22 – SSV samgöngunefnd

admin

22 – SSV samgöngunefnd

F U N D A R G E R Ð

Fundur Samgöngunefndar SSV með þingmönnum NV kjördæmis í Alþingi föstudaginn 4. apríl 2008.

Mætt voru:   Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, Guðjón Arnar Kristinsson, Guðbjartur Hannesson, Magnús Magnússon, Kristinn H. Gunnarsson, Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Gunnólfur Lárusson, Auðunn Halfdánarson frá Vegagerðinni, Jón Rögnvaldsson, vegamálastjór, Davíð Pétursson, formaður samgöngunefndar, Guðmundur Vésteinsson, Gísli S. Einarsson, Sigríður Finsen, Finnbogi Rögnvaldsson, Sveinbjörn Eyjólfsson, Ólafur Sveinsson og Hrefna B. Jónsdóttir, sem einnig ritaði fundargerð.

Sturla bauð fundarmenn velkomna og skilaði kveðju Einars Kristins Guðfinnssonar.  Sturla  gaf formanni Samgöngunefndar SSV orðið, Davíð Péturssyni. 

Davíð fór yfir áhersluatriði sem byggð eru á ályktunum aðalfundar SSV sem haldinn var 20. sept 2007.  Davíð ræddi um veglagningu vestan Eldborgar í Kolbeinsstaðahreppi.  Forgangsröðun verkefna eins og Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar.  Á sínum tíma var lagt upp með að þessar framkvæmdir hefðu forgang en nú væru Vaðlaheiðargöng komin fram fyrir Vesturlandsveg og er þar einkum átt við Kjalarnes.  Hann nefndi einnig vegamót við þjóðveg nr. 1 inn á Borgarfjarðarbraut þar sem um verulega slysahættu er að ræða.

Gísli Einarsson.  Breyting á vegalögum.  Ræddi um Innnesveg.  Vegagerðin leggur upp að þessi vegur sé nú á vegum Akraneskaupstaðar.  Varðandi túlkun samgönguráðherra þá væri hans framsaga á þá leið að ekki væri enn um þetta samið.  Þarna væri óklárt mál.  Gísli ræddi einnig Grunnafjörðinn.

Finnbogi Rögnvaldsson ræddi umferðaröryggi undir Hafnarfjalli,  færslu þjóðvegar 1 um Borgarnes,   vegtengingu um Lundareykjadal við Suðurland, allsherjarskoðun á vegagerð tengivega og sagði hann það von sína að það vegkerfi fari meira inn í samgönguáætlun.  Of lítið fjármagn væri til viðhalds þessara vega. 

Sigríður Finsen sagði margt hafa áunnist á Snæfellsnesi en ekki mætti láta staðar numið.  Hún ræddi styttingu vegarins frá Borgarnesi.  Skoða möguleikann um veginn vestan Eldborgar af alvöru, Skógstrandarvegur þyrfti brýna  endurbót.  Vegtengingar til og frá Reykjavík þyrftu víða endurbóta við.  Í tali samgönguráðherra, Kristjáns Möller, væri nú ekki rætt um Vesturlandsveg en sú umræða hefði verið komið nokkuð af stað, einkum veginn um Kjalarnesveg og tvöföldun Hvalfjarðarganga í framhaldinu.  Hún sagðist treysta því að þingmenn kæmu þessu máli í farveg.

Gunnólfur Lárusson tæddi Skógstrandarveg og veg um Laxárdal.  

Jón Rögnvaldsson sagði ekki ástæðu til að halda að Kjalarnesið hefði gleymst en málið gengi hægt.  Samstarf hefði verið, og væri, við Reykjavíkurborg um útfærslu.  Til austurs kæmu fleiri sveitarfélög að sem gerðu málið flóknara.  Hann fór hins vegar ekki ofaní einstök atriði.

Sturla sagði þurfa að finna farveg fyrir Innnesveg. 

Guðjón Arnar sagði af mörgu að taka þegar vegaframkvæmdir væru annars vegar.  Hann sagðist hafa miklar áhyggjur af Kjalarnesinu eins og það væri.  Fjöldi gatnamóta væru á Kjalarnesi, fáar aðreinar og umferðin mikil.  Um mikla slysagildru væri að ræða.  Tók hann svo sterkt til orða að hann nefndi orðið dauðagildru.  Hann sagði að laga ætti veginn um Laxárdalsheiði heldur en fara út í það að færa vegastæðið á Holtavörðuheiði.  Fjármunum yrði betur varið þannig.

Sveinbjörn Eyjólfsson ræddi öryggismál.  Hann fór yfir lokun þjóðvegar 1 við Svignaskarð og hversu langan tíma tók að koma umferð á að nýju,  reiðvegir hefðu gleymst og hvort ekki sæjust tækifæri í því að byggja upp flugvöll á Vesturlandi og byggja starfsemi í kringum hann.  Hann nefndi einnig tengivegina.

Sturla sagði ákveðna upphæð fara árlega til reiðvega og hafa fengið skammir fyrir að taka fjármunir af þungaskatti og öðrum sköttum til að byggja upp reiðvegi.  En full nauðsyn væri að gera betur í þeim efnum og beina umferð hestamanna frá þjóðvegunum.

Davíð tók heilshugar undir með Guðjóni Arnari með Kjalarnesið.

Anna Kristín Gunnarsdóttir, spurði vegamálastjóra, JR, um Framsveitarveg.  Auðunn og JR sögðu þessa færslu kosta um 3 milljónir og þá yrði að stytta aðra framkvæmd sem því nemur. 

JR sagðist horfa til mikilla hækkana í verðum og þær hækkanir kæmu niður á framkvæmdum.  Ekki væri hægt að framkvæma eins og vonir stóðu til.

Guðbjartur Hannesson sagði brýnt að finna vegstæði frá göngum upp í Borgarnes.  Einnig þyrfti að setja upp skilti sem gefa upplýsingar um veður við Akrafjall og Kjalarnes því oft væri mikill munur á veðri á þessum tveimur stöðum.  Aðeins eru skilti í Mosfellsbæ og við Borgarfjarðarbrú.  Hann fagnaði ályktun SSV um að fella niður gjald í Hvalfjarðargöng og áfram skyldi barist fyrir því.    

Kristinn H Gunnarsson tók undir sjónarmið Sveinbjarnar um aukna áherslu á tengivegi.  Búsetan í kringum höfuðborgarsvæðið hefði mikið breyst og dreifbýlið þéttst eins og í Borgarfirði.  Hann sagðist hafa áhyggjur af því að pólitískan stuðning vantaði við uppbyggingu Vesturlandsvegar.  Allur þungi hefði farið í Reykjanesbraut og Suðurlandsveg.  Hann sagði að einnig væri horft á of dýrar lausnir.  Af hverju tvöföldun vegar, þ.e. fjórar akreinar, þegar hægt væri að leysa málið með 2 + 1 lausninni. 

Finnbogi sagðist sammála Kristni hvað þessar lausnir varðar.  Líta mætti til að hægt væri að gera eitthvað fyrir héraðsvegakerfið.  Ljós er að fara þarf í þessar framkvæmdir fyrr eða seinna.  Hann lýsti yfir áhuga síns sveitarfélags að taka yfir héraðsvegina sem tilraunaverkefnis og leitað yrði leiða til að bæta þennan hluta samgöngukerfisins með ódýrari hætti en nú er gert t.d. með því að mjókka slitlag og leggja bundið slitlag á núverandi vegi án verulegrar breytingar á veglínu.

Magnús tók undir með Framnessveitarveginn og sagði það hlutverk þingmanna að beita sér í því.  Finna þyrfti lausn á því máli.  Hann spurði um stöðu máls hvað varðar veg um þjóðveg sem liggur um Borgarnes, vestur á Snæfellsnes.

Guðmundur Vésteinsson taldi ekki ástæðu til að gefa neitt eftir um tvöföldun um þjóðveg frá Reykjavík, allt upp í Borgarnes.  Ódýrar bráðabirgðalausnir ættu ekki við ef horfa ætti til framtíðar.  Hann nefndi að lokum Grunnafjarðarleiðina og telur þá leið,, þ.e. Hvítanes – Súleysi,  mun umhverfisvænni  leið en sú sem farin er í dag.

Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir tók undir orð Guðjóns Arnars.  Öryggismál væru brýn á Kjalarnesi.  Hún nefndi safn- og tengivegi og nauðsyn þess að huga betur að þeim og nefndi umhverfið í kringum háskólasvæðin í Borgarfirði þar sem byggðin í kring væri þétt og keyra þyrfti börn til skóla eftir þessum vegum allt árið um kring.

Davíð Pétursson, þakkaði Jón Rögnvaldssyni, fyrir áralangt samstarf.  Lýstu menn þó áhyggjum sínum, í gríni, yfir því hversu mörg mál hann þyrfti að klára áður en hann léti af störfum.

Jón sagði frá endurskoðunarvinnu við vegaáætlun en færa þyrfti inn þær breytingar sem koma upp.   Hann sagði það rétt að seint myndi miða ef ætíð yrðu teknar dýrustu lausnirnar og á móti kæmi að ekki mætti veita afslátt á umferðaröryggi.  Hann hvatti menn að huga að skipulagsmálum norðan Hvalfjarðar en reynslan sýndi að þau koma upp á borðið þegar t.d. er verið að skoða og framkvæma breytingar á vegtengingum. 

Sturla sagði nauðsynlegt að umferðaröryggisaðgerðirnar næðu fram að ganga. 

Sturla þakkaði fundarmönnum komuna og sagði fundi slitið.

Fundarritari, Hrefna B. Jónsdóttir.