55 – Heilbrigðisnefnd Vesturlands

admin

55 – Heilbrigðisnefnd Vesturlands

FUNDARGERÐ
55.  FUNDAR HEILBRIGÐISNEFNDAR VESTURLANDS

Miðvikudaginn 20.04.2005 kl. 10.00 kom heilbrigðisnefnd Vesturlands saman í veitingahúsinu Krákunni í Grundarfirði.

Mættir voru:  
   Jón Pálmi Pálsson
Björg Ágústsdóttir
    Sigrún Pálsdóttir
    Hallveig Skúladóttir
Finnbogi Rögnvaldsson.
    Helgi Helgason sem ritaði fundargerð
    Laufey Sigurðardóttir
Rúnar og Ragnhildur boðuðu forföll.
Stjórnarmenn fóru fyrst í vettvangsskoðun í Fjölbrautaskóla Snæfellinga og Eyrbyggjusafnið í Grundarfirði. Síðan var tekið til við fundarstörf í Krákunni kl. 11.50 þar sem varaformaður Jón Pálmi stýrði fundi.
1. Málefni Laugafisks hf.
Forráðamönnum Laugafisks hf. hafði verið boðið að senda fulltrúa á fund heilbrigðisnefndar sbr. bréf HeV, dags. 14.03. og 10.04., til að skýra mál fyrirtækisins. Fyrirtækið taldi sér ekki fært að senda fulltrúa á fundinn vegna ferðar forráðmanna þess til Nígeríu eða koma nánari upplýsingum fyrir nefndina með skriflegum hætti.
Jón Pálmi lagði fram eftirfarandi bókun og tillögu:
,,Laugafiskur hf. hefur skv. gildandi starfsleyfi heimild til vinnslu og þurrkun á allt að 170 tonnum af hráefni á viku.  Gildistími starfsleyfisins er frá 16. apríl 2003 – 16. apríl 2007.  Við upphaf starfsemi fyrirtækisins og í umsókn um starfsleyfi var m.a. gert ráð fyrir að lyktarmengun frá fyrirtækinu yrði nánast engin og fyrirtækið rekið í góðri sátt við sitt nánasta umhverfi.
Allt frá upphafi starfsemi Laugafisks hf. hefur verið mikið kvartað yfir megnri lyktarmengun frá fyrirtækinu. Á árinu 2003 voru skráðar af heilbrigðisfulltrúa a.m.k. 24 formlegar kvartanir, árið 2004 voru þær 68 og á árinu 2005 eru komnar 8 kvartanir, fyrir utan fjölda óformlegra kvartana og undirskriftalista sem bæjaryfirvöldum á Akranesi hefur borist.  Kvartanir eru mestar yfir sumarmánuðina og þegar vindur stendur yfir nálæga byggð.  Heilbrigðisfulltrúar hafa haft samband við stjórnendur fyrirtækisins ítrekað,  bæði með formlegum og óformlegum hætti yfir sama tímabil varðandi kvartanir og lyktarmengun frá fyrirtækinu, ásamt formlegum afskiptum heilbrigðisnefndarinnar, m.a. þar sem fyrirtækinu er tilkynnt að fyrirhugað sé að minnka framleiðslu yfir heitustu mánuði ársins, þar sem ekki hefur tekist að vinna að lausn lyktarmengunar frá fyrirtækinu. 
Þrátt fyrir umkvartanir nágranna, viðræður og ábendingar heilbrigðisfulltrúa hefur fyrirtækið ekki getað fundið nægilega og/eða varanlega lausn á þeim vandamálum sem til staðar eru í rekstri fyrirtækisins og uppfylla þar með ákvæði í gildandi starfsleyfi sínu hvað varðar lyktarmengun.
Með hliðsjón af ofangreindu samþykkir Heilbrigðisnefnd Vesturlands,  í samræmi við 1 tl. starfsleyfis Laugafisks hf. sbr. og samþykkt stjórnar HEV frá 9. mars 2005,  að Laugafiskur hf. minnki framleiðslu sína um 50% tímabilið 15 maí – 15. ágúst á árinu 2005 vegna lyktarmengunar, á meðan fyrirtækið er með aðgerðir í gangi til lausnar á því vandamáli sem óumdeilt er að sé til staðar í rekstri fyrirtækisins. Einnig samþykkir heilbrigðisnefnd að óbreyttu verði starfsleyfi fyrirtækisins ekki endurnýjað á árinu 2007. 
Framkvæmdarstjóra HEV er falið að koma ofangreindri samþykkt á framfæri við stjórnendur Laugafisks hf. og sjá til þess að haft verði sérstakt vikulegt eftirlit með fyrirtækinu á meðan framleiðsluskerðingu stendur, og grípa til nauðsynlegra aðgerða gerist þess þörf.
 Heilbrigðisnefnd lýsir því jafnframt yfir að nefndin er reiðubúin til endurskoðunar á samþykkt þessari,  gefi breyttar aðstæður tilefni til þess.”
Miklar umræður urðu um tillöguna og starfsemi fyrirtækisins. Fundarmenn lýstu undrun sinni yfir viðbrögðum fyrirtækisins að senda ekki fulltrúa á fundinn  miðað við alvöru málsins.
Tillagan var síðan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum nema  Sigrúnar sem var á móti og lagði fram meðfylgjandi bókun: ,, Hér er um mjög íþyngjandi aðgerðir gagnvart fyrirtækinu og ég tel að það hafi ekki fengið nægilegan frest til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi þessa ákvörðun.”
Jón Pálmi óskar að  bókað sé að hann telji að fyrirtækið hafi haft nægan tíma til að bregðast við þeim aðgerðum sem HEV hefur boðað fyrirtækinu með formlegum hætti og getað ef vilji væri fyrir hendi komið sjónarmiðum sínum á framfæri með skriflegum hætti eða gert ráðstafanir til að senda fulltrúa sína á boðaðan fund með stjórn Heilbrigðiseftirlits Vesturlands.“
2. Afgreiðsla starfsleyfa
 Starfsmannabústaður Ísar ehf., Grundartanga (nýtt)
 Bensínafgreiðsla Skeljungs hf., v/Ólafsbraut í Ólafsvík
 
Samþykkt
3. Önnur mál
 Lögð fram gögn vegna útistandandi skulda við HeV um áramót og jafnframt listi yfir ógreiddan kostnað HeV.
 Samþykkt að ganga frá ógreiddum kostnaði hið fyrsta. Jafnframt leggi framkv.stj. fram lista á næsta fundi yfir gjöld sem hann telur að ekki innheimtist.
 
 Framkvæmdastjóri greind frá fundi Umhverfisstofnunar sem haldinn yrði í næstu viku um starfsleyfi fyrir fyrirhugaða rafskautaverksmiðju á Katanesi.
Samþykkt að gefa stjórnarmönnum færi á að sækja fundinn
 Lagt fram afrit af bréfi UST til Sementsverksmiðjunnar, dags. 15.04.2005, vegna notkunar rafsíuryks til uppfyllingar.
 Greint frá kynningarfundi sem Norðurál ætlaði að halda í dag en var frestað um óákveðinn tíma.
Samþykkt að gefa stjórnarmönnum færi á að sækja fundinn
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 12.50.