sérstaklega varinn fyrir ágangi járna, steypu og annara efna og úrgangs, sem falla til á urðunarsvæðum.