10 – SSV samgöngunefnd

admin

10 – SSV samgöngunefnd

F U N D A R G E R Ð

 

Samgöngunefnd SSV, þriðjudaginn

 23. september 2003 kl. 15.

 

Fundur haldinn í Samgöngunefnd SSV, í Borgarnesi þriðjudaginn 23. september 2003 kl. 15. Mætt voru: Guðmundur Vésteinsson, Davíð Pétursson, Ásbjörn Sigurgeirsson, Sigríður Finsen, Þórður Þórðarson og Hrefna B Jónsdóttir. Þorsteinn Jónsson mætti ekki á fundinn.

 

Dagskrá fundarins:

1. Magnús Valur fer yfir stöðu framkvæmda á Vesturlandi

2. Undirbúningur fyrir aðalfund SSV sem haldinn verður 10. októver 2003.

3. Önnur mál.

 

Magnús Valur Jóhannsson, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Vesturlandi, fór yfir stöðu framkvæmda í landshlutanum. Tvö stór verkefni eru nú í gangi í landshlutanum. Nýr vegur yfir Bröttubrekku sem hefur formlega verið opnaður og þverun Kolgrafarfjarðar. Í Kolgrafarfirði eru framkvæmdir komnar í fullan gang og gengið vel það sem af er.

 

Nokkrar umræður urðu um væntanlegar framkvæmdir. Nefndarmenn lögðu fyrirspurnir fyrir Magnús Val varðandi viðhald vega. Voru þar sérstaklega nefndir slakkar í vegum sem lagðir eru bundnu slitlagi og farnir eru að virka sem stökkpallar.

Fjárframlög til safnvega og tengivega eru engan veginn nóg. Víða hafa komið upp vandamál vegna þess einkum þar sem langferðabifreiðar eru farnar að aka þessa vegi í tengslum við athyglisverða staði á landsbyggðinni.

 

Miklu fjármagni þykir varið til rannsóknarvinnu og umhverfismatsáhrifa sem gerðar eru orðnar kröfur um m.a. við vegaframkvæmdir. Um er að ræða háar fjárhæðir í upphafi allra nýframkvæmda og breytinga sem óeðlilegt er að sé greitt af fjármagni til vegaframkvæmda. Fundarmenn voru á einu máli um að eðlilegast væri að þetta fjármagn kæmi frá þeim sem krefjast útektarinnar, þ.e. fagráðuneytum eða stofnunum þeim tengdum.

 

Þórður vakti athygli á slæmum merkingum við Akrafjallsveg við afleggjarann inn á Innnesveg. Afleggjarinn væri illa merktur og ökumenn sem hyggðust beyja væru oft að slá af með litlum fyrivara. Magnús Valur sagði þetta góða ábendingu en hliðstæð dæmi væru til skoðunar hjá Vegagerðinni.

 

Davíð lagði fram afrit af bréfi sem sent var Vegagerðinni og afrit til samgöngunefndar Borgarfjarðar, frá Hvalfjarðarstrandarhreppi þar sem hreppsnefnd Hvalfjarðarstrandarrepps ítrekar fyrri ályktanir sínar til Vegagerðarinnar um að gerð verði afrein af Vesturlandsvegi til norðurs inn á Hvalfjarðarveg. Á þessum vegamótum hafa orðið mörg umferðaróhöpp á undanförnum árum og nú nýlega banaslys. Talið er að minnka megi hættu á slysum með afrein.

 

Farið yfir þau málefni sem nefndin telur ástæður til að álykta um á komandi aðalfundi SSV, 10. október n.k. Hrefnu falið að athuga með umferðartölur frá árinu 2002, vinna samkvæmt umræðum fundarins drög að ályktunum og senda til nefndarmanna gegn athugasemdum þeirra.

 

Líflegar umræður urðu um hinar ýmsu framkvæmdir sem framundan eru í landshlutanum og lýstu fundarmenn ánægju sinni með nýjan veg yfir Bröttubrekku sem var formlega opnaður 29. ágúst sl.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið.

 

Fundarritari.

Hrefna B. Jónsdóttir