Öll börn með!

SSVBarnó

Fimmtudaginn 13. nóvember fór fram ráðstefnan „Öll börn með“ á Garðavöllum á Akranesi, þar sem saman komu stjórnendur og listafólk sem vinna að menningarstarfi fyrir börn um land allt. Ráðstefnan var samstarfsverkefni Listar fyrir alla fyrir hönd menningar-, nýsköpunar- og háskólamálaráðuneytisins, SSV og Akraneskaupstaðar. Ráðstefnan markaði lok Barnó – Best Mest Vest í ár, sem lauk daginn eftir.

Logi Einarsson menningarmálaráðherra setti ráðstefnuna og lagði áherslu á mikilvægi þess að öll börn hafi jafnan aðgang að menningu, óháð uppruna, búsetu eða efnahag. Það samræmist Barnasáttmálanum, sem hefur lagagildi á Íslandi og tryggir börnum rétt til fjölbreytts menningarstarfs.

Á ráðstefnunni fjallaði Elfa Lilja Gísladóttir um árangur og fjölbreytt starf Listar fyrir alla, Vigdís Jakobsdóttir hjá Miðstöð barnamenningar kynnti verkefni um kortlagningu barnamenningar á landsvísu, Signý Ormarsdóttir og Sigursteinn Sigurðsson menningarfulltrúar landshlutasamtaka kynntu barnamenningarhátíðirnar Bras á Austurlandi og Barnó á Vesturlandi ásamt fleiri erindum. Á ráðstefnunni kom jafnframt fram í beinu streymi frá San Francisco Sahba Aminikia áhrifaríkt erindi um barnamenningarhátíð sína, Flying Kite sem hann heldur á stríðshrjáðum svæðum og í flóttamannabúðum fyrir börn í viðkvæmri stöðu.

Ráðstefnudagurinn endaði með menningarferð um Akranes undir leiðsögn Haraldar Benediktssonar bæjarstjóra Akraneskaupstaðar, en þar fluttu nemendur Tónlistarskóla Akraness lifandi tónlist í Akranesvita og sirkushópurinn Hringleikur sýndi listir sínar í Hafbjargarhúsi. Lögð var áhersla á að börn séu ekki aðeins framtíðin, heldur nútíðin, og að niðurstöður dagsins muni nýtast í áframhaldandi uppbyggingu barnamenningar á landsvísu.

Barnó – Best Mest Vest lauk formlega 14. nóvember eftir marga fjölbreytta viðburði um Vesturland frá byrjun október. Markmiðið var bæði að efla menningarframboð til barna og styðja listafólk og stofnanir í starfi sínu með yngri kynslóðinni.