Á vegum Rannsóknarseturs í byggða- og sveitarstjórnarmálum við Háskólann á Bifröst er komin út greinin „Viðhorf íbúa til þjónustu sveitarfélaga eftir stærð þeirra, metin í fjölda íbúa“. Greinin birtist í Tímariti um viðskipti og efnahagsmál í dag.
Þar kemur fram að íbúar fjölmennari sveitarfélaga eru töluvert ánægðari með þjónustu sem þau veita en íbúar þeirra fámennari. Það á aðallega við um sveitarfélög á „stærðarbilinu“ 500 til 20.000 íbúa sem er þó aðeins breytilegt eftir tegund þjónustunnar. Við efri mörk íbúafjölda (um 20.000) mælist viðsnúningur þannig að íbúar sveitarfélaga í kringum 20.000 íbúa eru þá ánægðari en þeirra sem fjölmennari eru. Annað sem kom fram er að íbúar fjölkjarna sveitarfélaga eru frekar óánægðari með þjónustu sinna sveitarfélaga en þau sem eru einkjarna og íbúar landmeiri sveitarfélaga frekar óánægðari en þeirra sem landminni. Þá komu fram skýr merki um að íbúar sveitarfélaga sem hafa búið við örustu fólksfjölgun yfir lengra tímabil eru mun óánægðari með þjónustu síns sveitarfélags en þeirra þar sem fjölgunin hefur verið hófstilltari eða jafnvel fækkun. Af þessu má m.a. ráða að það virðist gott að búa í fjölmennu sveitarfélagi en það er ekki gott að gott að komast hratt í þá stöðu.
Í rannsókninni var stuðst við stóran gagnagrunn Íbúakönnunar landshlutanna þar sem nærri 29.000 tóku þátt árin 2016, 2017, 2020 og 2023. Í könnuninni voru þátttakendur spurðir um viðhorf þeirra til ýmissar þjónustu í þeirra sveitarfélagi eins og grunnskóla, leikskóla og 18 aðra þætti sem hafa verið á ábyrgð sveitarfélaga að hluta til eða öllu leyti. Gæði þjónustunnar byggja því á mati íbúanna þar um. Rannsóknin er fyrst og fremst samanburður á afstöðu íbúa um land allt gagnvart þjónustu sinna sveitarfélaga og hvort fylgni sé gagnvart stærð þeirra auk annarra eiginleika. Efni hennar gæti því verið innlegg í umræðu um sameiningu sveitarfélaga.
Greinina má nálgast hér í heild sinni (SMELLIÐ).