
Sturla Böðvarsson fyrrverandi bæjarstjóri í Stykkishólmi, þingmaður Vesturlands og ráðherra lést þann 10 janúar s.l.
Sturla fæddist í Ólafsvík 23. nóvember 1945, hann hafði nýlokið námi í tæknifræði þegar hann var ráðinn bæjarstjóri í Stykkishólmi aðeins 28 ára gamall.
Sturla var bæjarstjóri fram til 1991, en lét af störfum eftir að hann var kosinn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Sturla sat á þingi fram til 2009, fyrst sem þingmaður Vesturlandskjördæmis en eftir kjördæmabreytingarnar 2003 var hann þingmaður Norðvesturkjördæmis. Sturla var samgönguráðherra árin 1999 til 2007 og síðar forseti alþingis til loka þingferilsins. Hann var kosinn í bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar 2014 og var kjörinn fulltrúi og bæjarstjóri fram til 2018.
Sturla lét mikið til sín taka í samstarfi sveitarfélaga á Vesturlandi, sat í stjórn SSV um árabil og var formaður samtakanna árin 1981 til 1983. Sturla vann ötullega að hagsmunamálum sveitarfélaganna á Vesturlandi eftir að hann tók sæti á Alþingi og á starfstíma hans sem samgönguráðherra urðu miklar framfarir í samgöngumálum í landshlutanum.
Sturla Böðvarsson lagði víða gjörva hönd á plóg þegar kom að uppbyggingu og framförum á Vesturlandi og hann var óþreytandi við að leggja góðum málum lið. Að leiðarlokum þakkar stjórn og starfsfólk Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi Sturlu fyrir hans einstaka framlag til sveitarstjórnarmála á Vesturlandi og góð samskipti alla tíð. Eiginkonu, börnum og fjölskyldu er vottuð samúð.
Sturla i hópi sveitarstjórnarfulltrúa sem heiðruð voru á Haustþingi SSV 2018 sem fram fór á Bifröst, fyrir langt og gifturíkt starf að sveitarstjórnarmálum, en þau létu öll af störfum vorið 2018 Ásamt Sturlu voru þau Ingibjörg Pálmadóttir Akranesi, Ása Helgadóttir Hvalfjarðarsveit og Innri-Akraneshreppi, Bjarki Þorsteinsson Borgarbyggð og Kristján Þórðarson Snæfellsbæ heiðruð. Með þeim á myndinni er Rakel Óskarsdóttir þáverandi formaður SSV