9 – SSV samgöngunefnd

admin

9 – SSV samgöngunefnd

 Fundur Samgöngunefndar SSV með þingmönnum Vesturlands
            Haldinn í Alþingishúsinu v/Austurvöll
           miðvikudaginn 6. mars 2003 kl. 15.

Fundur samgöngunefndar SSV með þingmönnum Vesturlands.  Haldinn í Alþingishúsinu v/Austurvöll miðvikudaginn 6. mars 2003 kl. 15.

Mættir voru:  Sturla Böðvarsson og  Jóhann Ársælsson.  Davíð Pétursson, Sigríður Finsen, Þorsteinn Jónsson, Guðmundur Vésteinsson, Kristinn Jónasson, Ásbjörn Sigurgeirsson, Magnús Valur Jóhannsson og Hrefna B. Jónsdóttir.  Alþingismennirnir Guðjón Guðmundsson, Magnús Stefánsson og Gísli Einarsson boðuðu forföll. 

Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, bauð samgöngunefnd SSV velkomna á fund þingmanna Vesturlands.  Hann sagði nýja vegaáætlun nú liggja fyrir Alþingi og yrðu hún afgreidd fyrir þinglok.  Hann gaf Davíð Péturssyni, formanni samgöngunefndar SSV orðið.

Davíð sagði lágar fjárhæðir fara til safnvega og þörfin væri mikil í viðhaldi þeirra.  Skuldir vegna viðhalds- og nýframkvæmda á Vesturlandi væru miklar vegna þeirra verka sem nú þegar væru unnin og fór fram á að aukið fjármagn yrði sett til Vesturlands til að greiða þessar skuldir þar sem þær kæmu illa niður á þeim verkum sem biðu afgreiðslu.  Hann skoraði á þingmenn að leita allra leiða til að lækka gjaldið í Hvalfjarðargöngin og ítrekaði að lokum ályktun SSV þar sem skorað var á samgönguráðherra og ríkisstjórn Íslands að sjá til þess að verðskráin stuðli ekki að rýrari samkeppnisstöðu einstakra landssvæða gagnvart öðrum.  Í áðurnefndri ályktun var einnig minnt á nauðsyn þess að auka flutningsgetu Símans um dreifðar byggðir kjördæmisins.

Magnús Valur fór yfir þær leiðir sem fara yfir 100 bíla umferð ADU og eru án bundins slitlags. 

Nokkrar umræður urðu um Uxahryggjaleið og nauðsyn þess að gerður yrði góður vegur á milli Suðurlands og Vesturlands.  Góður vegur myndi breyta ferðamynstri þar sem varanlegri og betri vegur myndi auka straum ferðamanna til Vesturlands.
Sú fjárveiting sem nú er komin til Uxahryggjaleiðar dugar til að byggja upp þrjá verstu kafla leiðarinnar.  Ekki verður um bundið slitlag að ræða að svo stöddu.  Ráðherra sagði það mikla framkvæmd að endurbæta og leggja slitlag á Lundareykjadalsveg og Uxahryggjaveg. 

Kristinn sagði það vera orðna staðreynd að góðir vegir myndu styrkja stöðu okkar varðandi ferðamannastraum til Vesturlands.  Það myndi styrkja stöðu okkar að fá aukinn straum ferðamanna frá Suðurlandi.  Hann nefndi nýstofnaðan þjóðgarð á Snæfellsnesi sem nú þegar væri farinn að kalla á aukinn straum ferðamanna til Snæfellsness og nefndi dæmi þar um.

Davíð áréttaði fjárskort við safnvegi og sagði mikla þörf á því að fara að fá unnið efni á heimreiðar en það væri útilokað með því fjárframlagi sem nú væri til safnvega. 

Samgönguráðherra sagði nokkra viðbót koma til safnvega á nýrri vegaáætlun en var sammála Davíð í því að um of lágar fjárhæðir væri að ræða.  Það væri þó hans von að þegar stórum framkvæmdum væri lokið að þá myndi verða rýmra svigrúm til annarra verkefna en óneitanlega hefðu þessar stóru framkvæmdir á fjölförnustu leiðunum tekið mikið til sín síðustu ár.

Nokkur umræða varð um samanburð umferðar (ADU) í nýju Norðvesturkjördæmi og aukningu umferðar um Vesturland í kjölfar Hvalfjarðarganga. 

Sturla sagði vegaáætlun verða endurskoðaða eftir tvö ár og þá yrði áætlunin skoðuð m.t.t alls Norðvesturkjördæmis.  Svínadalur og Útnesvegur kæmu trúlega inn í þá endurskoðun og yrðu þær framkvæmdir skoðaðar m.t.t. sambærilegra kafla á Vestfjörðum og Norðurlandi Vestra.

Sigríður Finsen sagði að krafan um betri vegi væri allsstaðar og því væri góð viðmiðun að miða við þá vegi sem væru að ná 100 ADU.

Sturla sagði dreifikerfið stöðugt að batna en símakerfið hefði t.d. verið þannig í Dölum að ekki hefði verið hægt að tala í síma.  Nú væri þetta allt að færast í betra horf.

Ásbjörn minntist á mikilvægi þess að hraða framkvæmdum við þjóðveg nr. 1 í gegnum Borgarnes. 

Sturla sagði frá breytingum á þjóðvegakerfinu niður á Akranesi en þjóðbrautin í gegnum bæinn, niður að höfn, færist yfir á Faxabraut.  Hann sagði þetta koma fram í nýrri samgönguáætlun. 

Kristinn sagði samgöngunefnd SSV koma til með að starfa áfram í óbreyttri mynd.  Nefndin myndi bjóða þingmönnum Norðvesturkjördæmis til fundar og yfirlitsferðar á komandi hausti og nefndina og aðstæður Vesturlands kynntar fyrir hópnum.

Samgönguráðherra sagði það mikilvægt fyrir þingmenn að halda áfram að hitta sitt fólk.  Það væri þingmanna að samræma og finna út úr því með hvaða hætti það yrði.  Hann sagðist líta til landshlutasamtakanna þriggja í nýju kjördæmi sem millistig í þeim samskiptum.

Að lokum þakkaði Sturla samgöngunefnd SSV fyrir komuna.  Þetta væri síðasta heimsókn nefndarinnar til þingmanna Vesturlandskjördæmis.

Fundi slitið.

Fundarritari.
Hrefna B. Jónsdóttir