Frændur vorir Danir sóttir heim

SSVFréttir

Frásögn af ferð sveitarstjórnarfólks af Vesturlandi til Sjálands í lok apríl

Um nokkurt skeið hefur það tíðkast að sveitarstjórnarfólk á Vesturlandi fari í fræðsluferðir einu sinni á kjörtímabili til að kynna sér málefni sveitarfélaga og byggðaþróunaraðgerðir hjá nágrannaþjóðum. Í tvígang hefur verið farið til Noregs og einu sinni til Skotlands.  Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) hafa séð um skipulag og undirbúning ferðanna.

Að þessu sinni var ákveðið að fara til Danmerkur og var lögð sérstök áhersla á kynna sér aðkomu sveitarfélaga að atvinnu- og byggðaþróunarverkefnum. Alls fóru í ferðina 19 fulltrúar frá átta sveitarfélögum á Vesturlandi, auk þess sem þrír starfsmenn frá Samtökum sveitarfélaga voru með í ferðinni. Hópurinn gisti í Kaupmannahöfn og var gert út þaðan og farið víða um Sjáland. Haldið var til Danmerkur þriðjudaginn 23. apríl og komið heim föstudagskvöldið 26. apríl.

Átaksverkefni í fjölgun starfa á landsbyggðinni

Strax eftir komuna til Kaupmannahafnar var haldið á fund Norrænu ráðherranefndarinnar þar sem starfsmaður hennar Torfi Jóhannesson, fyrrverandi atvinnuráðgjafi hjá SSV og sveitarstjórnarfulltrúi í Borgarbyggð, tók á móti hópnum.  Torfi fræddi okkur um norrænt samstarf, starfsemi ráðherranefndarinnar og sérstakalega landbúnaðar- og skógræktarmálin en hann starfar við þá málaflokka.  Í kjölfarið varð töluverð umræða um kjötframleiðslu okkar Íslendinga sem er aðeins örlítið brot af framleiðslu Dana, fiskeldi og umhverfismál.  Lise Østby ráðgjafi í byggðmálum flutti síðan erindi um staðsetningu opinberra starfa og átaksverkefni sem Norðmenn og Danir hafa ráðist í við að staðsetja slík störf utan höfuðborgarsvæðis.  Hún benti á að Norðmenn hafa flutt ýmsar opinbera eftirlitsstofnanir frá Osló eða valið að staðsetja umsjón með nýjum verkefnum utan Osló. Á síðustu árum hafa þeir staðsett um 630 störf sem mörg hver tengjast opinberu eftirliti, innheimtu eða opinberum innkaupum, á landsbyggðunum.  Hún gerði einnig grein fyrir verkefni sem hefur verið í gangi í Danmörku og felst í því að staðsetja 8.000 störf utan Kaupmannahafnar, en þetta átaksverkefni ríkisstjórnarinnar hófst 2015 og er áætlað að því ljúki í ár. Þetta verkefni Dana jafngildir því að á Íslandi yrðu 400 eldri eða ný opinber störf staðsett á landsbyggðinni. Það kom fram í máli Lise að markmiðin með því að staðsetja þessi störf utan höfuðborgar væri alla jafna, að skapa jafnvægi í byggðaþróun, hagræða í rekstri hins opinbera og efla vinnumarkað um allt land. Í kjölfar þessa varð mikil umræða um staðsetningu opinberra starfa á Íslandi og starfa án staðsetningar.

Haldið til Odsherreds

Miðvikudaginn 24. apríl fór hópurinn í heimsókn til sveitarfélagsins Odsherreds sem er 33 þúsund íbúa sveitarfélag á Norðvestur-Sjálandi.  Í Odsherred eru tæplega 25 þúsund sumarhús og þar er ferðaþjónusta í miklum blóma.  Dagskrá hófst í gamla þinghúsinu í Nykøbing þar sem Hans Jörgen Olsen framkvæmdastjóri „Visit Odsherred“, sem er n.k. markaðsstofa sveitarfélagsins og Odsherreds jarðsvangs, kynnti fyrir okkur starfsemina, en ferðaþjónustan og jarðvangurinn vinna náið saman.  Jarðvangurinn í sveitarfélaginu er sá eini í Danmörku sem hefur vottun frá UNESCO.  Það sem gerir hann einstakan er hversu skýrt má sjá á svæðinu hvernig Ísaldarjöklar hafa mótað landslagið.  Jarðvangurinn leggur áherslu á menningarsögu svæðisins, listsköpun en svæðið hefur verið mjög vinsælt af listmálurum vegna einstakrar birtu og loks er mikil áhersla lögð á matvæli sem ræktuð eru innan jarðvangsins, en óvíða í Danmörku má finna jafn frjósaman jarðveg.  Með þetta í huga fór hópurinn í hádegisverð á veitingastaðinn „Det vilde køkken“ sem eldar eingöngu mat úr hráefni úr héraði.  Hádegisverðurinn var einstök upplifun og frábært að sjá hvað hægt er að gera úr heimafengnu hráefni.  Eftir góðan málverð var farið í ráðhús sveitarfélagsins þar sem Thomas Adelskov bæjarstjóri tók á móti hópnum og fræddi okkur um sameiningar sveitarfélaga í Danmörku og hvernig til hefur tekist með sameiningu Odsherreds sem varð til í stóra sameiningarátakinu árið 2007.  Hann kom m.a. inn á að samræming á þjónustu hefði verið þungt verkefni og tekið tíma að ná viðunandi þjónustustigi sem jafnframt var ekki of kostnaðarsamt fyrir sveitarfélagið.  Hann nefndi að það væri tvímælalaust ávinningur að í dag væri mun einfaldara að fá til starfa fólk með meiri fagþekkingu. Margt af því sem hann kom inn á hljómaði kunnuglega fyrir Vestlendinga sem hafa vissulega reynslu af sameiningarmálum.

Í sól og hita fyrsta sumardag

Á fimmtudegi viðraði vel enda Sumardagurinn fyrsti á Íslandi og því gott að hitinn í Danmörku væri nálægt 20 gráðum.  Haldið var til Sorø þar sem Region Sjælland hefur sínar höfuðstöðvar, en Danmörku er skipt upp í fimm svæði (regioner).  Stærsta verkefni þeirra er rekstur sjúkrahúsa, en við vorum fyrst og fremst komin til þess að fræðast um aðkomu þeirra að byggðaþróunarverkefnum. Þar kom fram að þau hafa unnið að því að efla almenningssamgöngur á milli sveitarfélaga, stuðla að aukinni tæknimenntun innan fyrirtækja með samstarfi við tækniskóla og með því styðja við ýmis konar endurmenntun innan fyrirtækja og margt fleira áhugavert var rætt.  Hins vegar hafa ýmis atvinnuþróunar verkefni verið færð til sveitarfélaganna sem í samstarfi við atvinnulífið reka það sem mætti kalla „Hús atvinnulífsins“ þar sem eru ráðgjafar starfa með fyrirtækjum á svæðinu að ýmsum verkefnum, svo sem markaðssetningu, endurskipulagningu á rekstri, bættri stjórnun o.fl.  Því var farið í Hús atvinnulífsins þar sem ráðgjafar á staðnum ásamt fulltrúum frá sveitarfélögunum fræddu okkur um verkefnin og hvernig sveitarfélögin og fyrirtækin vinna að því að efla atvinnulíf.

Sömu áskoranir

Síðasta degi ferðarinnar var varið í Kaupmannahöfn þar sem Samband danskra sveitarfélaga (KL) var heimsótt.  Þar fengum við áhugaverða kynningu á rekstri og fjármálum sveitarfélaga, hagræðingu og samstarfi ríkis og sveitarfélaga um bættan rekstur.  Auk þess sem við fengum kynningu á þeim áskorunum sem dönsk sveitarfélög standa frammi fyrir, en ljóst er að öldrun íbúa, ný tækni í samskiptum og aukið samráð við íbúa og atvinnulíf eru áskoranir sem sveitarfélögin hvar sem er í hinum vestræna heimi standa frammi fyrir.  Eftir heimsóknina var haldið út í góða veðrið og spókuðu ferðalangar sig í Kaupmannahöfn það sem eftir lifði dags, áður en haldið var út á Kastrup og heim til Íslands.

Góður samhristingur

Það var athyglisvert að sjá hversu margt er líkt með þessum löndum og það eru svipuð mál sem brenna á sveitarfélögunum.  Nefna má sem dæmi að samgöngur og fjarskipti voru mikið til umræðu þó svo að Danmörk sé mun minna og þéttbýlla land en Ísland og með um margt öðruvísi atvinnulíf. Ferðlangar voru sammála um að það sé mikilvægt fyrir sveitarstjórnarfulltrúa að kynna sér það sem efst er á baugi í málefnum sveitarfélaga hjá nágrannaþjóðum og sækja í reynslubanka þeirra. Heimsóknir sem þessar víkka sjóndeildarhringinn og það er oft hollt og gott að sjá hvernig aðrir gera hlutina.  Það má heldur ekki gleyma því að í svona ferðum eru ferðalangar oftar en ekki að skiptast á upplýsingum og skoðunum um hvernig þeir gera hlutina heima fyrir.  Þá er ljóst að í svona ferðum verða til tengsl sem auðvelda allt samráð og samstarf þegar heim er komið.

Páll S Brynjarsson

Ljósm. Svala Svavarsdóttir