81 – Sorpurðun Vesturlands

admin

81 – Sorpurðun Vesturlands

F U N D A R G E R Ð

Sjórnarfundur í Sorpurðun Vesturlands hf. haldinn  mánudaginn
8. júní  2015 kl. 16:00. á skrifstofu SSV í Borgarnesi.

 

Mætt voru:  Sturla Böðvarsson, Kristinn Jónasson, Arnheiður Hjörleifsdóttir, Karitas Jónsdóttir, Sævar Jónsson, Finnbogi Leifsson og Auður H Ingólfsdóttir sem var í símasambandi.  Einnig sat fundinn Hrefna B. Jónsdóttir, framkvæmdastjóri, sem einnig ritaði fundargerð.

 

Fyrir fund hittist stjórnin í Fíflholtum þar sem stjórnarmenn fengu kynningu á skilgreindu urðunarsvæði og daglegri starfsemi.

 

Gengið til dagskrár.

 

1. Kosning formanns og varaformanns
Aldursforseti stjórnar, Sturla Böðvarsson, setti fund og stakk upp á Kristni Jónassyni sem formanni.  Samþykkt.  Gerð tillaga um Auði H Ingólfsdóttur til varaformanns.  Samþykkt.
Kristinn tók við stjórn fundarins, bauð fundarmenn velkomna og þakkaði stjórn traustið. 

 

2. Fundargerðir síðastu funda. 
a. 9. mars stjórnarfundur
Lögð fram og samþykkt.
b. 25. mars aðalfundur.
Lögð fram.

 

3. Magntölur úrgangs 2014 og 2015.
Lagðar fram magntölur fyrir fyrstu fimm mánuði ársins.  Urðuð hafa verið 4118 tonn á móti 5000 tonnum á sama tímabili árið 2014. 

 

4. Lokunaráætlun, frestun á frágangi eldra urðunarsvæðis.
Lögð fram gögn til UST þar sem óskað var eftir fresti til lokafrágangs eldra urðunarsvæðis.  Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir þeim verkefnum sem þarf að ljúka fyrir septemberlok.  Rætt um ásýnd urðunarsvæðisins en hún er með verra móti vegna foks.  Hugmynd að fá vinnuskóla eða félagasamtök til ruslatínslu á svæðinu til að flýta fyrir tiltekt.  Framkvæmdastjóra falið að skoða með að fá hóp í tiltekt sem allra fyrst.

 

5. Umhverfisstofnun
a. Skráning póstnúmera – breyting á vigtarkerfi.
Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir breytingum á vigtarkerfi.  Umhverfisstofnun óskaði eftir að haldið yrði utanum uppruna úrgangs, þ.e. úr hvaða póstnúmeri hann kæmi. Vegna þessa varð að leggja út í vinnu við breytingar á vigtarkerfinu. 

 

b. Tímaáætlun söfnunar hauggass og mælingar.
Lagt fram yfirlit yfir samskipti UST og Sorpurðunar Vesturlands hf og eftirlitsskýrsla frá 28.11.2014.  Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir frumhönnun á gassöfnunarkerfi og tímaforsendum sem gefnar voru upp í erindi til UST dags. 23.01.2015.

 

6. Rekstur urðunarsvæðisins 
a. Tilboð í borun röra frá Ræktunarsambandi Flóa- og Skeiða.
Lagt fram tilboð upp á 1.815.630 kr. sem miðast við þrjár holur í urðunarrein nr. 4 Tilgangur er gasmælingar samkvæmt starfsleyfi. 


b. Aðrar framkvæmdir.
Framkvæmdastjóri fór yfir framkvæmdir við urðunarrein nr. 3 og hugsanlegar lagfæringar við hreinsivirki frá svæðinu.  Beðið er eftir niðurstöðum sýnatöku en þær eru væntanlegar í næstu viku.  Niðurstaða þeirra mun sýna hvort hreinsivirki/síubeð þurfi lagfæringar við.  Ef svo er verður skipt um malarpúða í síubeði.

 

7. Ráðstefna/ur um lífrænan úrgang 20 og 19.03.2015.
a. Dagskrá frá ráðstefnunni og tölvupóstssamskipti um framhald og verkefni.
Auður H Ingólfsd og Hrefna fór yfir efni ráðstefnunnar og lýstu þeim krafti og skemmtilega anda sem skapaðist undir líflegum erindum framsögufólks. Rætt um stöðu mála og hvert sé hlutverk sveitarfélaga varðandi að finna farveg fyrir lífrænan úrgang.

b. Ráðstefna Sambandsins dags. 19.03.2015. 
Sturla reifaði helstu áhersluatriði frá ráðstefnunni þar sem hann var frummælandi þar.  Markmið framsögu og umræðna var,  hvar geta sveitarfélög bætt sig í flokkun, söfnun o.fl. Líflegar samræður urðu um hagsmuni íbúa, sveitarfélaga og einkaframtaksins.

Finnbogi vék af fundi.

 

8. Helstu samstarfsaðilar.
a. Samband ísl. Sveitarfélaga. Lögð fram fundargerð frá 16. feb.15.
b. Samráðsnefnd SV-hornsins, FENÚR, Umhverfisstofnun, Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, EFLA, verkfræðistofa, Verkís, Mannvit, Sorpa bs. Kalka bs. Sorpstöð Suðurlands og UMÍS.
Formaður og framkvæmdastjóri fóru yfir helstu verkefni sem unnin eru í samstarfi við stofnanir og fyrirtæki sbr. ofantalið.

 

9. Samráðsnefnd SV-hornsins
a. Fundur í Sorpu 13. mars sl.

Formaður og framkvæmdastjóri gerðu grein fyrir fundinum. 

 

10. Erindi Helga Más um aðstöðu í Fíflholti.
Lagt fram erindi frá Helga Má Reynissyni þess efnis að fá lóð undir 500 m² skemmu fyrir hreinsun á úrgangssalti frá sjávarútvegi. Erindinu hafnað. 

 

11. Önnur mál.
a. Framkvæmdastjóri í varastjórn FENÚR – verkefni stjórnar – yfirferð frá framkvæmdastjóra. Fundargerð frá 4. júní lögð fram.

 

Fundi slitið kl. 18:15.
Fundarritari: HBJ