Áfangastaðurinn Vesturland – stoðþjónusta og samstarf ferðamála
Áfangastaða- og markaðssvið SSV (Á&M) er samstarfsvettvangur hagaðila ferðamála á Vesturlandi, þ.e. sveitarfélaga, stofnana og fyrirtækja í ferðaþjónustu á Vesturlandi. Starfsemin byggir á samstarfssamning við ríkið, hvað varðar gerð og utanumhald um áfangastaðaáætlun Vesturlands, þróun ferðamála og markaðssetningu á áfangastaðnum Vesturlandi.
Sviðið heldur utan um og vinnur að framgangi þeirra verkefna Áfangastaða- og Markaðsstofu Vesturlands sem skilgreind hafa verið sem áhersluverkefni í Áfangastaðaáætlun Vesturlands á hverjum tíma.
Þrír starfsmenn eru fastráðnir á þessu sviði, en einnig eru mörg verkefni unnin í samstarfi og með aðkomu annars starfsfólks SSV, auk þess sem starfsmenn eru ráðnir inn í tímabundin áhersluverkefni þegar svo ber undir.
Áfangastaðaáætlun Vesturlands
Áfangastaðaáætlun er stefnumótandi aðgerðatengd áætlun varðandi áherslur, uppbyggingu og þróun ferðamála á tilteknu landsvæði á ákveðnu tímabili. Áætlunin er gerð að frumkvæði og samkvæmt stefnu stjórnvalda um þróun ferðamála á landsvísu, en er unnin af stoðþjónustu ferðamála á umræddu svæði, í samstarfi við sveitarfélög, heimafólk og hagaðila á hverju svæði.
Áfangastaðaætlun stuðlar að jákvæðum framgangi ferðamála, samræmdri uppbyggingu innviða og virkri vöruþróun, en er einnig góður grunnur að aukinni samkennd, samráði og samstarfi allra hagaðila ferðamála á Vesturlandi.
Fyrsta Áfangastaðaáætlun Vesturlands kom út í upphafi árs 2019 (ÁSÁ.Vest. 2018-2020). Þar er ýtarleg greining á sérstöðu svæðisins og þróun ferðamála í landshlutanum. Sú greining stendur enn vel fyrir sínu, því er hún nýtt áfram sem grunnurinn að annarri áfangastaðaáætlun Vesturlands sem unnin var og gefin var út í upphafi árs 2021, og er leiðarljós varðandi þróun og uppbyggingu ferðamála á Vesturlandi árin 2021-2023.
Árið 2023 var unnið að nýrri aðgerðaráætlun stjórnvalda varðandi ferðamál á Íslandi sem samþykkt var á vormánuðum 2024. Unnið er að uppfærslu og endurnýjun á Áfangastaðaáætlun Vesturlands.
Áfangastaðastofa Vesturlands
Í framhaldi af gerð Áfangastaðaáætlunar Vesturlands 2018-2020 og stefnumótun stjórnvalda um að efla samræmda og markvissa áfangastaðavinnu um allt land, voru stofnaðar Áfangastaðastofur í hverjum landshluta.
Hlutverk áfangastaðastofu er að halda utan um gerð og framgang áfangastaðaáætlunar hvers svæðisins í samráði við heimafólk og hagaðila ferðamála.
Áfangastaðastofa Vesturlands (ÁSV) vinnur að fjölbreyttum verkefnum sem byggja á áherslum og markmiðum í gildandi Áfangastaðaáætlun Vesturlands á hverjum tíma – auk þess að taka mið af áherslum sem settar eru fram í fjármögnunar-samningi við Ferðamálaráðuneytið s.s.;
- Vera grunneining í stoðkerfi ferðamála í landshlutunum
- Gerð og framkvæmd áfangastaðaáætlana ásamt tengingu við aðrar opinberar stefnur og áætlanir
- Aðkoma að gerð stefnumótunar og áætlana á landsvísu sem snertir ferðaþjónustu
- Aðkoma að þarfagreiningu rannsókna og mælinga á landsvísu
- Stuðla að og styðja við vöruþróun og nýsköpun í ferðamálum og vinna að vinna að þróunarverkefnum
- Leggja mat á fræðsluþörf, veita ráðgjöf varðandi fræðslu og miðla upplýsingum um hvað er í boði
- Liðsinna sveitarfélögum, fyrirtækjum og einstaklingum innan svæðis vegna ferðaþjónustu
- Sinna svæðisbundinni markaðssetningu og kynningu í samstarfi við sveitarfélög og ferðaþjónustuaðila sem dregur fram sérstöðu landshlutanna og styður við markaðssetningu Íslands í heild.
Markaðsstofa Vesturlands
Markaðsstofa Vesturlands ehf. (MSV) var stofnuð 2008 á grunni Upplýsinga- og kynningarmiðstöðvar Vesturlands.
Hlutverk MSV er að standa fyrir og sinna ábyrgri opinberri kynningu á áfangastaðnum Vesturlandi, sérstöðu svæðisins, helstu seglum, útivistar- og upplifunarmöguleikum sem þar er að finna.
Auk þess að styðja við og efla markaðssetningu á áfangastaðnum og þeirri þjónustu sem samstarfsaðilar Markaðsstofu Vesturlands bjóða á Vesturlandi.
Markaðsstofan er því líka samstarfsvettvangur hagaðila ferðamála á Vesturlandi, þar sem öllum ferðaþjónustuaðilum með starfsemi á Vesturlandi er boðið að gera formlega samstarfssamninga við MSV ef þeir vilja taka þátt í og leggja sitt að mörkum í þessu opinbera kynningar- og markaðsstarfi á áfangastaðnum Vesturlandi.
MSV starfar líka náið með markaðsstofum annarra landshluta á Íslandi, er einnig formlegur samstarfsaðili Íslandsstofu og Ferðamálastofu varðandi markaðssetningu og kynningu á Íslandi sem áfangastað.
Markaðsstofur landshlutanna (MAS) eru hluti af opinberu stoðkerfi ferðamála á Íslandi og starfa hver á sínum landshluta Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi, Austurlandi, Suðurlandi, Reykjanesi og Höfuðborgarsvæðinu. Sjá vefsíðu: markadsstofur.is
Markaðsstofa Vesturlands hvetur alla hagaðila og þjónustuaðila ferðamála sem starfa á Vesturlandi til að gerast formlegir samstarfsaðilar Markaðsstofu Vesturlands og taka þannig þátt í að efla og kynna áfangastaðinn Vesturland.