Áhugavert málþing var haldið á Hótel Hamri í Borgarbyggð þann 3. apríl síðastliðinn undir yfirskriftinni „Er Vesturland aðlaðandi búsetukostur fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu?“ Þar komu saman fulltrúar ferðaþjónustunnar, sveitarfélaga og annarra hagaðila til að ræða móttöku, inngildingu og búsetuskilyrði á svæðinu fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu.
Málþingið var haldið í samstarfi Áfangastaða- og Markaðsstofu Vesturlands, Samtaka ferðaþjónustunnar og Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, en Kristján Guðmundsson verkefnastjóri hjá Markaðsstofu Vesturlands var fundarstjóri.
Dagskráin skiptist í þrjú meginþemu þar sem flutt voru erindi og spiluð innslög með „örsögum“ af Vesturlandi:
Ferðaþjónustan sem samfélagsleg auðlind: Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF, hélt tölu þar sem hann lagði áherslu á að starfsfólk þurfi að fá tækifæri til að verða virkir þátttakendur í samfélaginu. Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri í Kjósarhreppi, miðlaði reynslu sinni frá því þegar hún var sveitarstjóri í Vík í Mýrdal á þeim tíma þegar ferðaþjónustan þar var í mestum vexti og þeim áhrifum sem það hafði á byggðarlagið.
Inngilding sem lykill að rótfestu: Innslag með örsögu frá Mariana Mendonça, móttökustjóra í Hótel Reykholt – “Reynslusaga nýbúa á Vesturlandi” en hún kom frá Portugal til Íslands fyrir 9 árum til að vinna í ferðaþjónustu, og býr hér enn. Þá fluttu þær Ólína Laxdal og Sólveig Nikulásdóttir, sérfræðingar frá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar, erindi og kynntu ýmis verkefni og verkfæri sem liggja inni á heimasíðu Hæfnisetursins, og nýtast vel til að bæta móttöku og aðlögun starfsfólks. Síðan var spilað stutt myndband – “Árangursrík inngildingarverkefni á Vesturlandi”, með viðtali við Jovana Pavlovic, hjá Símenntun Vesturlands, þar sem hún sagði frá áhugaverðum verkefnum sem þar eru í boði.
Búsetumál – áskoranir og sameiginleg ábyrgð: Björn Bjarki Þorsteinsson, sveitarstjóri Dalabyggðar, ræddi mögulegar aðgerðir og lausnir sveitarfélaga, til að efla samfélagið og efla ímynd og auka aðdráttarafl sveitarfélaga, auka lífsgæði og laða að nýja íbúa til að koma og setjast að. Þá var spilað innslag með örsögu frá Atla Frey Guðmundssyni, sem tók sig upp í haust og flutti af höfuðborgarsvæðinu vestur í Dali til að vinna við draumastarfið í ferðaþjónustu. Margrét Björk Björnsdóttir, fagstjóri Áfangastaða- og Markaðsstofu Vesturlands, kynnti síðan helstu niðurstöður úr spurningakönnun sem gerð var meðal ferðaþjónustufyrirtækja á Vesturlandi varðandi búsetukosti og ráðningar starfsfólks í ferðaþjónustu. Síðan voru spiluð tvö innslög með örsögum annars vegar frá Weronika Ondycz, sem er aðstoðarhótelstjóri á Hótel Búðum og hins vegar frá Sigurósk Sunnu Magnúsdóttur sem er hótelstjóri á Hótel Langaholti, þar sem þær ræddu áskoranir varðandi starfsmannahald og húsnæði í sveitinni.
Í lokin tóku sveitarstjórnarfólk af Vesturlandi þátt í pallborðsumræðum þar sem fjallað var um hvernig samfélög geta laðað að starfsfólk og skapað aðstæður sem gera fólki kleift að setjast að til framtíðar. Umræður úr sal voru líflegar og málefnið greinilega brýnt og mikilvægt fyrir svæðið.
Málþinginu lauk með að öllum var boðið í súpu þar sem þátttakendur gátu haldið áfram að ræða þetta þarfa málefni og annað sem brennur á fólki.
Hér má sá nánar um málþingið og horfa á streymið sem var tekið upp