118 – SSV stjórn
FU N D A R G E R Ð
118 fundur stjórnar SSV
Fundur haldinn í stjórn SSV, þriðjudaginn 30 júní 2015 kl.10.30 í ráðhúsi Snæfellsbæjar á Hellissandi.
Mætt voru; Ingveldur Guðmundsdóttir, Rakel Óskarsdóttir, Valgarður Jónsson, Kristín Björk Árnadóttir, Ása Helgadóttir, Eggert Kjartansson, Eyþór Garðarsson, Árni Hjörleifsson, Hafdís Bjarnadóttir. Ása mætti í forföllum Björgvins Helgasonar. Einnig sátu fundinn Páll Brynjarsson, framkvæmdastjóri, og Hrefna B. Jónsdóttir sem ritaði fundargerð.
Formaður, Ingveldur Guðmundsdóttir, setti fund og bauð fundarmenn velkomna.
1. Framlögð fundargerð frá 117 fundi stjórnar SSV.
Formaður lagði fram fundargerð frá 117. fundi stjórnar SSV til staðfestingar. Samþykkt.
2. Almenningssamgöngur
Framkvæmdastjóri kynnti vetraráætlun fyrir veturinn 2015-2016 og þær breytingar sem gerðar hafa verið. Einnig var farið yfir stöðuna á rekstri almenningssamgangna fyrstu fimm mánuði ársins. Tæplega þrettán milljóna tap er á rekstri almenningssamgangna á tímabilinu en veðrátta vetrarins hefur komið sér illa fyrir reksturinn. Framkvæmdastjóri fór yfir vinnu við skoðun á samgöngukerfinu en ljóst er að draga verður lítillega úr þjónustu. Vonir eru til þess að góða notkun verði á leiðakerfinu í sumar og vegi upp tap frá áramótum.
Framkvæmdastjóri gerði einnig grein fyrir fundum með Strætó og samstarfi við önnur landshlutasamtök þar sem þjónustan og rekstrarstaða hafa verið til umræðu. Almennt hefur rekstur almenningssamgangna verið erfiður fyrstu mánuði ársins hjá landshlutasamtökunum, m.a. vegna þess hve veturinn var erfiður. Fram kom að frumvarp til breytingar á lögum um fólksflutninga er ennþá til meðferðar hjá alþingi og óljóst hvenær það verður afgreitt.
Stjórn SSV gerði ekki athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar á vetraráætlun 2015-2016.
3. Fundur formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtaka.
Lagt fram minnisblað frá fundi formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtaka sem fór fram í Flókalundi 18 og 19 júní s.l. Þau Páll og Ingveldur gerðu grein fyrir fundinum.
Þar var rætt um málefni fatlaðra en allir landshlutar, nema Austurland, borga með málaflokknum. Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, var á fundinum en hann sagði viðræður ríkis og sveitarfélaga ekki hafa skilað niðurstöðu enn sem komið væri. Ríki og sveitarfélög eru ósammála um fjárþörf varðandi verkefnið.
Fram kom að á Suðurnesjum og Norðurlandi vestra hafa komið fram beiðnir frá sveitarfélögum um að ganga út úr samstarfi um málefni fatlaðra. Þessi erindi eru m.a. til umsagnar hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Hafdís Bjarnadóttir fór yfir skoðun félags- og skólaþjónustu Snæfellinga á framtíðarþörf á svæðinu og sagði bolmagn engan veginn vera til staðar í verkefnið. Herja þyrfti á þingmenn um að vanda verkefnisins. Tekið var undir þetta og rætt um verkefnið almennt. Framkvæmdastjóra falið að óska eftir fundi með þingmönnum til að ræða þetta verkefni sérstaklega.
Á fundinum var einnig rætt um almenningssamgöngur, sóknaráætlanir og markaðsstofur landshluta.
4. Haustþing SSV 2015
Lögð fram drög að dagskrá fyrir Haustþing SSV sem fer fram 30. september að Hótel Glym í Hvalfjarðarsveit. Stjórnarfundur verður haldinn 29. sept. á sama stað. Framkvæmdastjóri fór yfir dagskrárdrög og tillögu um samgöngu- og fjarskiptamál verði þema fundarins. Samþykkt.
5. Fjarskiptamál á Vesturlandi
Lögð fram tillaga að fjárveitingum úr Sóknaráætlunarverkefninu „Efling fjarskipta og gagnaflutninga á Vesturlandi“.
Framkvæmdastjóri óskaði eftir heimild stjórnar til að nýta þá fjármuni sem eftir standa í svokölluðu fjarskiptaverkefni með eftirfarandi hætti:
Eyja- og Miklaholtshreppur 4 mkr vegna lagningu ljósleiðara.
Snæfellsbær 4 mkr vegna lagningu ljósleiðara í Staðarsveit og Breiðuvík.
Borgarbyggð 1mkr vegna uppsetningar á sendi á Rauðamelskúlu.
Þeir fjármunir sem eftir verða í verkefninu verði síðan nýttir til hönnunar á lagningu ljósleiðara í Borgarbyggð, Dalabyggð og Skorradalshreppi.
Tillaga þessi er lögð fram með þeim fyrirvara að þeir fjármunir sem IRR veitti til verkefnisins árið 2012 skili sér að fullu.
Samþykkt.
Umræður urðu um sífellt auknar kröfur um fjarskiptatengingar. 4G og ljósleiðara lausnir eru í umræðunni en 4G er ekki eins öflug tenging og ljósleiðari. Ljóst er orðið að ákveðin svæði verða mjög erfið m.t.t. ljósleiðaravæðingar þar sem kostnaður verður of mikill.
6. Starfsmannamál
Rætt um starfsmannamál. Framkvæmdastjóri kynnti erindi sem barst daginn fyrir fund frá bæjarráði Akraneskaupstaðar vegna ráðningar atvinnuráðgjafa í afleysingar. Framkvæmdastjóra gefin heimild til að ráða atvinnuráðgjafa tímabundið í 10 mánuði.
7. Sóknaráætlun 2015-2019
Framlögð tillaga að framtíðarsýn fyrir Sóknaráætlun Vesturlands 2015-2019. Björg Ágústsdóttir, ráðgjafi hjá Alta kom inn á fundinn undir þessum lið. Framkvæmdastjóri fór yfir vinnu starfsmanna SSV með Alta að framsetningu skýrslunnar ásamt Björgu. Rætt um framsetningu og efnistök. Stjórnarmenn lýstu ánægju sinni með hvað verkefnið hefði tekist vel og lögðu áherslu á að takast yrði að vinna með efni skýrslunnar. Á haustþingi verður til vettvangur sem vinnur að eftirfylgni og hugmyndum að framhaldsútfærslu verkefna með fulltrúum allra sveitarfélaganna. Framkvæmdastjóri fór m.a. yfir áhersluverkefni og spunnust umræður um þau. Líflegar umræður spunnust um ferðaþjónustu á svæðinu, innviði og uppbyggingarþörf Vesturlands m.t.t. móttöku ferðamanna.
Stjórn samþykkti tillögu að stefnu og framtíðarsýn Sóknaráætlunar Vesturlands 2015-2019 og fól framkvæmdastjóra að ganga frá tillögunni í endanlegri útgáfu.
8. Framlögð mál
a. Yfirlit yfir fundi og ráðstefnur sem framkvæmdastjóri hefur sótt.
Lagt fram.
b. Frásögn formanns af fundi samráðsvettvangs EFTA um sveitarstjórnarmál sem fram fór í Stange í Noregi dagana 11-12 júní.
Formaður SSV sagði frá helstu málefnum sem rædd voru á fundinum, fríverslunarsamningur við USA sem geta haft áhrif á innkaupamál sveitarfélaga. Innflytjendamál og frjálst flæði fólks á milli svæða, hvernig það snertir málefni sveitarfélaganna, sbr. félagsþjónustu af ýmsu tagi.
Að fundi loknum var snæddur hádegisverður á fundarstað og í kjölfarið voru Kristín B. Árnadóttir forseti bæjarstjórnar og Kristni Jónassyni bæjarstjóri með kynningu á því sem efst er á baugi hjá Snæfellsbæ um þessar mundir.
Fundi slitið kl. 12:45.
HBJ