SSV stjórn 1

admin

SSV stjórn 1

STJÓRNARFUNDUR SSV

Haldinn í Snæfellsbæ, föstudaginn 26. janúar 2001.

 

Mætt voru.  Dagný Þórisdóttir, Gunnar Sigurðsson, Jónas Guðmundsson, Guðrún Jónsdóttir,  Kristinn Jónasson, Þórunn Gestsdóttir Ólafur Sveinsson og Hrefna B. Jónsdóttir.  Þórunn sat fundinn í forföllum Sigurðar Valgeirssonar.

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

1.      Fundargerð aðalfundar

2.      Ársreikningur 2000.

3.      Samstarfsvettvangur.

4.      Tillaga að samstarfi í nýju kjördæmi.

5.      Erindi Símenntunarmiðstöðvarinnar.

6.      Erindi Reynis Ásgeirssonar, Svarfhóli

7.      Málefni atvinnuráðgjafar

Beiðni Borgarbyggðar frá 14.11.2000

Nýsköpun 2001.

Hagvísar – framtíð

Viðvera atvinnuráðgjafa

SVÓT greining Byggðastofnunar ,,Sjávarbyggðir á Íslandi”

Bifreiðakaup

8.      Ársskýrsla árið 2000 frá minjaverði Vesturlands og Vestfjarða.

9.      Umsagnir þingmála:

10.  Framlagðar fundargerðir.

Símenntunarmiðstöðin og Sorpurðun Vesturlands hf.

11.  Framlögð innkomin erindi.

Jafnréttisstofa

SSNV, afrit af bréfi til forsætisráðherra um lífskjarajöfnun og byggðamál.

Afrit af bréfum frá SSA varðandi framtíð Reykjavíkurflugvallar og tillögur nefndar um tekjustofna sveitarfélaga.

12.   Önnur mál.

 

1.  Fundargerð aðalfundar.

Lögð var fyrir stjórn fundargerð aðalfundar.  Fundargerðin hefur verið gefin út í gormahefti og var stjórn samþykk því að setja hana út á netið.  Heftið inniheldur einnig reikninga SSV og fjárhagsáætlun, allar skýrslur sem fluttar voru á fundinum og flest erindi.  Ákveðið var að senda heftið til allra sveitarfélaga, þingmanna Vesturlands, SÍS og landshlutasamtaka.

 

2.  Ársreikningur 2000.

Reikningar SSV hafa verið endurskoðaðir og eru afgreiddir frá KPMG endurskoðun.  Hrefna skýrði reikningana fyrir stjórn.  Niðurstaða rekstrarreiknings er 1.101 þús. í rekstrarhalla en áætlun gerði ráð fyrir 58 þús í hagnað.  Ástæða þess er sú að miklar endurbætur voru gerðar á tækjakosti SSV á árinu en fjárfest var í fartölvum fyrir starfsmenn og fleiri starfsmenn bættust í hópinn vegna  sérverkefna .  Velta samkvæmt ársreikningi var hærri en áætlun gerði ráð fyrir og skýrist það einkum af sérverkefnum.

 

 

3.  Samstarfsvettvangur. (SV)

Á aðalfundi voru kosnir 13 fulltrúar í Samstarfsvettvang Vesturlands.  Nokkur umræða varð um hvaða leið ætti að fara til að fá fleiri aðila til þátttöku í SV.

Formaður gerði það að tillögu sinni að skrifa þeim aðilum sem upp eru taldir í greinargerð sem fylgdi tillögunni á aðalfundi SSV og kynna SV fyrir þeim og bjóða þeim þátttöku.   Einnig voru fundarmenn sammála um að kanna viðbrögð fleiri stofnana og skrifa einnig  bankastofnunum, Iðntæknistofnun og Byggðastofnun.  Ólafi og Hrefnu var falið að fylgja málinu eftir.

 

4.  Tillaga að samstarfi í nýju kjördæmi

Gunnar Sigurðsson, formaður, sagði frá nefndinni sem hann og Guðrún Jónsdóttir eiga sæti í f.h. Vesturlands, og hefur það hlutverk að gera tillögur um samstarf landshlutasamtakanna í nýju kjördæmi.  Frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga eiga sæti Ólafur Kristjánsson og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir og frá SSNV eiga sæti Elín Líndal og Gísli Gunnarsson.

Fundarmenn voru flestir á því að erfitt væri að móta tillögu að samstarfi meðan margt væri enn  óljóst.  Nauðsynlegt væri að byrja að efla tengsl við hin landshlutasamtökin og undirbúa þar með jarðveginn að frekari samskiptum sem koma að öllum líkindum að sjálfu sér við næstu þingkosningar.  Hins vegar væri ástæða til að leita eftir gagnkvæmum skiptum fundargerða.

 

5.  Erindi Símenntunarmiðstöðvarinnar. (SM)

Erindi hefur borist frá Símenntunarmiðstöðinni.  Vegna afnota SM af húsnæði og aðstöðu á skrifstofu SSV var samið um að SM greiddi SSV 300.000 kr. fyrir afnotin.

Í erindi SM er þess farið á leit við stjórn SSV að samtökin styrki SM um sömu upphæð vegna starfseminnar árið 2000.  Var það samþykkt.

 

6.  Erindi Reynis Ásgeirssonar, Svarfhóli.

Borist hefur bréf frá Reyni Ásgeirssyni, Svarfhóli, 301 Akranes, þar sem farið er fram á að SSV lýsi yfir með formlegum hætti stuðningi við vilja hreppsbúa Hvalfjarðar- strandarhrepps og annarra viðkomandi aðila er hagsmuna hafa að gæta í því máli að háspennulína verði ekki lögð í loft heldur í jörð í Hvalfjarðarstrandarhreppi.

Fundarmenn sýndu beiðni þessari skilning og var eftirfarandi bókun samþykkt.

 

Með vísan til ályktana íbúa og sveitarfélaga sunnan Skarðsheiðar varðandi lagningu Sultartangalínu 3, tekur stjórn SSV undir þau sjónarmið sem þar koma fram um að orkuflutningslínur  verði lagðar í jörð þar sem því verður við komið.

 

 

7.  Málefni atvinnuráðgjafar.

Beiðni Borgarbyggðar frá 14.11.2000

Beiðni um fjárstuðning við undirbúning íþrótta- og tómstundaskóla frá Borgarbyggð.  Ekki er ljóst hvort hér er um nýsköpunarverkefni að ræða og var Ólafi falið að kanna á hvern hátt ATSSV geti komið að þessu verkefni.

 

Nýsköpun 2001.

Hrefna sagði frá Nýsköpun 2001 sem er samkeppni í gerð viðskiptaáætlana.  Hér er um samstarf Nýsköpunarsjóðs og atvinnuþróunarfélaga að ræða og er þetta í þriðja skipti sem keppnin er haldin.  Meðal styrktaraðila eru sparisjóðirnir.  Námskeið í gerð viðskiptaáætlana verður haldið í Borgarnesi í lok febrúar n.k.

 

Hagvísar – framtíð.

Þrjú hefti hafa nú verið gefin út hjá Atvinnuráðgjöf af ,,Hag-Vísar Vesturlands”.  Efni þetta má finna á heimasíðu ATSSV og leitaði Óalfur Sveinsson eftir viðhorfi stjórnar til útgáfunnar.  Hann taldi ástæðu til að halda þessari vinnu áfram ef sveitarstjórnarfólk sæi sér hag í að nýta sér þessar upplýsingar.  Stjórnarmenn voru á því að gagn væri af þessari útgáfu.

 

Viðvera atvinnuráðgjafa/Þjónusta við Snæfellsnes.

Ólafur lagði fram tillögu að starfsemi Atvinnuráðgjafar á Snæfellsnesi.  Hann lagði til að lagt yrði fram viðveruplan atvinnuráðgjafa á svæðinu 2 daga í mánuði og viðveran yrði auglýst og skipulögð þannig að hún yrði til skiptis á öllum þéttbýlisstöðum.

Haldin verði fjarnámskeið sem höfði sérstaklega til smærri atvinnurekstrar, með hugbúnaði sem ATSSV hefur keypt aðgengi að hjá Skýrr.  Auglýst verði eftir nýsköpunarverkefni á Snæfellsnesi sem byggist á sömu hugmyndafræði og þau sérverkefni sem í gangi hafa verið.  Auk þess sinni ATSSV einstökum beiðnum eins og verið hefur.  Tillagan var samþykkt.

 

SVÓT greining Byggðastofnunar ,,Sjávarbyggðir á Íslandi”

Lagðar voru fram blaðagreinar úr Skessuhorni sem varða SVÓT greiningu Byggðastofnunar ,,Sjávarbyggðir á Íslandi”  Greinar hafa birst í Skessuhorni varðandi þessa skýrslu auk þess sem einstök sveitarfélög hafa sent fyrirspurnir til ATSSV og Byggðastofnunar varðandi upplýsingar sem þar koma fram.

 

Atvinnugarðar.

Ólafur kynnti vinnu varðandi hugmynd að atvinnugörðum.

 

Bifreiðakaup

Erindi kynnt varðandi akstur og aksturskostnað SSV og möguleika til lækkunar þessa kostnaðar.  Stjórnin heimilar Ólafi að vinna samkvæmt framlögðum hugmyndum um lækkun kostnaðar.

 

8. Ársskýrsla árið 2000 frá minjaverði Vesturlands og Vestfjarða.

Lögð fram ársskýrsla sem nýlega hefur borist frá minjaverði Vesturlands og Vestfjarða.

 

9. Umsagnir þingmála:

Frumvarp til safnalaga. 223. mál.

Frumvarp til þjóðminjalaga.  224. mál.

Um hafnaáætlun 2001-2004. 327. mál

Frumvarp til laga um húsafriðun. 225 mál

Frumvarp til laga um flutning menningarverðmæti, 226 mál

Frumvarp til laga um skipulags- og byggingarlögum. 190. mál.

Frumvarp til laga um breytingu á jarðalögum. 73. mál.

Um áhrif lögfestingar stjórnarfrumvarpa á byggða- og atvinnuþróun, 103. mál.

Frumvarp til laga um um tekju- og eignarskatt.  196. mál.

 

10.  Framlagðar fundargerðir.

Símenntunarmiðstöðin og Sorpurðun Vesturlands hf.

 

11.  Framlögð innkomin erindi.

Jafnréttisstofa, SSNV, afrit af bréfi til forsætisráðherra um lífskjarajöfnun og byggðamál.

Afrit af bréfum frá SSA varðandi framtíð Reykjavíkurflugvallar og tillögur nefndar um tekjustofna sveitarfélaga.

 

12. Önnur mál.

Guðrún Jónsdóttir sagði frá starfsemi Ferðamálastarfsemi Vesturlands.

 

Gunnar lagði fram til kynningar tilögu að vinnutilhögun frá ferðamálafulltrúa.

Hann sagði lítillega frá starfi UKV og lýsti áhyggjum sínum yfir lágu fjárframlagi frá Ferðamálaráði til starfseminnar í ár.

 

Ólafur sagði frá fundi sem átti sér stað með forsvarsaðilum Íslenskrar upplýsingatækni hf. í Borgarnesi á dögunum.  Óskað var eftir því að fyrirtækið yfirtæki lénið VESTURLAND en þeir töldu eignaraðild SSV á léninu hamla þeim við þróun vefsins.  Ólafur fékk heimild til að ganga til samninga við Íslenska upplýsingatækni hf í samræmi við umræður á fundinum.

 

Formaður þakkaði, fyrir hönd, hópsins fyrir matinn sem var í boði Snæfellsbæjar og sleit fundi.  Að fundi loknum var haldið til Ólafsvíkur en þar var skoðað nýtt íþróttahús undir leiðsögn Kristins Jónassonar, bæjarstjóra Snæfellsbæjar.

 

Fundarritari

Hrefna B Jónsdóttir