3 – Heilbrigðisnefnd Vesturlands – aðalfundir
FUNDARGERÐ
Aðalfundur Heilbrigðiseftirlits Vesturlands árið 2006
Miðvikudaginn 26. apríl árið 2006 var aðalfundur Heilbrigðiseftirlits Vesturlands haldinn í Hótel Hellnum Snæfellsbæ og hófst kl. 13.30.
Fundinn sátu:
Stjórnarmenn:
Starfsmaður: Helgi Helgason
Fulltrúar aðildarsveitarfélaga með umboð:
Kristinn Jónasson var kosinn fundarstjóri.
Lesin var upp svohljóðandi dagskrá:
1. Skýrsla stjórnar
2. Ársskýrsla Heilbrigðiseftirlits Vesturlands 2005
3. Ársreikningur 2005
4. Önnur mál.
1) Skýrsla stjórnar.
Formaður,
Á stofnfundi HeV árið 1999 var samþykkt að fela heilbrigðisnefnd að leita eftir því við Umhverfisráðuneytið og Hollustuvernd ríkisins (HVR) að eftirlit með stóriðju á Vesturlandi yrði fært undir starfsemi HeV, þætti það hagkvæmt. Þrátt fyrir að viðræður hefðu átt sér stað við HVR og síðar Umhverfisstofnun um þetta mál hefði ekkert gerst. Fulltrúar HeV áttu fund með ráðherra um þetta mál á vordögum 2005 og greindu frá stöðu málsins án sýnilegs árangurs sem komið væri.
Formaður kom nokkuð inn á þá gagnrýni sem Samtök atvinnulífsins (SA) hefðu verið með á heilbrigðiseftirlitið í landinu. Sagði hann að Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða hefðu leitað eftir viðræðum við SA um þessi mál til að lyfta umræðunni á örlítið hærra plan.
Rekstrarleg útkoma HeV hefði verið þokkaleg á árinu. Að lokum greindi formaður frá því að starfstíma stjórnar væri að ljúka og mundi hann nú hverfa af vettvangi eftir ánægjulega setu í nefndinni frá 1999. Hann þakkaði samnefndarmönnum og starfsmönnum ánægjulegt samstarf á liðnum árum.
2) Ársskýrsla Heilbrigðiseftirlits Vesturlands 2005
Helgi Helgason framkvæmdastjóri flutti ársskýrslu HeV 2005.
Fór hann yfir helstu þætti starfseminnar á árinu. Ræddi hann m.a. um að fjöldi útgefinna starfsleyfa og umsagna hefðu verið 180, sem er heldur fleiri en 2004. Eftirlitsskyld fyrirtæki væru nú um 650.
Fjöldi sýna, aðallega neysluvatn, var 222.
Formlegar kvartanir voru 109 sem er nokkur fjölgun frá fyrra ári.
Eftirlit með fyrirtækjum væri mjög hefðbundið frá ári til árs. Á árinu hófst skoðun á einkavatnsbólum matvælaframleiðenda, mjólkurframleiðenda, frístundasvæða og ferðaþjónustunnar almennt.
Mikill tími fer í umsagnir hvers konar, t.d. vegna skipulagsmála, samþykkta og gjaldskrármála.
Ein meint matareitrun hefði komið fram í mötuneyti. Talið var að 32 manns hefðu fengið væga eitrun sem stóð yfir í 8-12 tíma.
Nauðsynlegt væri fyrir sveitarfélög að rannsaka ár, vötn og sjó, sbr. reglugerð um varnir gegn mengun vatns nr. 796/1999 og um fráveitur og skólp nr. 798/1999, með hliðsjón af framtíðarskipulagi.
Framkv.stj. ræddi nokkuð um starf heilbrigðisnefndar og taldi að mikill samhugur og sáttlyndi hefði verið í nefndinni og ekki komið til alvarlegra árekstra við stjórnsýsluna vegna rangra ákvarðana. Heilbrigðisnefndum væri falið ákveðið vald sem þær yrðu að fara mjög varlega með, sérstaklega þegar kæmi að þvingunarúrræðum.
Heilbrigðisnefndir eiga áfram að vera reknar af sveitarfélögunum, annað kemur ekki til mála að óbreyttu. Það ætti að vera metnaður sveitarstjórna að halda þeim í heimabyggð en taka meiri þátt í þeirri vinnu og verkefnum sem ríkisvaldið hefur komið yfir á sveitarstjórnastigið oft með verulega auknum útgjöldum.
Kristinn þakkaði formanni og framkv.stj. greinargóðar skýrslur.
3) Ársreikningur 2005.
Helgi Helgason framkvæmdastjóri gerði grein fyrir reikningnum. Fram kom m.a. að rekstrartap á seinasta ári var 385.869. Inni í þeirri tölu væru töpuð eftirlitsgjöld og niðurfærsla krafna kr. 933.629.
Engar umræður voru um reikning. Samþykktur samhljóða.
4) Önnur mál.
· Fundarstjóri lagði fram tillögu um að fresta aðalfundi fram yfir sveitarstjórnarkosningar þannig að kjósa mætti nýja stjórn. jafnframt yrði umboð sitjandi stjórnar framlengt fram að þeim fundi.
Samþykkt
· Rætt um yfirtöku HeV á eftirliti frá Umhverfisstofnun.
Fundarmenn samþykktu að fela framkv.stj. að senda umhverfisráðherra bréf og ítreka erindi sem sent var í mars 2005 í kjölfar fundar formanns, varaformanns og framkv.stj. HeV með umhverfisráðherra.
Formaður þakkað fundarmönnum fyrir ágætan fund og frestaði aðalfundi.
Fundarritari: Helgi Helgason