Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur í samstarfi við RÚV hinn árlega viðburð Klassíkin okkar í Hörpu föstudaginn 29. ágúst. Yfirskrift tónleikanna er að þessu sinni Söngur lífsins og á efnisskránni eru mörg af ástsælustu sönglögum þjóðarinnar.
En tónleikarnir eru sérstakir að því leitinu til að Sinfóníuhljómsveitin, RÚV og landshlutasamtökin tóku höndum saman og settu af stað verkefnið Sinfó í sundi sem gengur útá að vera með tónleika í beinu streymi í sundlaugum og baðstöðum um land allt.
Vesturland lætur sitt ekki eftir liggja og eru sex laugar að taka þátt að þessu sinni. Dagskrá er mismunandi eftir laugum, til að mynda mun olympíufarinn Íris Grönfeldt stýra sundleikfimi undir tónum þjóðarhljómsveitarinnar í sundlauginni í Borgarnesi og boðið verður uppá heilsudrykk úr ölkelduvatni og snæfellskum jurtum í sundlauginni í Stykkishólmi.
Ljóst er að það verður mikil upplifun að svamla í sundi undir tónum Sinfóníuhljómsveitarinnar – hljómsveit okkar allra í frábæru sundlaugunum sem við eigum!
Eftirfarandi laugar á Vesturlandi taka þátt í verkefninu:
Hreppslaug í Skorradal
Sundlaugin í Borgarnesi
Sundlaugin í Stykkishólmi
Sundlaugin í Grundarfirði
Sundlaugin í Ólafsvík
Sundlaugin Jaðarsbökkum Akranesi
Viðburður Sinfóníuhljómsveitarinnar á FB