Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi


Hlutverk, markmið og verkefni


Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) hafa verið starfrækt frá árinu 1969. Starfssvæði samtakanna er frá botni Hvalfjarðar í suðri að botni Gilsfjarðar í norðri. Varnarþing samtakanna er á skrifstofu SSV í Borgarnesi.

Öll sveitarfélög á Vesturlandi eiga aðild að SSV og árið 2021 eru eftirfarandi tíu sveitarfélög aðilar:

 • Akranes
 • Borgarbyggð
 • Dalabyggð
 • Eyja- og Miklaholtshreppur
 • Grundarfjarðarbær
 • Helgafellssveit
 • Hvalfjarðarsveit
 • Skorradalshreppur
 • Snæfellsbær
 • Stykkishólmsbær

SSV eru landshlutasamtök sveitarfélaga á Vesturlandi og starfa með tilvísun til 97. greinar sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011:

97. gr. Landshlutasamtök sveitarfélaga.

 • Sveitarfélögum er heimilt að starfa saman innan staðbundinna landshlutasamtaka sveitarfélaga er vinni að sameiginlegum hagsmunamálum sveitarfélaganna í hverjum landshluta.
 • Starfssvæði landshlutasamtaka fer eftir ákvörðun aðildarsveitarfélaga sem staðfest hefur verið af ráðuneytinu. Landshlutasamtök skulu þó aldrei vera fleiri en átta á landinu öllu. Sveitarfélög sem liggja innan starfssvæðis landshlutasamtaka eiga rétt á aðild að þeim. Ráðuneyti og opinberar stofnanir skulu ávallt leita umsagnar hlutaðeigandi landshlutasamtaka um stefnumótun eða ákvarðanir sem varða viðkomandi landsvæði sérstaklega.
 • Landshlutasamtök geta með samningum eða samkvæmt heimildum í sérlögum tekið að sér verkefni eða aðra starfsemi sem tengist hlutverki þeirra skv. 1. mgr., svo sem verkefni tengd byggðaþróun eða öðrum sameiginlegum hagsmunum sveitarfélaga.

Með hliðsjón af ofangreindri lagagrein er SSV samstarfsvettvangur sveitarfélaganna varðandi hagsmunagæslu og þjónustu í ýmsum málaflokkum í landshlutanum s.s. byggðaþróun, samgöngumál, atvinnumál, menningar- og menntamál ásamt fleiri málum sem upp geta komið á þessum vettvangi.

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi starfa því annars vegar með hliðsjón af áðurnefndum lagaákvæðum sem og í samræmi við sérlög samtakana eins og þau voru samþykkt á aðalfundi 2014.

Í lögum SSV kemur fram að markmið samtakanna eru;

 • Að vinna að hagsmunum sveitarfélaganna á Vesturlandi einkum í atvinnu-, efnahags-, mennta-, skipulags-, samgöngu-, og félagsmálum.
 • Að efla samstarf sveitarfélaganna og stuðla að víðtækri þekkingu sveitarstjórnarmanna á verkefnum sveitarstjórna og vinna að því að gera verkefni sveitarstjórna eftirsóknar- og áhugaverð.
 • Kynna kosti Vesturlands, efla samkennd íbúa og styrkja þjóðfélagslega aðstöðu landshlutans.

SSV hefur tekið að sér í gegnum samninga eða samþykktir að sinna ýmsum verkefnum fyrir landshlutann.

 • Með samningi við Byggðastofnun hefur SSV tekið að sér atvinnuráðgjöf og ýmis byggðaþróunar verkefni á Vesturlandi.
 • Í samþykktum um Þjónustusvæði Vesturlands fyrir málefni fatlaðra kemur fram að stjórn SSV fer með yfirstjórn verkefnisins og starfsmenn SSV halda utanum fjárhagslega umsýslu þess.
 • Með samningi við Vegagerðina sér SSV um skipulag og framkvæmd almenningssamgangna á milli sveitarfélaga á Vesturlandi og með samningi við aðra landshluta sér SSV um akstursleiðina á milli Reykjavíkur og Akureyrar og Búðardals og Hólmavíkur.
 • Með þjónustusamningi við stjórn Sorpurðunar Vesturlands sér SSV um rekstur urðunarstaðarins í Fíflholtum.
 • SSV á allt hlutafé í Vesturlandsstofu (Markaðsstofu Vesturlands) og er hún í skipuriti undir SSV

Stjórnskipulag SSV


Aðalfundur SSV sem fer fram vor hvert hefur æðsta vald í starfsemi samtakanna. Stjórn SSV heldur haustþing ár hvert um hagsmunamál sveitarfélaganna og getur aðalfundur vísað ákveðnum verkefnum sínum til haustþings. Á aðalfundi er kosin stjórn til tveggja ára sem skipuð er 12 fulltrúum. Sveitarfélög með 3000 íbúa eða fleiri skulu eiga tvo fulltrúa en sveitarfélög með færri en 3000 íbúa eiga einn fulltrúa. Akranes og Borgarbyggð eru því með tvo menn í stjórn hvort sveitarfélag en önnur eru með einn fulltrúa í stjórn.

Stjórn SSV ræður framkvæmdastjóra og aðra starfsmenn sem sjá um framkvæmd verkefna og ákvarðanna stjórnar.