Öruggt Vesturland – fjölmenni á samráðsfundi

SSVFréttir

Nær hundrað manns tóku þátt í fyrsta samráðsfundi Öruggara Vesturlands í gær, 6. maí 2025 að Hótel Hamri í Borgarnesi.  Samstarfsvettvangurinn um Öruggara Vesturland var settur á stofn á Farsældardeginum fyrir rúmu ári síðan. Að samstarfinu standa rúmlega tuttugu aðilar, þar af öll sveitarfélögin í landshlutanum, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, mennta- og fjölbrautaskólar á Vesturlandi, Vesturlandsprófastsdæmi, Íþróttasamböndin, sýslumaðurinn á Vesturlandi, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi auk lögreglustjórans á Vesturlandi.  Ríkislögreglustjóri styður við verkefnið sem hluti af aðgerðum gegn ofbeldi meðal og gegn börnum.

Á samráðsfundinum var áhersla á farsæld barna og ungmenna, og hvernig megi styðja betur við þau á Vesturlandi.  Erindi voru frá Hugrúnu Hrönn Kristjánsdóttur, þýðanda bókarinnar “Líkaminn geymir allt” um tengsl áfalla og fíknar, Bergdísi Wilson, sviðsstjóra Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu um úrræði þeirra Heillaspor, Föruneyti barna og Landsteymið og Þóru Jónsdóttur, sérfræðing hjá SAFT – netöryggismiðstöðinni og Fjölmiðlanefnd um hinn stafræna heim barna.

Á fundinum unnu þátttakendur í hópum með raunhæf dæmi um börn í vanda. Þá var rætt hvernig væri hægt að þróa frekar úrræði fyrir börn á Vesturlandi, hvað væri hægt að gera til að styðja betur við fjölskyldur á svæðinu og hvað mætti gera enn betur.

Bára Daðadóttir, verkefnastjóri farsældarmála hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi: „Samráðsfundurinn sýnir glögglega þann mikla áhuga og vilja sem er til staðar á Vesturlandi til að vinna saman að farsæld barna og ungmenna.  Með samstarfi allra þessara aðila getum við unnið markvisst að því að styrkja stuðningsnetið og fjölga úrræðum fyrir börnin okkar og fjölskyldur þeirra.“

Jón Arnar Sigurþórsson, forvarnarfulltrúi og samfélagslögreglumaður hjá lögreglustjóranum á Vesturlandi: “Við hjá lögreglunni höfum þegar fundið hvað Öruggara Vesturland sem lykilþáttur í vinnu okkar að samfélagslöggæslu skiptir miklu máli. Það tengir okkur öll sem komum að velferð barna og ungmenna. Von okkar er að fundurinn í dag muni efla enn frekar samvinnu og upplýsingaflæði milli stofnana og sveitarfélaga til að tryggja öryggi og farsæld barna á Vesturlandi.”

Hægt er að hafa samband við samfélagslögregluna á Vesturlandi með því að senda tölvupóst á vesturland@logreglan.is  

Í neyð skal hafa samband við 112