• slide
  • slide
  • slide
  • slide

Áfangastaða- og markaðssvið SSV


Áfangastaða- og markaðssviði SSV heldur utan um verkefni sem lúta að þróun, uppbyggingu og gæðum ferðamála á Vesturlandi.
Sviðið samanstendur af starfsemi og verkefnum sem heyra undir Áfangastaðastofu Vesturlands og Markaðsstofu Vesturlands.
Þrír starfsmenn eru fastráðnir á þessu sviði, þ.e. forstöðumaður/fagstjóri, verkefnastjóri markaðsverkefna og verkefnastjóri þróunarverkefna. Einnig eru mörg verkefni unnin í samstarfi og með aðkomu annars starfsfólks SSV, auk þess sem starfsmenn eru ráðnir inn í tímabundin áhersluverkefni þegar svo ber undir.
Starfsárinu er skipt upp í þrjú starfstímabil með mismunandi áherslum og verkefnum. Það eru vorönn og haustönn þar sem unnið er að ýmsum þróunar- og markaðsverkefnum í samstarfi við samstarfsaðila. Á sumarönninni er annar taktur, þá er unnið að áhersluverkefnum í markaðssetningu og kynningu, gagnaöflun og „pop up“ verkefnum sem styðja og efla ferðaþjónustuna á líðandi stund. Þá eru líka sumarfrí og mikið að gera hjá ferðaþjónustuaðilum svo starfsemin er með öðru sniði en á öðrum árstíðum, eins og gengur.

Áfangastaðaáætlun Vesturlands


Áfangastaðaáætlun er stefnumótandi áætlun um áherslur, uppbyggingu og þróun ferðamála á tilteknu landsvæði og skilgreindu tímabili. Áætlunin er gerð að frumkvæði stjórnvalda, en unnin af stoðþjónustu ferðamála á umræddu svæði, í samstarfi við sveitarfélög, heimafólk og hagaðila á hverjum stað.
Áætlunin stuðlar þannig að jákvæðum framgangi ferðamála, samræmdri uppbyggingu innviða og virkri vöruþróun, en er einnig góður grunnur aukinni samkend, samráði og samstarfi.
Fyrsta Áfangastaðaáætlun Vesturlands kom út í upphafi árs 2019 (ÁSÁ.Vest. 2018-2020). Þar er ýtarleg greining á sérstöðu svæðisins og þróun ferðamála í landshlutanum. Sú greining sem þar er stendur enn vel fyrir sínu. Því er hún nýtt áfram sem grunnurinn að þeirri áfangastaðaáætlun sem gefin var út um síðustu áramót og verður höfð að leiðarljósi við þróun og uppbyggingu ferðamála á Vesturlandi næstu þrjú ár 2021-2023.

Áfangastaðastofa Vesturlands


Í framhaldi af gerð Áfangastaðaáætlunar Vesturlands 2018-2020 og stefnumótun stjórnvalda um að efla samræmda og markvissa áfangastaðavinnu í hverjum landshluta, hófst undirbúningar að stofnun Áfangastaðastofu Vesturlands.
Hlutverk áfangastaðastofu er að halda utan um gerð áfangastaðaáætlunar svæðisins og fylgja eftir framgangi á þeim markmiðum, áherslum og verkefnum sem þar eru sett fram.
Áfangastaðastofa Vesturlands (ÁSV) starfar eftir áherslum og markmiðum í gildandi Áfangastaðaáætlun Vesturlands á hverjum tíma. ÁSV sinnir því m.a. verkefnum sem snúa að stefnumótun, framgangi og eflingu ferðamála- og innviðauppbygginar. Einnig samstarfi, samráði og ráðgjöf við heimamenn, fyrirtæki, þjónustuaðila, gesti, stoðþjónustu og opinbera aðila innan ferðaþjónustu. Auk þess sem unnið er að markaðs- og kynningarmálum í samstarfi við hagaðila undir merkjum Markaðsstofu Vesturlands (MSV).
Kjarnastarfsemi Áfangastaðastofu Vesturlands(ÁSV) er því skipt í þrjá meginþætti:
-Áfangastaðaverkefni: verkefni sem snúa að eflingu innviða og ásýndar áfangastaðarins Vesturlands.
-Þróunarverkefni: verkefni sem snúa að eflingu ferðaþjónustu og upplifunar á Vesturland.
-Markaðsverkefni: verkefni sem snúa að ímynd, markaðssetningu og kynningu á áfangastaðnum Vesturlandi.
Unnið er að þessum verkefnum í samstarfi við heimafólk og hagaðila á öllum svæðum á Vesturlandi eftir því sem ástæður og aðstæður eru til hverju sinni. Þessi verkefni geta svo ýmist fallið undir fasta starfsemi ÁSV, verði átaksverkefni eða fallið undir ráðgjöf og stoðþjónustu.

Markaðsstofa Vesturlands


Markaðsstofa Vesturlands ehf. (MSV) var stofnuð 2008 á grunni Upplýsinga- og kynningarmiðstöðvar Vesturlands. Hlutverk MSV er að halda utan um og sinna markaðsmálum og opinberri kynningu á áfangastaðnum Vesturlandi. Markaðsstofan er líka samstarfsvettvangur við hagaðila ferðaþjónustunnar í markaðs- og kynningarmálum, þar sem gerðir eru formlegir samtarfssmningar við þá ferðaþjónustuaðila sem starfa á Vestulandi og vilja taka þátt í og leggja sitt að mörkum í þessu opinbera markaðs- og kynningarstarfi með stoðþjónustunni. MSV starfar með markaðsstofum í öðrum landshlutum og er formlegur samstarfsaðili Íslandsstofu og Ferðamálastofu varðandi markaðssetningu og kynningu á Íslandi sem áfangastað.