7 – SSV samgöngunefnd

admin

7 – SSV samgöngunefnd

                       F U N D A R G E R Ð
                   Samgöngunefnd SSV, þriðjudaginn 9. apríl 2002 kl. 15.
Fundur haldinn í samgöngunefnd SSV, þriðjudaginn 9. apríl 2002 kl. 15.
Mættir voru Davíð Pétursson, Kristinn Jónasson, Magnús Valur Jóhannsson umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Vesturlandi, Sigríður Finsen, Sigurður Rúnar Friðjónsson, Þórður Þórðarson og Hrefna B. Jónsdóttir.
 
Fyrir fundinum lá eftirfarandi dagskrá:
1. Undirbúningur fyrir fund með alþingismönnum Vesturlands.
2. Fundur með alþingismönnum Vesturlands.
 
Undirbúningur fyrir fund með alþingismönnum Vesturlands.
Formaður nefndarinnar, Davíð Pétursson, bauð fundarmenn velkomna.  Á síðsta stjórnarfundi 15.3.2002 var farið yfir vegaáætlun og  forgangsröðun verkefna.  Unnið var út frá þeim ákvörðunum sem þar voru teknar.  Sigurður Rúnar bætti því við að einbreytt slitlag í Dölum væri orðið varasamt auk þess sem malarvegir væru orðnir viðhaldsþurfi. 
 
Fundur með alþingismönnum Vesturlands kl. 16.
Til fundarins mættu alþingismenn og ráðherra Vesturlands,  Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, Magnús Stefánsson, Jóhann Ársælsson, Guðjón Guðmundsson, Gísli S Einarsson og  Jón Rögnvaldsson aðstoðarvegamálastjóri.
Sturla bauð samgöngunefnd og gesti hennar velkomna til fundarins.  Hann gaf formanni nefndarinnar orðið.
Davíð fór yfir þau mál sem efst eru í hugum nefndarmanna sem eru m.a.:
    X  Knýja á meira fjármagn til vegaframkvæmda á Vesturlandi.
    X  Uxahryggjaleið
    X  Girðingar meðfram þjóðvegum.
    X  Vegur um Skorradal, mikil umferð.
    X  Vegur um Borgarnes
    X  Borgarfjarðarbraut-Grafarkot en þar er hröð umferð, vegur slæmur og lítil löggæsla. Var vísað til ályktunar           Bæjarráðs  Borgarbyggðar frá 26. apríl 2001 þar sem lögð er áhersla á að áætlunum um endurbyggingu á þjóðvegi 1 frá Gljúfurá að Brekku í Norðurárdal  verði hraðað  sem kostur er.
    X  Einbreitt slitlag í Dölum.
    X  Malarvegir í svelti.
    X  Útnesvegur.
 
Kristinn talaði um Útnesveg og nauðsyn þess að bæta hann m.t.t. aukinnar umferðar ferðamanna um Þjóðgarðinn.  Einnig lagði hann áherslu á að lokið yrði við uppbyggingu vegarins á Fróðárheiði.
 
Sigríður Finsen minnti á að eitt mikilvægasta verkefni m.t.t. tengingu byggðanna fyrir Vestan væri Kolgrafarfjarðarbrúin.  Hún lagði áherslu á að góðir vegir myndu efla þá þjónustu sem í boði væri víðsvegar á Snæfellsnesi en eins og staðan væri væri ekki auðvelt að komast að þjónustuframboði ferðaþjónustunnar af því vegir væru svo slæmir.
Sigurður Rúnar talaði um Bröttubrekku en þar eru framkvæmdir í gangi og sæi orðið fyrir endann á þeim.  Hann nefndi slæman veg um Svínadal og væntanlega bót þar á og að lokum minntist hann á lélegan veg og brýr á Skógarströnd. 
 
Þórður Þórðarson minnti á Grunnafjörðinn.  Hann sagði tímabært að sjá þá vegalagningu á áætlun fljótlega en um væri að ræða mikið hagsmunamál fyrir Vesturland allt.
 
Sturla hafði orð á veginum niður að stóriðjusvæðinu á Grundartanga.  Forsvarsaðilar verksmiðjanna leggðu mikla áherslu á að sá vegur yrði tekinn til endurbóta.  Sturla sagði það mikilvægt að svara þeirri beiðni því þarna færi um mikil umferð og flutningar og bæri vegurinn illa alla þá umferð sem á honum hvílir, einkum í  tengslum við Grundartangahöfn.   Hann sagði óþægilegan halla hafa myndast vegna vegaframkvæmda á Vesturlandi sem þyrfti að vinna á og ekki væri auðvelt að svara samgöngunefndarmönnum hér og nú en allt væru þetta brýn verkefni. 
 
Magnús Valur Jóhannsson fór yfir skuldastöðuna á framkvæmdum á Vesturlandi.  Um síðust áramót var staðan um 200 milljónir umfram heimildir og væri ástæðan einföld, umframkeyrsla verka.  Hann sagði að búast mætti við að ef lagt yrði út í þau verkefni sem væru á áætlun á þessu ári byggist hann við að hallinn myndi aukast frekar en hitt.
Hann sagði frá undirbúningsvinnu við Kolgrafarfjörð og vænti þess að sú framkvæmd yrði boðin út í haust.  Varðandi Bröttubrekku þá sagði Magnús að framkvæmdir hefðu legið niðri frá því sl. sumar og ný verkáætlun hefði borist og búist væri við því að verktakar hæfu störf aftur á næstu dögum. 
 
Rögnvaldur fór lítillega yfir stöðu fjármála og sagði að nokkrar líkur væru á því að framlag fengist í halann af svokölluðu ,,jaðarbyggðafé” en ákvarðanir liggja þó ekki fyrir.  Fyrir liggur fundur með þinmönnum um hvernig því fé verður ráðstafað.
 
Guðjón fór yfir umræðuna um Uxahryggjaleiðina og þá umræðu að skynsamlegast væri að byrja þá uppbyggingu vestan megin.  Hann sagði framkvæmdina við Grundartanga brýna því sú staða sem þar er er engan veginn boðleg.
 
Sturla Böðvarsson vék af fundi en hann var að mæla fyrir vegaáætlun í Þinginu og gat því miður ekki setið fundinn lengur. 
Magnús Stefánsson tók við stjórn fundarins.
 
Magnús Valur fór yfir stöðu framkvæmda á Hálsasveitarvegi en útboð hefur farið fram og er verið að skoða tilboð. 
 
Davíð fór yfir væntingar samgöngunefndar um Uxahryggjaleið.  Magnús Valur sagði frá fundi með kollegum sínum frá nærliggjandi svæðum.  Þeir hefðu grófmetið leiðina, þ.e. framkvæmdir og kostnaðaráætlun.
 
Jóhann Ársælsson sagði veg yfir Uxahryggi mikilvæga samgöngubót einkum m.t.t. ferðaþjónustunnar.  Þingmenn Vesturlands og Suðurlands hlytu að geta komist að samkomulagi um framkvæmdina.  Einnig taldi hann fulla ástæðu til þess að leggja út í hagkvæmniskoðun varðandi Grunnafjörðinn.
 
Nokkrar umræður urðu um umhverfismat vegna framkvæmda og Kristinn sagði að það mikilvægasta væri að koma þjóðvegum í landshlutanum upp úr drullunni og gefa þar með íbúum svæðisins tækifæri til að keyra á malbiki.  Einnig beindi hann því til þingmanna að ábyrgð fylgdi því að stofna þjóðgarð og fjármagn þyrfti að fylgja þeirri ákvörðun en ýmsar framkvæmdir væru brýnar m.t.t. þeirra breyttu aðstæðna sem sköpuðust af þjóðgarði og þeim tækifærum og möguleikum sem hann skapaði.
 
Gísli Einarsson ræddi um Grunnafjörðinn og lagði hann áherslu á að Grunnafjörðurinn væri ekki forgangsverkefni en nauðsynlegt væri að fá hagkvæmnisathugun á þessari framkvæmd engu að síður. 
 
Sigurður Rúnar tók undir það að bæta vegina einkum þar sem ekki væri komið malbik.  Hann sagði að einnig væri í Dölum einbreitt slitlag sem þyrfti að gera úrbætur á.
Nokkrar umræður urðu um breytt landslag í vegaáætlunarmálum og þingmannamálum m.t.t. breyttra kjördæma.
 
Magnús Valur fór yfir nokkur verkefni sem eru í gangi og ekki eru hafin á vegaáætlun 2002 – 2004.
 
Þórður sagði að Grunnafjarðarframkvæmdin væri mikið hagsmunamál fyrir Vesturland allt því Vestlendingar sæktu mikla þjónustu til Akraness.  Hann sagði einnig að vegaframkvæmdir frá Borgum að Brekku í Norðurárdal væru ótrúlega aftarlega á merinni miðað við þá miklu umferð sem þar færi um og ástand vegarins.
 
Davíð kom því á framfæri að Lundareykjadalur væri hvergi merktur og skapaðist því oft villa og misskilningur hjá ókunnugum.
 
Magnús Stefánsson sagði mikla umræðu í gangi um þessi mál framundan og þessi umræða væri gott veganesti í þá vinnu.  Hann þakkaði Vestlendingum fyrir komuna og sleit fundi.
 
Fundarritari.
Hrefna B. Jónsdóttir.