Skýrsla um kolefnisspor Vesturlands 2024

SSVFréttir

Út er komin skýrslan Kolefnisspor Vesturlands 2024 sem unnin var af Environice ehf. fyrir SSV. Skýrslan er hluti af áhersluverkefni Sóknaráætlunar Flokkun í anda hringrásarhagkerfis.                                                                                                                                                                                                                              Í skýrslunni er að finna endurmat og uppfærslu á fyrri útreikningum sem Environice vann fyrir SSV á árunum 2020-2021.

Meginniðurstaða skýrslunnar er að samanlagt kolefnisspor svæðisins árið 2024 nam 2.390.448 tonnum koldíoxíðsígilda (CO2íg) eða um 135 tonnum á hvern íbúa. Tveir þættir hafa langmest vægi, þ.e.a.s. losun vegna landnotkunar og losun frá iðnaðarferlum stóriðjunnar á Grundartanga. Reiknuð losun vegna landnotkunar var 1.304.345 tonn, eða um 55% af heildarlosuninni og losun frá stóriðju 842.149 tonn eða 35% af heildarlosuninni. Reiknuð samfélagslosun, þ.e.a.s. losun frá öllum öðrum athöfnum á svæðinu, var 243.954 tonn, eða aðeins um 10% af heildarlosuninni.

Auk samantektar á losun í landshlutanum eru settar fram tillögur um átta aðgerðir til að draga úr losun auk þess sem í skýrslunni má finna stutta umfjöllun um kolefnisjöfnun, en við núverandi aðstæður er það miklum vandkvæðum bundið fyrir sveitarfélög og samtök þeirra að nýta kolefniseiningar til mótvægis við losun í þeim tilgangi að ná tilteknum markmiðum um samdrátt.

Skýrsla þessi hefur að geyma mikilvægar upplýsingar sem ættu að reynast gagnlegar fyrir sveitarfélög og almenning í loftslagsstarfi þeirra.
Skýrslan er aðgengileg hér