7 – Hópur um almenningssamgöngur
Fundur vinnuhóps um almenningssamgöngur á Vesturlandi
Haldinn 3. júní 2013 á skrifstofu SSV í Borgarnesi
Mættir: Eyþór Garðarsson (EG); Lárus Á Hannesson(LAH); Páll Brynjarsson (PB); Ása Helgadóttir (ÁH) og Davíð Pétursson (DP) Reynir Þór Eyvindarson (RÞE); Gunnar Sigurðsson (GS) og Ingveldur Guðmundsdóttir (IG)
Kristinn Jónasson (KJ) boðaði forföll
Einnig sátu fundinn Ólafur Sveinsson (ÓS), Anna Steinsen (AS).
1. Setning fundar.
Páll setti fund og fór yfir þau atriði sem fyrir lágu, en til fundarins var boðað á síðasta fundi og átti nú að taka ákvarðanir fyrir vetraraksturinn á grundvelli þeirrar umræðu sem þá fór fram, en þar var ákveðið að fara að leið A og skoða nokkur atriði í útfærslu J*
2. Minnisblað frá Smára Ólafssyni, Strætó, dagsett 24.05. um ýtarlegri skoðun á valkostum, sérstaklega á leiðum 81/58/82 og 59 vegna vetraraksturs 2013/2014
Fyrir fundinum lágu bókanir og ábendingar frá Dalabyggð, LAH, EG og RÞE.
Farið var yfir þau atriði sem ákvörðuð voru á síðasta fundi um fækkun ferða milli Akraness og Borgarness.
Viðfangsefni þessa fundar voru breytingar á leið 82/58 annars vegar og leið 59 hins vegar.
Í Minnisblaði frá Smára Ólafssyni (SÓ) var tillaga merkt J*, sem mest kom til umræðu.
Fyrir leið 59 Reykjavík – Hólmavík var tillaga gerð um það, eftir samráð við Vestfirðinga að ekið yrði til Hólmavíkur á föstudögum og sunnudögum. Ekið verði á mánudögum og miðvikudögum í Búðardal í áætlun (ekki pöntunarþjónustu). Síðan verði Vestfirðingar að meta hvort þörf sé á fleiri ferðum frá Hólmavík á virkum dögum og þeir skipuleggi þá í samráði við Strætó þær ferðir frá Hólmavík í pöntunarþjónustu (1 x í viku).
Umræður urðu um leið 58 og 82. Þar skynja menn fjölgun farþega. Niðurstaðan var sú að fara af stað með tillögu J* í minnisblaði, þ.e. 2 ferðir á dag mánudaga, föstudaga og sunnudaga, en eina ferð miðvikudaga og laugardaga. Engar ferðir þriðjudaga og fimmtudaga. Leið 82 keyrir tvær ferðir þá daga sem leið 58 er í akstri og enga ferðir þá daga sem 58 er ekki í akstri. Það var skýrt tekið fram að sjái menn aukningu í farþegum verði fjölgun ferða tekin til skoðunar.
Ennfremur var spurt um hvernig brugðist yrði við ef núverandi bíll yrði of lítill (19 mann bíll) í sumar. ÓS upplýsti að skv. upplýsingum frá Strætó væri hægt að stækka bílinn, með bíl frá Suðurlandi.
Varðandi akstur á leið 81 var samþykkt að fara að tillögu SÓ um að færa brottför hans úr Borgarnesi fram til kl. 17:40 – 17:45 en halda öðrum áformum óbreyttum skv. minnisblaði.
Með þessu er talið að náist heildarsparnaður upp á um 500 þús. á mánuði, sem er heldur minna en lagt var af stað með, en bent á að stöðug aukning hefði verið í farþegafjölda og því ekki rétt að áforma of mikinn niðurskurð á meðan horft sé á vöxt í kerfinu.
RÞE lýsti sig ósammála þessari hugsun og óskaði eftir að eftirfarandi yrði bókað:
„Það er alltaf slæmt ef verið er að breyta áætlun of mikið. Það kemur niður á trausti farþega til þjónustunnar. Hinsvegar ef strætó keyrir tómur langar vegalengdir, í langan tíma, kemur það niður á áliti manna á Strætó, á umhverfinu og pyngju Ólafs Sveinssonar fyrir hönd SSV.
Eitt er óvissa farþeganna ef áætlunum er breytt mikið, og annað er hin pólitíska óvissa: Fæst jafn mikið fjármagn í þetta verkefni framvegis nú þegar nýir stjórnarherrar eru við stjórnvölinn? Það er hætt við að margir Sjálfstæðismenn hafi meiri áhuga fyrir að lækka skatta um milljarð á ári en að styrkja almenningssamgöngur um allt land.
Ég legg því til að við breytum sparnaðartillögum Smára bara lítillega, færum aðra mánudagsferðina yfir á miðvikudaga (ef heimamenn eru klárir á því að það sé gott mál) og tökum niðurskurðinn núna strax, þ.e. tillögur A+J samtals 4.208.000 í sparnað.“
LAH óskaði eftir því að á haustmánuðum yrði gerð samantekt á því hverju breytingarnar á almenningssamgöngum hefðu skilað. Staðan á hverju svæði fyrir sig gagnvart þjónustu og kostnaði metin og borin saman við sömu forsendur fyrir breytingar.
3. Önnur mál
RÞE spurði um reglurnar hvenær mætti standa í vögnum frá Strætó út frá umræðunni fyrr á fundinum um fulla vagna og að farþegar hefðu verið skildir eftir? Ákveðið var að beina þessari spurningu til Strætó og senda RÞE svarið.
ÓS spurði hvort ástæða væri til þess að funda fyrr en með haustinu senda mætti nefndarmönnum fjárhagslegar upplýsingar eftir því sem þær yrðu til. Fundarmenn voru sammála um það, óskuðu jafnframt eftir upplýsingum um farþegafjölda og áætlaðan farþegafjölda.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:15
Fundargerð ritaði ÓS