Þriðjudaginn 18. nóvember var haldið málþing að Laugum í Sælingsdal undir yfirskriftinni Ég bý í sveit. Málþingið var lokahnykkur á verkefninu Leiðir til byggðafestu sem var samstarfsverkefni SSV, SSNV og Vestfjarðastofu. Verkefnið sneri sértaklega að því að greina tækifærin og efla nýsköpun á sauðfjárræktarsvæðum Dalabyggðar, Reykhólasveitar, Stranda og Húnaþings vestra.
Málþingið hófst á erindum Hlédísar Sveinsdóttur og Björns Bjarnasonar en þau sáu um verkefnisstjórn f.h. fyrirtækisins Eigið fé ehf sem bæði vann tækifærisgreininguna og skipulagði fjölbreytta námskeiðsröð í ofangreindum héruðum. Lesa má lokaskýrslu hér.

Þau fóru yfir verkefnið í heild sinni og helstu niðurstöður. Í máli þeirra kom fram að verðmætasköpun væri möguleg á landbúnaðarsvæðum án mikillar yfirbyggingar. Nefndar voru sérstaklega fjórar hugmyndir; kræklingaræktun, þörungaræktun, framleiðsla á graspróteini og kolefnisbinding sem gæti verið nýsköpunarverkefni sem gætu skilað ávinningi til bænda. Þó kom fram að ekki liggi fyrir nægjanlegar rannsóknir um slík verkefni og að regluverk gæti verið íþyngjandi. Þá komu þau einnig inn á í sínu erindi þá huglægu þætti, sem efla byggðafestu.
Næstur á mælendaskrá var Dr. Torfi Jóhannesson framkvæmdastjóri Nordic Insights sem fjallaði um byggðaþróun á Íslandi og hinum Norðurlöndunum. Torfi fór yfir breytingar í búsetumynstri og hvaða áskorunum samfélög geta þurft að takast á við í nútíð og framtíð.
Að loknum hádegisverði var komið að því að heyra sögur frá frumkvöðlum af svæðunum.
Þorgrímur Guðbjartsson á Erpsstöðum fór yfir sögu fjölskyldunnar þar sem búið hefur þróast úr því að vera hefðbundið kúabú yfir í vinsælan viðkomustað ferðamanna, þar sem er rekið rjómabú og ostaframleiðsla auk verslunar með eigin afurðir og vörum úr héraði.
Berglind Viktorsdóttir, framkvæmdastjóri Hey Iceland fór yfir sögu Ferðaþjónustu bænda sem hefur byggt á samstarfi við bændur um áratuga skeið og vörumerkið Hey Iceland sem sérhæfir sig í ferðalögum á landsbyggðinni. Þá fjallaði hún um framtíðarhorfur og vaxtarmöguleika í ferðaþjónustu á landsbyggðinni.
Hjörleifur Finnson verkefnisstjóri hjá Vestfjarðastofu fór yfir möguleika landeigenda og bænda þegar kemur að framleiðslu og sölu vottaðra kolefniseininga. Í erindi hans kom fram að endurheimt votlendis væri ákjósanleg aðgerð til framleiðslu þessara eininga en einnig að kerfið í kringum þetta sé enn í mótun og því mikilvægt að flýta sér hægt.
Guðfinna Lára Hávarðardóttir býr ásamt fjölskyldu sinni á Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði á Ströndum og fjallaði um ýmis nýsköpunarverkefni sem þau hafa farið í á sinni jörð.

Þau stunda sauðfjárrækt, nautgriparækt og garðyrkju auk þess sem þau hafa ráðist í uppsetningu á matvælavinnslu. Hún nefndi áskoranir sem tengjast eftirlitsiðnaði sem eru hamlandi og kynnti BENIGN verkefni Nordic Energy Research sem hún hefur tekið þátt í.
Ingibjörg Þóranna Steinudóttir kynnti nýsköpunarverkefnið Urður ullarvinnsla sem er smáspunaverksmiðja sem hefur verið opnuð í Dölunum. Fyrirtækið kaupir ull beint frá bændum á svæðinum og framleiðir band m.a. úr lambsull sem er verðmætasta og mýksta ullin sem í boði er. Hjá Urði ullarvinnslu er framleitt band úr öllum sauðalitunum og því er litaúrvalið mjög fjölbreytt.
Sigurður Líndal verkefnisstjóri hjá Eimi fjallaði um möguleika á að nýta affallsvatn úr hitaveitum til að rækta snigla. Sniglaræktun henti vel á norðlægum slóðum og því um að ræða spennandi nýsköpunarhugmynd sem gæti hentað víða um land.
Elínborg Erla Ásgeirsdóttir, fjallaði um lífræna grænmetisrækt og hvernig eftirspurn eftir lífrænt vottuðum matvörum hefur aukist og hvernig slík ræktun getur aukið verðmæti afurða.
Steinþór Logi Arnarsson, formaður samtaka ungra bænda fjallaði um hvað það væri sem dregur ungt fólk í dreifbýli.

Hann fjallaði um starfsskilyrði í landbúnaði og hvernig helstu hindranir sem tengjast framboði á bújörðum og fjárhagsumhverfi greinarinnar geta haft áhrif á nýliðun í landbúnaði.
Málþinginu var svo lokað með pallborðsumræðum áður en velheppnuðu þingi var slitið.
Heilt yfir má segja að bjartsýni hafi einkennt málþingið en augljóst að tækifærin eru til staðar á landbúnaðarsvæðum á Vesturlandi og víðar. Það kom hins vegar einnig fram að íþyngjandi regluverk og hár uppbyggingarkostnaður eru þeir þættir sem helst hamla nýsköpun í dreifðum byggðum.
