BARNÓ er hafin! Húrra!

SSVBarnó, Fréttir

Barnamenningarhátíðin Barnó – BEST MEST VEST er nú farin af stað og viðburðir fyrir börn spretta fram um allt Vesturland. Markmið hátíðarinnar er að börn skapi, njóti og taki virkan þátt í menningu, og því verður víða boðið upp á skapandi smiðjur og fjölbreytta menningarviðburði í öllum sveitarfélögum landshlutans. Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi, hvort sem áhuginn liggur í tónlist, myndlist, sögum eða hreyfingu.

Barnó er áhersluverkefni Sóknaráætlunar Vesturlands og nýtur stuðnings frá Barnamenningarsjóði Íslands. Í ár fer hátíðin fram með nýju sniði þar sem hún nær til alls Vesturlands í stað þess að fara aðeins á milli þriggja staða eins og áður. Með þessu nýja fyrirkomulagi verður hátíðin bæði stærri, fjölbreyttari og aðgengilegri fyrir öll börn á svæðinu.

Framundan er litrík og lifandi dagskrá. Þann 17. október fara hestafimleikar fram í Nesoddahöllinni í Búðardal þar sem hestamannafélögin Glaður og Þytur leiða saman hesta og börn í kraftmikilli sýningu. Sama dag hefst tónlistarsmiðjan Taktur og texti í Sögumiðstöðinni í Grundarfirði þar sem ungt fólk fær að skapa eigin lög og texta undir leiðsögn listamanna. Í Hvalfjarðarsveit verður opið hús í félagsmiðstöðinni Heiðarskóla þar sem fram fer kökukeppni og æðislegi lekurinn PÓGÓ og á Hellissandi fer fram myndlistarsmiðjan Litadýrð jökulsins í félagsmiðstöðinni Afdrepi, þar sem litir og ímyndunarafl fá að ráða ferðinni.

Við hvetjum alla til að fylgjast með dagskránni á ssv.is/barno og á Facebook-síðu hátíðarinnar, þar sem nýir viðburðir og myndir bætast stöðugt við.