29 – Sorpurðun Vesturlands

admin

29 – Sorpurðun Vesturlands

 

F U N D A R G E R Ð

 

Stjórnarfundur í Sorpurðun Vesturlands hf.
föstudaginn 26. maí 2005.

 

Fundur haldinn í stjórn Sorpurðunar Vesturlands hf. föstudaginn 26. maí 2005 kl. 10:00 á Hótelinu í Borgarnesi.  Mættir voru: Guðbrandur Brynjúlfsson, Bergur Þorgeirsson, Gunnólfur Lárusson, Sæmundur Víglundsson, Sigríður Gróa Kristjánsdóttir,  Kristinn Jónasson og Magnús Ingi Bæringsson.  Auk þess sat fundinn Hrefna B. Jónsdóttir, framkvæmdastjóri. 

 

Dagskrá fundarins er eftirfarandi.
1. Kynning svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs.
2. Samráðsfundur UST og Sorpurðunar hf.
3. Umhverfisskipulag í Fíflholtum.
4. Önnur mál.

 

Formaður setti fund og gekk til dagskrár:

 

1.  Kynning svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs.
Páll Guðjónsson, verkefnisstjóri, og Garðar Halldórsson ráðgjafi, kynntu sameiginlega svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs.  Páll hafði framsögu um samantekt á niðurstöðum 1. áfanga verkefnisins.
Gestir fundarins undir þessum lið voru:  Óli Jón Gunnarsson, Sigurður Páll Harðarson, Páll Brynjarsson og Linda B. Pálsdóttir.

 

Í framhaldi framsögu Páls urðu nokkrar umræður um minnkun lífræns úrgangs til urðunar og hvort ekki væri verið að vísa sveitarfélögunum í brennslu.  Páll sagði svo ekki vera og velti upp nokkrum möguleikum.  Fundarmenn voru  nokkuð sammála um að upplifun þeirra kvaða sem uppfylla þarf væru nokkuð íþyngjandi fyrir sveitarfélögin.
Rætt var um frekari gjaldtöku og hvernig leiðin í gegnum budduna er einna helst að skila sér í minnkun á sorpi.

 

Gestir viku af fundi.

 

2.  Samráðsfundur UST og Sorpurðunar hf.
Hrefna sagði frá samráðsfundi UST og Sorpurðunar hf. 
Í framhaldinu var rætt um lokun í Fíflholtum vegan roks en verulegt fok hefur orðið á svæðinu vegan slæms veðurs undanfarnar vikur.   

 

3.  Umhverfisskipulag í Fíflholtum.
Guðbrandur fór yfir umhverfisframkvæmdir í Fíflholtum en verið er að vinna að gróðursetningu skjólbelta þessa dagana.  Enn skortir á frágang eldri urðunarreinar.

 

4.  Önnur mál.
Kynningarmál svæðisáætlunar.
Rætt um fyrirkomulag á kynningu svæðisáætlunar fyrir sveitarfélögin.

 

Jarðgerð á sláturúrgangi.
Guðbrandur sagði frá fundi með Arngrími frá Gámaþjónustu Reykjavíkur og Þorsteini Eyþórssyni frá Gámaþjónustu Vesturlands varðandi jarðgerð sláturúrgangs í Fíflholtum.  Fulltrúar Gámaþjónustu Vesturlands tóku að sér að skoða málið og er komin óformleg niðurstaða í það mál, að magnið sem um ræðir og er að koma inn til urðunar í Fíflholtum er of lítið.

Guðbrandur sagði frá heimsókn Guðmundar Jenssonar, sem kynnti formanni og framkvæmdastjóra Sorpurðunar leið til að tæta sláturúrgang og minnka vatnsmagn hans.  Restina má setja í sekki sem fast urðaðir með almennum úrgangi, t.d. í Sorpu.  Verið er að tala um minnkun úrgangsins sem sparar urðunar- og flutningsgjöld.  Var það sýn fulltrúa Sorpurðunar að hér væri trúlega um hagstæða leið að ræða fyrir sáturhúsin og/eða kjörvinnslur.

 

Hagaganga í Fíflholtum.
Borist hefur erindi frá Bjarka Jónassyni um hagagöngu fyrir hross í Fíflholtum. 
Erindinu hafnað.

 

Fundur Úrvinnslusjóðs 1. júní n.k.
Úrvinnslusjóður og Sorpurðun hafa boðað kynningarfundar þar sem farið verður yfir förgunarleiðir og verklýsingar og hvernig hægt er að ná í greiðslur frá Úrvinnslusjóði fyrir þá sorpflokka sem sjóðurinn hefur með að gera.  Fundurinn verður haldinn í Borgarnesi 1. júní n.k.

 

Stefnt að heimsókn í Fíflholt í tengslum við næsta stjórnarfund.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 12:30.

 

Hrefna B. Jónsdóttir, fundarritari.