57 – SSV stjórn
F U N D A R G E R Ð
Stjórnarfundur haldinn á skrifstofu SSV í Borgarnesi
þriðjudaginn 21. ágúst 2007, kl. 10.
Stjórnarfundur haldinn á skrifstofu SSV þriðjudaginn 21. ágúst 2007 kl. 10.
Mætt voru: Sigríður Finsen, Páll Brynjarsson, Finnbogi Leifsson, Kristjana Hermannsdóttir og Ása Helgadóttir. Auk þess sátu fundinn Ólafur Sveinsson og Hrefna B. Jónsdóttir, sem einnig ritaði fundargerð. Hrönn Ríkharðsdóttir boðaði forföll.
Dagskrá fundarins er eftirfarandi:
1. Aðalfundur SSV 20. sept. 2007.
2. Staða vaxtarsamnings.
3. Frumkvöðladagur 31.05.07.
4. Brautargengi á Snæfellsnesi í haust.
5. Fundur formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna, haldinn á Ísafirði 21. júní 2007.
6. Niðurskurður aflaheimilda og viðbrögð ríkisvaldsins við þeim – Kvótaskýrsla SSV.
7. Umsagnir
8. Fundargerðir
9. Lagt fram.
10. Önnur mál.
Aðalfundur SSV 20. sept 2007.
Formaður fór yfir nokkur atriði sem varða aðalfund SSV 20. sept. n.k. Upp hefur komið óhentug staða í nýbreyttum lögum SSV þar sem segir að nú skuli kjósa stjórn til tveggja ára en það stangast á við kjörtímabilið þar sem þrjú ár eru eftir af því. Framkvæmdastjóra falið að kanna hvaða leiðir eru færar til að að kjósa stjórn til eins árs að þessu sinni og að ári verði kosið til tveggja ára.
Fjallað um lagabreytingar er varða fulltrúafjölda á aðalfundi. Stjórn leggur ekki til breytingar á þessum lið en setur hann til umfjöllunar Alsherjarnefndar á aðalfundi.
Farið yfir drög að dagskrá aðalfundar. Samþykkt að hafa þema fundarins tengda fjármálum sveitarfélaga og viðbrögðum sem skapast við þann aflasamdrátt sem orðið hefur. Einnig hugmyndir að ræða framtíðarskipulag markaðsmála á Vesturlandi.
Farið yfir ályktanir aðalfundar sl. árs.
Staða Vaxtarsamnings.
Páll Brynjarsson fór yfir stöðu vaxtarsamnings. Samið hefur verið við Dalabyggð um sérstakt uppbyggingarverkefni í Dölum. Heimasíðan er komin upp. Auglýst hefur verið eftir styrkumsóknum og kynningarbæklingur er að verða tilbúinn. Starfsáætlun liggur fyrir en mun taka breytingum eftir aðstæðum. Unnið hefur verið að því að skoða aðstæður ferðaþjónustunnar á svæðinu. Stefnt er að stofnun klasahópa í haust. Næsti fundur framkvæmdaráðs verður haldinn mánudaginn 27. ágúst n.k.
Lagt var fram minnisblað um Markaðsstofu Vesturlands en uppi eru hugmyndir um að breyta UKV í Markaðsstofu Vesturlands. Framkvæmdastjórn á eftir að fjalla betur um þá hugmynd. Í september verður farið í kynningarferð um Vesturland.
Frumkvöðladagur 31.05.2007.
Ólafur Sveinsson og Sigríður Finsen sögðu frá Frumkvöðladegi sem haldinn var 31. mai sl. Haldin var ráðstefna þar sem frumkvöðlar héldu erindi. Upplifðu allt hópurinn – ALL SENSES GROUP- sem er klasi ferðaþjónustufyrirtækja á Vesturlandi fékk viðurkenninguna frumkvöðull ársins 2006.
Brautargengi á Snæfellsnesi í haust.
Framkvæmdastjóri sagði frá undirbúningi að Brautargengisnámskeiði sem stefnt er að að halda á Snæfellsnesi í haust. Námskeiðið er haldið af Impru og SSV – þróun og ráðgjöf leggur til starfsmann. Sambærilegt námskeið var haldið á Akranesi fyrr á árinu. Formaður lagði til að athugað yrði hvort ekki eru leiðir til að sveitarfélög þurfi ekki að taka þátt í kostnaði við verkefnið. Jafnframt verði skoðað hvort ekki verði hægt að halda Brautargengisnámskeið fyrir karlmenn.
Fundur formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna.
Fundur formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna var haldinn á Ísafirði þann 21. júní sl. Fundurinn sendi frá sér nokkrar ályktanir varðandi gerð umsagna alþingis þar sem iðulega er tími til umsagnavinnu afar stuttur. Skorað er á Sambandið að vinna vel að umsögn um skipulags- og mannvirkjalög. Málefni innflytjenda voru til umræðu og var send ályktun til Sambandsins að það beiti sér í þeim málum. Sambandið er einnig hvatt til að hraða vinnu við útfærslu á innihaldi viljayfirlýsingar ríkis og sveitarfélaga frá 22. mars 2007, einkum þeim þáttum sem snúa að fjármagnstekjuskatti og skattheimtu af einkahlutafélögum.
Niðurskurður aflaheimilda og viðbrögð ríkisvaldsins við þeim – Kvótaskýrsla SSV.
Vífill Karlsson, hagfræðingur, vann kvótaskýrslu fyrir SSV. Blaðamannafundur var haldinn 7. júlí sl. á Nordica sem tókst vel og náði þessi vinna nokkurri athygli og hefur talsvert verið leitað til SSV í kjölfarið. Að beiðni Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands var unnin sambærileg úttekt fyrir Vestmannaeyjar. Stjórnarmenn voru almennt á því að þessi vinna hefði heppnast vel.
Yfirlýsing frá stjórn SSV – 9. júlí 2007
Ný skýrsla SSV – þróunar og ráðgjafar leiðir í ljós að efnahagsleg áhrif á Vesturlandi af 30% skerðingu þorskkvóta nema 4,9 milljörðum króna á ári. Þar af nema þau 2 milljörðum í Snæfellsbæ, 1,6 á Akranesi, tæpum milljarði í Grundarfjarðarbæ, 350 milljónum í Stykkishólmi og 4 milljónum í Borgarbyggð. Sjávarútvegur er snar þáttur í atvinnulífi Vesturlands, sérstaklega á Snæfellsnesi þar sem fiskveiðar nema um 40% af þáttatekjum svæðisins og fikvinnslu um 30%.
Ákvörðun um 30% kvótasamdrátt í þorski er þungt áfall fyrir Vesturland. Ekki er einhugur meðal sjómanna, útgerðarmanna og sveitarstjórnarmanna um að nauðsynlegt sé að grípa til svo harkalegra aðgerða sem stefnir samfélögum í hættu. Því er mikilvægt að auka nú þegar hafrannsóknir við landið, samhliða því að auka dreifræði í fiskveiðiráðgjöfinni.
Stjórn SSV telur mjög brýnt að mótvægisðagerðir ríkisstjórnarinnar beinist að öllum svæðum Vesturlands sem ákvörðun um aflasamdrátt bitnar á.
Stjórn SSV telur að ríkisvaldið eigi að grípa tafarlaust til aðgerða sem gera sveitarfélögum, fyrirtækjum og einstaklingum kleyft að takst á við þessa erfiðleika og snúa vörn í sókn. Veigamikið er að sveitarfélög geti gripið til aðgerða fyrirfram en ekki eftirá, til að takast á við þann vanda sem framundan er.
Stjórn SSV mun fylgjast grannt með að mótvægisaðgerðir ríkisvaldsins skili sér til Vestlendinga.
Umsagnir.
Reglugerð um skiptingu í heilbrigðisumdæmi og drög að reglugerð um heilsugæslustöðvar. Fundarmenn sáu ekki ástæðu til að gera athugasemdir við drögin.
Fundargerðir.
a. Sorpurðun Vesturlands. Stjórnarf. 16.05, 08.08. og 20.08.2007.
b. Menningarráð Vesturlands 4.07.07.
c. Símenntunarmiðstöðin 05.06.07
d. Fjöliðjan 26.06.07.
Lagt fram.
• Ályktun stjórnar Eyþings vegna niðurskurðar á aflaheimildum.
• Bréf formanns Menningarráðs Vesturlands til menntamála- og samgönguráðuneytis þar sem óskað er eftir viðræðum um endurnýjun á menningarsamningi fyrir Vesturland.
Önnur mál.
Umsókn um styrk til gerðar kynningarmyndbands um Kvennaathvarf.
Erindinu hafnað.
Fjórðungsþing Vestfirðinga 7. – 8. september 2007. SSNV 24. ágúst 2007.
Framkvæmdastjóra falið að sækja fundina ef tök eru á.
Hagsmunagæsla sveitarfélaga á sviði úrgangsmála.
Samband íslenskra sveitarfélaga boðaði til fundar 16. ágúst sl. þar sem mættu fulltrúar sveitarfélaga og sorpfyrirtækja sveitarfélaganna til að ræða það að setja á fót tilraunaverkefni sem gengur út á að ráða verkefnisstjóra til að sinna hagsmunagæslu í úrgangsmálum fyrir hönd sveitarfélaganna. Lögð var fram kostnaðarskipting á milli sveitarfélaga. Sambandið mun leggja fram starfsaðstöðu. Fundarmenn tóku vel í málið og mun sveitarfélögum verða send erindi fljótlega. Stjórn Sorpurðunar hf. hefur samþykkt að taka þátt í verkefninu f.h. sveitarfélaga á Vesturlandi.
Heimsókn Félagsmálanefndar Alþingis 5. sept. 2007.
Þann 5. september n.k. mun Félagsmálanefnd Alþingis verða á ferð á Vesturlandi. Þeir óska eftir fundi með þröngum hópi hagsmunaaðila sveitarfélaganna í Borgarnesi.
Rætt var um efnistök og hverja skyldi boða til fundinn.
Aðalfundur Fjöliðjunnar.
HBJ sagði frá aðalfundi Fjöliðjunnar sem hún sótti 26. júní sl.
Fundur Byggðastofnunar.
Byggðastofnun boðaði fulltrúa frá Atvinnuþróunarfélögunum til fundar í Reykjavík 14. ágúst sl. þar sem þess var farið á leit að Atvinnuþróunarfélög leituðu svara meðal útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækja hver áhrif þorskaflaskerðinar á næsta fiskveiðiári muni hafa á starfsemi þeirra. Óskað er eftir hröðum vinnubrögðum.
Hópur sem fjallar um samninga Byggðastofnunar við Atvinnuþróunarfélögin.
Tveir fulltrúar frá atvinnuþróunarfélögunum hafa verið tilnefndir til að ræða við Byggðastofnun um samninga milli Byggðastofnunar og atvinnuþróunarfélaganna en samningarnir renna út um áramót. Þeir Aðalsteinn Óskarsson frá Vestfjörðum og Ólafur Sveinsson frá Vesturlandi eru fulltrúar atvinnuþróunarfélaganna í þessum viðræðum.
Tvöföldun Hvalfjarðarganga, nýr gangamunni 3 km austan núverandi.
Sigríður Finsen lagði fram erindi frá Gísla K. Halldórssyni sem gengur út á að við tvöföldun Hvalfjarðarganga eigi landtaka að norðanverðu að liggja til austurs. Með því styttist akstursvegalengd allra sem fara um göngin, nema þeirra sem aka til Akraness, um 3 km. Þessu erindi er vísað til samgöngunefndar SSV.
Vesturland í Evrópu.
Ólafur fór yfir minnisblað sem hann hefður áður lagt fram, um heimsókn hans til Brussel og hugmyndir um Vesturlandsskrifstofu þar. Ólafur átti fund með Ágústi Einarssyni, rektor á Bifröst, um að fá mastersnema í verkefnið. Ólafur fékk heimild til að vinna áfram að málinu.
Opnir dagar í Brussel.
Opnir dagar verða í Brussel 8. – 11. október n.k. Samþykkt að vinna í því að Vesturland sendi fulltrúa til Brussel samkvæmt því minnisblaði sem lagt var fram sl. vor.
Sorpurðun Vesturlands hf.
Framkvæmdastjóri sagði frá samþykkt stjórnar Sorpurðunar Vesturlands frá 20.08.2007 þar sem samþykkt var að taka yfir reksturinn í Fíflholtum. Því verður reksturinn ekki boðinn út.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 12:45.
Fundarritari: Hrefna B. Jónsdóttir.