Ferð atvinnuráðgjafa til Kanada

VífillFréttir

Um miðjan maí 2018 fórum við Ólafur Sveinsson fyrir hönd Atvinnuráðgjafar Vesturlands/SSV til Kanada í boði Byggðastofnunar. Tilgangur ferðarinnar var að kanna það hvernig nágrannar okkar í vestri bæru sig að í atvinnuþróunarmálum í dreifbýli. Stefnan var tekin á Toronto í Ontario fylki. Mikill fjöldi byggingarkrana á víð og dreif um Toronto var það fyrsta sem blasti við okkur þegar ekið var inn í borgina. Hér söng, greinilega, og kvein í hjólum atvinnulífssins. Augljóst var að háhýsi, sem minntu helst á New York, spryttu víða upp sem gorkúlur um alla borgina því mörg eldri hús lágu nánast utan í þessum nýkrýndu minnismerkjum nútímans og framfara. Okkur var ekið á Marriott hótel í miðborginni þar sem gott var að koma í alla staði. Daginn eftir fórum við í okkar fyrstu vettvangsferð og byrjuðum hjá atvinnuþróunarfélagi Niagara svæðisins. Þar kom ýmislegt fram. M.a. áhyggjur manna af því hvað Toronto borg væri farinn að þrýsta mikið á að fá ræktarland undir sig til byggingar nýjum hverfum – en Ontario-búar eru ákaflega stoltir af sínum frjósama jarðvegi og þeim öfluga landbúnaði sem þrífst á honum. Þá er þeim greinilega umhugað um að á ræktarlandi sé framleiddur matur – þ.e. matvælaöryggi. Af sömu ástæðu er þeim ekkert sérstaklega vel við ný lög sem gera munu kanabis-neyslu löglega því margir, og í raun góður meirihluti, gróðurhúsabænda ætlaði sér að skipta yfir í þá ræktun. Einnig kom það skýrt fram hjá þeim þegar þeir spurðu um stöðu okkar gagnvart EB og innfluting á kjöti þaðan, að þeir vöruðu mjög við því, við ættum að nota stöðu okkar og hreinleika með því að halda óbreyttri stefnu gagnvart umhverfinu.

Kelly Provost atvinnuráðgjafi sagði okkur frá fyrirtækjakönnun sem hún framkvæmir. Markmið könnunarinnar er að draga upp virðiskeðju atvinnugreina í héraðinu í þeim tilgangi að greina veika hlekki eða þá sem hreinlega vantar. Áherslur í atvinnuþróunarverkefnum eru síðan unnar út frá þeim niðurstöðum.

Þá fengum við bæði fyrirlestur um rannsóknir á þróun umhverfisvæns skordýraeiturs en það var gert með því að finna náttúrulega óvini pláganna og þeim síðan dreift eins og skordýraeitri á akrana. Okkur var síðan boðið að skoða tilraunastofur sem unnu að þessu verki og mörgum öðrum.

Við komum næst við hjá vínbónda sem bauð okkur að smakka afbragðs rauð-, hvít- og rósavín. Athygli vöktu nýstárlegar hugmyndir við að halda vínberjasólgnum smáfuglum frá. Frúin á bænum hafði keypt sér hauk og fálka og lært að temja þá. Síðan sendi hún þá (þó aðallega haukinn) á loft þegar afæturnar mættu á akurinn og hélt þannig afföllunum í lágmarki. Þá vakti líka athygli hvernig lömb voru nýtt til að snyrta vínviðinn á neðsta hluta hans. Mikilvægt er að nýjar greinar vaxi þar ekki svo vöxturinn fari sem mest í þrúgurnar sem eru efst. Í staðinn fyrir fólk í þetta verk hafði bóndinn séð Ný-Sjálendinga beita lömbum á viðinn og þau átu laufin af. Síðan voru lömbin send í sláturhús að verki loknu og kjötið helst selt veitingastöðum sem buðu upp á vín frá þeim. Kjötið og vínið var svo gjarnan boðið saman á þessum veitingastöðum og þessi saga sögð.

Við komum í bæinn Grimsby sem var nánast í jaðri Toronto en mátti muna fífil sinn fegurri. Þetta var 50.000 manna bær og þar hafði verið mikið atvinnuleysi og þreningar í kjölfar mikilla breytinga í atvinnuháttum. En þeir sáu tækifæri í fallegum miðbæ, sem státaði af óvenju gömlum byggingum (m.v. N-Ameríku) og aðalgötu sem bar það eftirminnilega nafn „Elm street“. Miðbærinn hafði drabbast niður en með átaki heimamanna höfðu þeir náð að auka aðdráttarafl hans og þannig náð til sín verslun og þjónustu fólks sem bjó í Toronto sem og hefðbundnum ferðamönnum. Við fengum veitingar á gamalli slökkvistöð sem breytt hafði verið í glæsilegt kaffihús á meðan við hlustuðum á efni um þessi verkefni og öðrum tengdum í bænum.

Á öðrum degi heimsóttum við byggingarsvæði fyrir venjulega íbúa, sumardvalargesti og eldri borgara. Þarna var allnokkur íburður með smábátahöfn fyrir 1.000 báta við stórt vatnakerfi. Hverfið er hugsað fyrir það sem þeir kalla ný-borgara (e. new urbanists) og að geta blandað saman íbúum sem eru í fastri vinnu, á eftirlaunum eða einhversstaðar þar á milli. Hverfið var nokkuð langt komið og var glæsilegt í alla staði. Okkur var síðan boðið í mat af þróunarfélagi Simcoe County á meðan við hlýddum á ýmis erindi um starf þeirra og verkefni. Þar á eftir heimsóttum við kartöflubónda sem framleiddi úrvals kartöflur m.a. fyrir Lays en hann vildi nýta betur þær kartöflur sem voru útlitsgallaðar og hóf framleiðslu á úrvals vodka úr þeim. Gestir gátu tekið undir að því markmiði hafði verið náð.

Á þriðja degi heimsóttum við einn vinsælasta þjóðgarð í Kanada við strönd sem kölluð er The Sandbanks. Stjórnendur þjóðgarðsins búa við það lúxusvandamál að þurfa vísa fólki annað vegna mikillar aðsóknar. Afkoman er það góð þar að hagnaðurinn er notaður til að drífa áfram uppbyggingu annarra þjóðgarða í fylkinu. Á eftir lá leið okkar til Kingston þar sem við gistum síðan um nóttina. Kingston er á stærð við Reykjavík, rúmlega 120.000 íbúar, og var höfuðborg Kanada en bara í þrjú ár (1841-1843). Þar hittum við starfsmenn þróunarseturs á staðnum og fengum að skoða alla aðstöðuna. Þar veltu menn fyrir sér og spurðu út í þessi klassísku viðfangsefni þróunarsetra um það hvaða viðmið skal horft til þegar aðilar eru teknir inn í setrið og hvenær þeim bæri að fara ef þeir ílengdust. Þá bar opinberan stuðning og samkeppnissjónarmið á góma, spruningin hvað væri nýsköpun og fleira í þeim dúr, sem hljómaði mjög kunnuglega úr umræðum heima, t.d. við úrvinnslu á umsóknum í Uppbyggingarsjóð. Ekkert nýtt kom fram í því spjalli sem bendir til að við erum ekki að gera margt vitlaust á hérlendis. Kingston er fallegur bær, snyrtilegur og passlega stór fyrir okkur landsbyggðatútturnar. Þar mætti okkur fallegur miðbær, með húsum frá því á landnámstíma Evrópubúanna og vingjarnlegt fólk.

Daginn eftir fórum við að skoða stórt öryggisfangelsi í Kingston. Eftir að fangelsið þótti, af stjórnmálamönnum, ekki standast nútímakröfur um aðbúnað fanga var því lokað árið 2004. Þá tóku fyrrverandi fangaverðir á eftirlaunum upp á því að breyta því í safn þar sem boðið var upp á ítarlega leiðsögn og sagðar sögur af markverðustu viðburðum í sögu fangelsissins. Fangelsið var byggt á 19. öld hefur því mikla sögu að geyma. Flestir voru fangarnir í kringum 1.500. Helst var fjallað um uppreisnir, flótta en ýmislegt jákvætt líka.

Eftir skoðunarferðina í fangelsið heimsóttum við, Pétur Ásgeirsson, nýskipaðan sendiherra Íslands í Kanada sem situr í höfuðborginni Ottawa. Hann tók vel á móti okkur og bauð upp á mat og drykk. Mikið var spjallað á garðpalli sendiherrans í góðu veðri. Fljótlega kom í ljós að hann ólst upp í Borgarnesi og er sonur fyrrverandi sýslumanns þar. Þess má geta að annar starfsmaður sendiráðsins af þremur er líka Borgnesingur, Ólöf Sigvaldadóttir. Hún var hins vegar ekki viðstödd móttökuna.

Frá sendiherranum fórum við síðan til Montreal. Þar blöstu við okkur gríðarlegar endurbætur á gatnakerfinu þar sem borgarbrýr voru rifnar niður á mjög stóru svæði og endurlagðar annars staðar og voru að þessu sinni úr stáli en ekki steinsteypu eins og áður. Við fórum ekki í neinar skipulagðar skoðanaferðir í borginni en Byggðastofnun bauð hópnum til sameiginlegrar lokamáltíðar.

Margt var það athyglisvert sem við sáum í þessari ferð og varð okkur lærdómsríkt en líka hitt að athyglisvert var að heyra hvað viðfangsefnin voru og virðast vera lík í Kanada og á Íslandi og oft voru viðbrögðin og úrræðin mjög áþekk okkar. Þar má nefna mikla áherslu á uppbyggingu og viðhald innviða eins og samgöngumannvirkja og fjarskipta – einkum vega og lagningu ljósleiðara sem víðast. Það er ljóst að við getum samt sótt margt til Kanadamanna í aðferðum og leiðum bæði í byggða – og atvinnuþróunarmálum. Ólafur Sveinsson fór fyrir 18 árum á byggðaráðstefnu á Nova Skotcia svæðinu, þar sem orðið hafði aflabrestur og kallaði á gjörbreytingu í atvinnuháttum og voru það sambærileg vandamál sem við vorum að fást við þá í kjölfar samdráttar t.d. í þorskveiðum. Svo núna voru þeir með stór verkefni varðandi ljósleiðaravæðingu í dreifðum byggðum og virðast takast á við það með svipuðum hætti og við erum að gera.

Vífill Karlsson