Leiðir til byggðafestu
Fjórðungssamband Vestfirðinga (FV), Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) standa sameiginlega að verkefni með styrk frá innviðaráðuneytinu til að efla byggð á því landsvæði sem mest á undir sauðfjárrækt. Þar er litið til Dalabyggðar, Reykhólahrepps, Strandabyggðar, Kaldrananeshrepps, Árneshrepps og Húnaþings vestra.
Í sveitarfélögunum sex er talin mikil þörf á að fjölga nýsköpunarverkefnum til að treysta byggðafestu á lögbýlum, auk þess að veita frumkvöðlum á svæðinu stuðning og hvatningu. Með verkefninu er hvatt til nýsköpunar og verðmætasköpunar. Áherslan er fyrst og fremst á lögbýli á strjálbýlum svæðum.
Verkefnið fékk heitið “Leiðir til byggðafestu”. Fyrsta skrefið við framkvæmd verkefnisins var tækifæragreining, annað skrefið er stefnumótun og þriðja skrefið fræðsla og tengslamyndun til að hrinda tækifærum í framkvæmd. Íbúum á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra býðst fjölbreytt fræðsla haust og vetur 2024-2025. Námskeið og viðburðir á vegum verkefnisins eru þátttakendum að kostnaðarlausu nema annað sé tekið fram.
1) 30. júní og 1. júlí 2024 voru haldin þrjú námskeið í “auðgandi landbúnaði” sem oft er kallað „No dig/No till“. Það voru hjónin Þórunn MJH Ólafsdóttir og Haraldur Guðjónsson hvítlauksbændur að Neðri-Brekku í Dölunum sem miðluðu reynslu sinni. Þau eru frumkvöðlar í svokallaðri „No dig/No till“ aðferð í ræktun hérlendis. Aðferðin er einnig kennd við „lagsagna“ þar sem náttúran sér sjálf um ræktunarvinnuna í hverju lagi fyrir sig. Þessi árangursríka aðferð nýtist í allskonar ræktun grænmetis fyrir heimili, veitingahús eða til framleiðslu fyrir sölu. Í þessu samhengi má nefna að innflutningur á Hvítlauk er mörg hundruð tonn á ári. Felast því augljós tækifæri í að auka ræktun hans innanlands.
Fyrri námskeiðadagurinn hófst í Sælukotinu Árbliki sunnudaginn 30. júní kl.13:00 og kl. 18:00 í Sauðfjársetrinu á Ströndum. Seinni námskeiðadagurinn var mánudaginn 1. júlí kl. 16:00 í Félagsheimilinu Víðihlíð.
2) 24. oktober 2024 var haldið námskeiðið „Frá hugmynd að rekstri – erindi og umræður” með Huldu Brynjólfsdóttur sem er eigandi ullarvinnslunar Uppspuna á Suðurlandi. Hulda er búfræðingur og kennari. Alin upp í sveit og býr nú að Lækjartúni í Rangárvallasýslu. Þar reka hún og maðurinn hennar blandað bú, þar sem sauðfé og nautgripir leika lykilhlutverk. Ullarvinnsluna Uppspuna opnuðu þau árið 2017 með hinum störfum á bænum. Hún tók fyrir hvernig það er að fá hugmynd og hvaða skref þarf að taka til að byrja. Hvað það er sem þarf til að stofna fyrirtæki, byggja það upp og halda því gangandi. Hún fór yfir þá þætti sem skipta máli frá því að hugmynd fæðist og yfir í starfandi fyrirtæki.
Námskeiðið var haldið í félagsheimilinu Tjarnarlundi í Dalabyggð 24. Október kl. 20:00.
3) 3. nóvember var haldið námskeiðið “Leiðtogafærni í eigin lífi”. Námskeiðið er leitt af Jóni Halldórssyni hjá mennta- og þjálfunarfyrirtækinu KVAN. Námskeiðið miðaði að því að þátttakendur finndu kraftinn til þess að taka næsta skref. Fengu aukið sjálfstraust til þess að hámarka árangur í starfi og/eða einkalífi. Verða markmiðadrifin(n) og ná aukinni einbeitingu í verkefnum en á sama tíma ná að njóta augnabliksins. Námskeiðið var miðað bæði að einstaklingum sem vildu styrkja sig í persónulega lífinu eða á öðrum sviðum.
Námskeiðið var haldið á Hótel Laugarbakka í Húnaþingi vestra 3. Nóvemer kl.10:00 -17:00.
4) Frá 15. október 2024 til 15. febrúar 2025 eru opin fyrir hagnýt vefnámskeið sem þróuð voru af Matís og miðuð að smáframleiðendum matvæla. Matís er stærsta rannsóknafyrirtæki landsins á sviði matvælarannsókna og starfar með stórum og smáum fyrirtækjum í matvælaiðnaði. Starfsfólk Matís hefur áralanga reynslu af rannsóknum á matvælum og leggur ríka áherslu á að miðla þessari þekkingu til matvælaiðnaðar á Íslandi. Matís hefur gefið út upplýsingar fyrir nýja matvælaframleiðendur sem fela m.a. í sér leiðbeiningar til að hefja framleiðslu, dreifingu og sölu. Eftirtalandi námskeið eru í boði: 1. Leyfismál, gæðahandbók, innra eftirlit og stofnun fyrirtækja. 2. Örverur á kjöti. 3. Slátrun og kjötmat. 4. Söltun og reyking. 5. Umbúðamerkingar matvæla og pökkun. 6. Hráverkun og pylsugerð. 7. Sögun, úrbeining og marinering.
Námskeiðið stendur þátttakendum til boða á netinu frá 15. okt 2024 til 15. febrúar 2025.