19 – Sorpurðun Vesturlands
Sorpurðun Vesturlands hf.
Stjórnarfundur, miðvikudaginn 12. mars 2003.
Stjórnarfundur í Sorpurðun Vesturlands hf. haldinn á skrifstofu SSV í Borgarnesi miðvikudaginn 12. mars 2003 kl. 17. Mætt voru: Bergur Þorgeirsson, Guðbrandur Brynjúlfsson, Guðni Hallgrímsson, Gunnólfur Lárusson, Kristinn Jónasson, Sigríður Gróa Kristjánsdóttir, Sæmundur Víglundsson og Hrefna B. Jónsdóttir.
Dagskrá fundarins er eftirfarandi:
1. Kosning formanns.
2. Kynning á umhverfisskipulagi.
3. Söfnun dekkja fyrir Úrvinnslusjóð.
4. Önnur mál.
Sigríður Gróa Kristjánsdóttir, aldursforseti stjórnar, setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna til starfa í nýrri stórn, einkum nýja stjórnarmenn.
Kosning formanns og varaformanns.
Fyrsta mál á dagskrá var kosning formanns og var stungið upp á Guðbrandi Brynjúlfssyni sem formanni og var það samþykkt einróma. Stungið var upp á Guðna Hallgrímssyni sem varaformanni og var það einnig samþykkt einróma. Sigríður Gróa lýsti ánægju sinni með kosningu formanns og varaformanns. Þar væru verðugir formenn komnir í embættin. Guðbrandur þakkaði traustið og það gerði Guðni einnig.
Kynning á umhverfisskipulagi.
Erla Bryndís Kristjánsdóttir, landslagsarkitekt, og Áslaug Katrín Aðalsteinsdóttir, landslagsarkitekt, komu inn á fundinn og kynntu vinnu sína við umhverfisskipulag í Fíflholtum. Rætt var um ýmsar útfærsluleiðir á svæðinu. Þær munu halda áfram sinni vinnu og stjórnarmenn munu kynna sér ákveðna þætti betur m.t.t. aðstæðna í Fíflholtum.
Söfnun dekkja fyrir Úrvinnslusjóð.
Guðlaugur Sverrisson frá Úrvinnslusjóði hefur haft samband varðandi söfnun dekkja á svæðinu. Úrvinnslusjóður á að vera tilbúinn að taka við dekkjum 1. apríl n.k. en ljóst er að svo getur ekki orðið.
Kristinn sagði það vera eðlilegast að Úrvinnslusjóður sæki dekkin til sveitarfélaganna því kostnaður við flutning væri þá sjóðsins. Samþykkt var að gefa sveitarfélögunum færi á að koma með dekkin í Fíflholt ef aðstæður til geymslu heimafyrir væru ekki fyrir hendi.
Önnur mál.
Samstarf sorpsamlaga á suðvesturhorninu.
SORPA hefur boðað til fundar þar sem hugmyndin er að ræða möguleg dagskrárefni á fulltrúaráðsfund SORPU sem haldinn verður á þessu ári. Upp hefur komið sú hugmynd að dagskrárefni fundarins verði samstarf sorpsamlaga á suðvesturhorni landsins og gerð yrði einhverskonar úttekt á kostum og göllum. Til að ræða þessa hugmynd frekar og hvernig skuli bera þessa hugmynd til viðkomandi stjórna hefur SORPA boðað til umræðufundar 20 mars n.k.
Aðalfundur FENÚR.
Aðalfundur FENÚR verður haldinn föstudaginn 4. apríl 2003.
Ákveðið að heimsækja Fíflholt í tengslum við næsta stjórnarfund.
Fundi slitið.
Fundarritari.
Hrefna B. Jónsdóttir.