Starfamessa 2025 er eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Vesturlands 2025. Haldnar verða þrjár starfamessur í öllum framhaldsskólum á Vesturlandi:
● Fjölbrautaskóla Snæfellinga (FSN) í Grundarfirði þann 30. september
● Menntaskóla Borgarfjarðar í Borgarnesi (MB) þann 1. október
● Fjölbrautaskóla Vesturlands Akranes (FVA) þann 3. október.
Hvað er Starfamessa?
Starfamessa er viðburður þar sem fyrirtæki, stofnanir og menntastofnanir kynna störf, starfsgreinar og menntunartækifæri fyrir nemendum grunn- og framhaldsskóla og öðrum áhugasömum. Slíkar messur hafa verið vinsælar meðal grunn- og framhaldsskólanema sem vilja kynna sér framtíðarmöguleika betur, bæði varðandi nám og störf. Fyrirtæki og stofnanir nota messuna til að kynna starfsemi sína og krækja sér í „framtíðar“ starfsfólk.
Markmið Starfamessu:
● Að kynna fjölbreytt námstækifæri á Vesturlandi
● Að kynna fjölbreytt atvinnutækifæri á Vesturlandi.
● Að skapa beint samtal milli nemenda og atvinnulífsins.
● Að auka meðvitund um hvaða menntun og færni skiptir máli í framtíðarstörfum.
● Að virkja nemendur í gegnum ratleik og aðrar gagnvirkar aðferðir.
Markmið messunnar er að gefa gestum innsýn í fjölbreytt störf og starfsleiðir sem finna má innan fyrirtækja og stofnana á svæðinu – með það að leiðarljósi að kveikja áhuga og varpa ljósi á möguleika framtíðarinnar.
Markhópur
Nemendur úr 9. og 10. bekk í grunnskólum á Vesturlandi, nemendur í framhaldsskólum og aðrir áhugasamir íbúar svæðis.
Af hverju taka þátt?
Starfamessa er góður vettvangur fyrir fyrirtæki og stofnanir til að kynna þau störf sem finna má innan vébanda þeirra. Þetta er einstakt tækifæri til að sýna áhugasömu ungu fólki hversu ríkt Vesturland er af mannauði og að atvinnulíf svæðisins inniheldur allskonar spennandi tækifæri.
Til að starfamessurnar heppnist sem best, þarf þátttöku atvinnulífsins til að varpa ljósi á störfin sem búa í fyrirtækjum og stofnunum á Vesturlandi og til að hvetja ungt fólk til að íhuga nýjar starfsleiðir. Það er mikilvægt að stuðla að upplýstu starfsvali og styrkja tenginguna milli menntunar og atvinnulífs. Opna augu unga fólksins fyrir þeim fjölmörgu tækifærum – ævintýrum – sem vestlenskt atvinnulíf inniheldur.
Verkefnið er unnið í samstarfi við alla framhaldsskóla og grunnskóla á Vesturlandi og verður undirbúningur í höndum verkefnahóps á hverjum stað og hver viðburður aðlagaður að fjölda þátttakenda og gesta. Gert er ráð fyrir að hluta úr degi verði opið fyrir almenning.
Gert er ráð fyrir viðveru innan eða utanhúss (eftir þörfum) og fyrirtæki og stofnanir geta kynnt starfsemi sína með ýmsum hætti. Reynslan hefur sýnt að gagnvirkar kynningar fá mikla athygli unga fólksins og eru vinsæl leið til að ná til þeirra.
Ekki verða innheimt þátttökugjöld en til að skipuleggja starfamessur á hverjum stað er æskilegt að fá skráningar fyrirtækja sem hafa áhuga á að kynna störfin sín.
Fyrirtæki og stofnanir á Vesturlandi eru eindregið hvött til að taka þátt og skrá sig til leiks.
Nánari upplýsingar veita
Hlédís Sveinsdóttir, verkefnastjóri hlediss@gmail.com
Hrafnhildur Tryggvadóttir, atvinnuráðgjafi SSV, hrafnhildur@ssv.is