59 – SSV stjórn

admin

59 – SSV stjórn

F U N D A R G E R Ð

 

Stjórnarfundur haldinn í stjórn SSV  mánudaginn 22. október 2007, kl. 8:45 á Hótel Hamri við Borgarnes.

 

Stjórnarfundur haldinn í stjórn SSV mánudaginn 22. október 2007 kl. 8:45 á Hótel Hamri.
Mætt voru:  Sigríður Finsen, Páll Brynjarsson, Jenný Lind Egilsdóttir, Ása Helgadóttir, Haraldur Helgason og Kristjana Hermannsdóttir.  Hrönn Ríkharðsdóttir boðaði forföll. 
Einnig sátu fundinn Ólafur Sveinsson og Hrefna B. Jónsdóttir, sem einnig ritaði fundargerð.

 

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:
              1. Þingmannafundur – áherslumál.
              2. Samgöngumál.
                  Drög að ályktun frá formanni.
              3. Brusselferð.
              4. Endurnýjun suparubifreiðar SSV
              5. Fundarplan fyrir stjórnarfundi hjá SSV.
              6. UKV – Markaðsstofa
              7. Skipun í Svæðisráð um málefni fatlaðra á Vesturlandi.
              8. Málefni atvinnuráðgjafar
                  a. Samningar við Byggðastofnun.
                  b. Könnun – menntunarstig á Vesturlandi.
              9. Önnur mál.

 

Þingmannafundur – áherslumál.
Formaður fór yfir áhersluatriði fyrir fund með þingmönnum kjördæmisins en sá fundur hefst kl. 10.  Rætt var m.a. um gjald í Hvalfjarðargöng, eftirlitsmyndavélar sem mæla hraða, og Sundabraut.  Einnig var rætt um endurnýjun samnings við Byggðastofnun vegna atvinnuþróunarfélagsins, endurnýjun menningarsamnings, tekjur sveitarfélaga, kynna hugmynd um skrifstofu í Brussel, starf vaxtarsamnings, mótvægisaðgerðir vegna þorskaflaskerðingar á Vesturlandi og nýútkomin skýrsla Vífils Karlssonar um útsvar og þróun þess.  

 

Samgöngumál.
Formaður lagði fram drög að tillögu vegna frestun Sundabrautar:


Á nýafstöðnum aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi var samþykkt ályktun um samgöngumál þar sem þess er krafist að sem fyrst verði vegsamband á milli Vesturlands og höfuðborgarsvæðisins bætt í samræmi við breytta byggðaþróun og aukið umferðarálag á svæðinu. 

 

Í greinargerð með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2008 kemur fram að áformað er að fresta framkvæmdum við Sundabraut er nemur 1,5 milljarði króna frá því sem áætlað var á næsta ári.

 

Stjórn SSV mótmælir harðlega þessum niðurskurði og bendir á að bráðnauðsynlegt er að tryggja öruggar og góðar samgöngur milli höfuðborgarinnar og alls vestur- og norðurhluta landsins.
Núverandi umferðarmannvirki anna ekki umferð á annatímum og eykur kostnað íbúa og atvinnulífs. 

 

Stjórn SSV bendir á að hægt sé að byrja framkvæmdir við Sundabraut frá Kjalarnesi og krefst þess að fallið verði frá fyrirhugaðri frestun framkvæmda við Sundabraut. 

 

Fundarmenn voru sammála þessum drögum formanns og samþykktu ályktunina.  Páll velti því upp hvort hægt væri að nota rannsóknir frá SSV sem sýna umferðaraukninguna til og frá  höfuðborgarsvæðisins og jafnvel samanburð við Suðurland.

 

Brusselferð.
Sigríður, Páll og Ólafur sögðu frá ferð sinni til Brussel en þau voru þar á opnum dögum dagana 8 – 11. okt. sl.  Skoðað var hvernig efla megi tengsl Vesturlands við starfsemi EB í Brussel með það að markmiði að nýta betur þau tækifæri sem gefast til samstarfs og þátttöku í verkefnaáætlun EB á grundvelli EES samstarfsins.  Það er einróma skoðun þeirra sem fóru að þarna geti verið ákveðin tækifæri fyrir Vesturland en Reinhard Reinharsson mastersnemi við Háskólann á Bifröst mun vinna mastersverkefni sitt um það hvort tækifæri séu fyrir opnun svæðaskrifstofu í Brussel.
Ferð Vestlendinga vakti athygli sveitarstjórnarfólks frá Íslandi.

 

Endurnýjun subarubifreiðar SSV
Framkvæmdastjóri lagði fram tilboð frá IH á endurnýjun bifreiðar SSV.  Samþykkt.

 

Fundarplan fyrir stjórnarfundi hjá SSV.
Framkvæmdastjóra falið að setja fram fundaplan og finna aðalfundi SSV tíma í september.

 

UKV – Markaðsstofa
Borist hefur erindi frá stjórnarformanni UKV þar sem hann kallar eftir afstöðu stjórnar SSV varðandi fyrirhugun á breytingum vegna Markaðsstofu Vesturlands.  Hann bendir á að ekki sé hægt að hefja breytingarferli nema samþykki stjórnar SSV liggi fyrir auk þess sem engar áætlanir varðandi fjárhagslegan ávinning verkefnisins hafi verið fram lagðar.
Samþykkt að setja upp þriggja manna hóp til að vinna að viðskiptaáætlun fyrir Markaðsstofu. Tilnefndir í starfshóp eru Torfi Jóhannesson, Hrafnhildur Tryggvadóttir og Ólafur Sveinsson.  Til vara Hrefna B. Jónsdóttir.

 

Skipun í Svæðisráð um málefni fatlaðra á Vesturlandi.
Félagsmálaráðuneytið hefur farið þess á leit við SSV að þar sem skipunartími Svæðisráðs um málefni fatlaðra á Vesturlandi sé runninn út

Tilnefndir eru að hálfu SSV:


Aðalmenn:                  Til vara:
Hjördís Hjartardóttir     Guðrún Fjeldsted.
Albert Eymundsson    
Sveinn Kristinsson       Guðmundur Páll Jónsson.

 

Málefni atvinnuráðgjafar
Samningar við Byggðastofnun.
Ólafur Sveinsson, sem situr í samninganefnd f.h. atvinnuþróunarfélaganna, sagði frá stöðu samningaviðræðna en gildandi samningur gildir til áramóta.


Könnun – menntunarstig á Vesturlandi.
Ólafur Sveinsson sagði frá vinnu við könnun sem er í vinnslu hjá SSV varðandi menntunarstig á Vesturlandi.

 

Önnur mál.
Ályktun frá Svæðisráði málefna fatlaðra á Vesturlandi.

Lögð fram ályktun frá fráfarandi Svæðiráði málefna fatlaðra á Vesturlandi sem vill minna á atriði er snerta þjónustu við fatlaða á Vesturlandi og mælist til að fjárveitingavald og félagsmálaráðuneyti taki mið af þeim við fjárveitingar og ákvarðanir er snerta Vesturland á komandi árum og sveitarfélög leggi málum lið.

 

Fundargerð.
Lögð fram fundargerð 3. fundar stjórnar Vaxtarsamnings Vesturlands 18.09.2007.

 

Þakkir Félags- og tryggingamálanefndar Alþingis.
Lagt fram bréf dags. 12.09.07 þar sem Félags- og tryggingamálanefnd Alþingis þakkar fyrir vinsamlegar móttökur í tilefni af sumarferð nefndarinnar 5. sept. sl.

 

Lagt fram bréf dags 25.09.07. frá Landsskrifstofu Staðardagskrár 21 á Íslandi. 

Greint er m.a. frá endurnýjuðu samkomulagi um framhald samstarfs um Staðardagskrá 21 á Íslandi.

 

Lagðar fram ályktanir ársþing SSNV og FV.

 

Páll lagði áherslu á að þakka starfsmönnum SSV fyrir skýrslu um útsvar.  Þessi vinna hefur að hans mati fengið góða kynningu sem virkar jákvætt fyrir svæðið.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 9:55.
Hrefna B. Jónsdóttir, fundarritari.