Verklags- og úthlutunarreglur


VEGNA ÚTHLUTUNAR STYRKJA ÚR UPPBYGGINGARSJÓÐI VESTURLANDS.

Tilgangur Uppbyggingarsjóðs Vesturlands er að styrkja menningar-, atvinnu- og nýsköpunarverkefni á Vesturlandi. Uppbyggingarsjóðurinn er samkeppnissjóður. Auglýst er opinberlega eftir umsóknum og eru þær metnar út frá þeim markmiðum og áherslum sem koma fram í samningi um Sóknaráætlun Vesturlands 2020-2024 og þeim áherslum sem eru í þessum reglum.

Úthlutunarnefnd og fagráð


Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi skipar 5 manna úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs Vesturlands. Stjórn SSV skipar jafnframt formann nefndarinnar. Nefndarmenn skulu hafa haldgóða þekkingu á málefnum landshlutans og á þeim málaflokkum sem Uppbyggingarsjóður nær yfir. Kjörnir fulltrúar sveitarstjórna skulu ekki vera fleiri en sem nemur 40% nefndarmanna. Starfsmenn SSV geta ekki setið í úthlutunarnefndinni. Fulltrúar í úthlutunarnefnd skulu skipaðir til tveggja ára í senn.

Hlutverk nefndarinnar er að velja þau verkefni sem styrkt verða af uppbyggingarsjóði á grundvelli faglegs mats. Nefndin starfar í samræmi við þessar reglur, en hefur heimild til að setja sér verklagsreglur um vinnulag við úthlutun styrkja.

Stjórn SSV skipar jafnframt 6 manna fagráð sem hefur það hlutverk að fara yfir umsóknir um styrki og vinna faglega tillögu um styrkveitingar fyrir úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs. Fagráðið fær allar tækar umsóknir til umfjöllunar og leggur mat á hvaða verkefni eru styrkhæf og hver þeirra falla best að Sóknaráætlunum Vesturlands og áherslum Uppbyggingarsjóðs Vesturlands.

Þeir sem sitja í úthlutunarnefnd og fagráði skulu gæta að hæfisreglum um ákvarðanatöku og víkja sæti ef fyrirliggjandi ástæður eru til þess fallnar að draga úr trú á óhlutdrægni við val á verkefnum. Fulltrúum í úthlutunarnefnd og fagráði er ekki heimilt að sækja um í Uppbyggingarsjóð Vesturlands.

Áherslur Uppbyggingarsjóðs Vesturlands


Við úthlutun styrkja úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands skal taka mið af eftirfarandi áherslum sjóðsins:

 1. Sóknaráætlun. Verkefnið þarf að stuðla að framgangi Sóknaráætlunar Vesturlands 2020-2024:
  a. Atvinna og nýsköpun – Stuðla að vexti atvinnulífs, auka nýsköpun, hækka menntunarstig og fjölga störfum án staðsetningar.
  b. Menning – Auka hlutdeild skapandi greina í atvinnulífinu, efla menningarstarfsemi og gera áþreifanlega í verðmætasköpun landshlutans.
  c. Samgöngur – Auka umferðaröryggi með auknu hlutfalli vega með bundnu slitlagi, fjölga hleðslustöðvum og auka hlutdeild almenningssamgangna. – (á fundinum kom fram á þessi liður á ekki við)
  d. Umhverfi – Auka umhverfisvitund íbúa, stuðla að því að kolefnisspor dragist saman og neikvæð áhrif íbúanna á umhverfið verði sem minnst.
  e. Velferð – Auka hamingju og lífsgæði , félagslega virkni og vellíðan íbúa með fjölbreyttu framboði heilsueflandi afþreyingar.
 2. Trúverðug áætlun. Er verk-og kostnaðaráætlun sem tilgreinir verktíma, gjöld, tekjur, trúverðug og er hún raunsæ?
 3. Samstarf. Það er æskilegt að tveir eða fleiri þátttakendur standi að baki hverri umsókn og í umsókn sé rökstutt hvernig samstarfið gagnist verkefninu.
 4. Samstarf við háskóla, rannsókna-eða fræðastofnanir skal teljast umsóknum til tekna.
 5. Atvinnuuppbygging. Stuðlar verkefnið að fjölgun atvinnutækifæra ?
 6. Fjölbreytni og nýsköpun. Stuðlar verkefnið að nýsköpun og aukinni fjölbreytni atvinnulífs og menningarstarfs á svæðinu án þess að vera í beinni samkeppni við starfsemi sem þegar er til staðar.
 7. Mannauður. Hækkun menntunar- og þekkingarstigs

Umsækjendur


Umsækjendur skulu vera lögráða einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir sem eru að vinna að verkefnum á Vesturlandi. Auk þess geta sveitarfélög á Vesturlandi sótt um styrki. Sveitarfélögin sjálf eða stofnanir, opinber hlutafélög og samtök í meirihlutaeigu ríkis eða sveitarfélaga skulu að jafnaði ekki vera leiðandi aðili í verkefnum styrktum af Uppbyggingarsjóði. Umsækjendur um stofn- og rekstrarstyrki skulu vera lögaðilar á sviði menningarmála.

Styrkir Uppbyggingarsjóðs Vesturlands


 1. Styrkir úr Uppbyggingarsjóði geta numið allt að 50% af áætluðum heildarkostnaði verkefnisins og skulu umsækjendur sýna fram á að minnsta kosti 50% mótframlag. Gera þarf grein fyrir hvers eðlis mótframlagið er þ.e. hvort það er í formi vinnuframlags eða fjármagns.
 2. Verkefni sem Uppbyggingarsjóður Vesturlands styrkir eru:
  1. ) Verkefni á sviði menningar
  2. ) Stofn- og rekstrarverkefni menningarmála
  3. ) Verkefni á sviði atvinnu og nýsköpunar
 3. Birtur verður opinberlega listi yfir styrkþega, heiti verkefnis og styrkupphæð.
 4. Umsækjandi þarf alla jafna hafa skilað inn lokaskýrslu vegna fyrri styrks áður en sótt er um styrk til framhalds verkefnis.

Umsóknarferli og framkvæmd


Starfsmenn SSV, í umboði stjórnar SSV sjá um að auglýsa eftir umsóknum. Þeir taka við umsóknum og ganga frá þeim í hendur úthlutunarnefndar. Þegar úthlutun er lokið sjá þeir um dagleg samskipti og eftirfylgni við styrkþega.

 1. Auglýsa skal eftir umsóknum um styrki að lágmarki einu sinni á ári.
 2. Umsóknir þurfa að berast rafrænt í gegnum umsóknarkerfi sjóðsins. Í umsókninni skal vera greinargóð lýsing á verkefninu og markmiðum þess, verk- og tímaáætlun, ítarleg fjárhagsáætlun (kostnaðar- og tekjuáætlun) og upplýsingar um umsækjanda/umsækjendur. Umsóknum skal skilað rafrænt skv. leiðbeiningum á umsóknarblaði.
 3. . Uppbyggingarsjóður og styrkþegi gera með sér skriflegan samning sem m.a. kveður á um fyrirkomulag greiðslna, skil á skýrslum og eftirfylgni.
 4. Greiðslur styrkja
  1. Við undirritun samnings er heimilt að greiða 25% samningsupphæðar. Heimilt er að greiða allt að 50% styrkupphæðar við skil á framvinduskýrslu. Lokagreiðsla er greidd út að verkefni loknu þegar styrkhafi hefur skilað fullnægjandi lokaskýrslu.
  2. b. Styrkir sem eru kr. 500.000 eða lægri greiðast þannig út að allt að 50% er greitt við undirritun samnings og eftirstöðvar þegar fullnægjandi lokaskýrslu hefur verið skilað inn og samþykkt.
  3. Ef ekkert verður af verkefninu fellur styrkur frá Uppbyggingarsjóði niður. Verði verulegar breytingar á verkefninu, án samþykkis SSV, er styrkurinn afturkræfur að hluta eða öllu leyti.
  4. Sé styrkumsókn samþykkt skal SSV tilkynna styrkhafa um styrkveitingu. Umsækjandi hefur tvo mánuði til þess að skrifa undir samninga frá því hann hefur fengið senda staðfestingu á því að hann hafi hlotið styrk. Hafi samningur ekki verið undirritaður innan tveggja mánaða fellur styrkurinn niður.

Styrkhæfur kostnaður


Styrkir Uppbyggingarsjóðs taka til fjármögnunar styrkhæfs kostnaðar. Styrkhæfur kostnaður skal koma fram í styrkumsókn til Uppbyggingarsjóðs. Eftirfarandi dæmi eru leiðbeiningar um hvað fellur undir styrkhæfan kostnað:

 1. Laun og launatengd gjöld
  Aðeins verður tekinn til greina sá tími sem starfsmenn (þátttakendur) vinna í verkefninu. Launakostnaður miðast við útborguð laun að viðbættum launatengdum gjöldum. Ekki er heimilt að nota útseldan taxta til viðmiðunar við útreikning launa og skal hámarks tímagjald vera 4.500 kr. Tímaskýrslur skulu haldnar til að sýna fram á hvernig vinnu við verkefnið er háttað.
 2. Ferða- og fundakostnaður
  Gerð skal grein fyrir öllum ferðum bæði utanlands og innanlands, hver sé tilgangur ferðanna, hvert verði farið og áætlun um ferðakostnað. Leitast skal við að velja ódýran og umhverfisvænan ferðamáta
 3. Rekstrarvörur
  Lýsa þarf í umsókn hvers konar aðföng eru nauðsynleg fyrir verkefnið. Sé um að ræða almennar rekstrarvörur sem tengjast rannsókna- og þróunarstarfsemi er fullnægjandi að lýsa rekstrarvörum og áætla kostnað. Ef um sérhæfðar rannsóknir er að ræða þar sem þörf er á dýrum rekstrarvörum til notkunar í tilraunaframleiðslu skal upplýsa um vöruflokka og einingarverð.
 4. Tæki
  Heimilt er að kaupa sérhæfð tæki sem nauðsynleg eru fyrir framgang verkefnisins.
  Ekki er heimilt að kaupa tölvur eða almennan skrifstofubúnað.
 5. Aðkeypt þjónusta
  Aðkeyptri þjónustu skal haldið í lágmarki og ávallt vera vel rökstudd. Í umsókn skal lýsa aðkeyptri þjónustu og af hverjum þjónustan verður keypt. Gera á grein fyrir hvað felst í hinni aðkeyptu þjónustu eða ráðgjöf, hvað þjónustan mun kosta og hver er hinn skilgreindi afrakstur. Undir aðkeypta þjónustu fellur m.a. gerð viðskiptaáætlunar, hönnun og markaðskostnaður annar en birtingarkostnaður.
  Vinna umsækjenda eða samstarfsaðila fellur ekki undir aðkeypta þjónustu.

Styrkir Uppbyggingarsjóðs taka ekki til eftirfarandi þátta


 1. Til fjárfestinga á hlutafé í fyrirtækjum eða stofnkostnaðar við félög, né til kaupa á lóð eða húsnæði.
 2. Til að kaupa tölvum eða almennum skrifstofubúnaði.
 3. Sá kostnaður sem fallið hefur til verkefnis áður en sótt er um, er ekki styrkhæfur.
 4. Styrkur til hópferðalaga utanlands.
 5. Stofn-og rekstrarstyrkir til þeirra sem lögum samkvæmt eiga rétt á slíkum styrkjum úr öðrum opinberum sjóðum, s.s. minjasöfn og stofnanir með samninga við ríkið.
 6. Útgáfukostnaður vegna útgáfu tónlistar og bóka. Starfsemi íþróttafélaga, bæjarhátíða og almennt safnaðarstarf.
 7. Lokaverkefni í skólum, námskeiðahald og námsgagnagerð.

Ábyrgð


Umsækjandi ábyrgist að fullnægjandi leyfi séu fyrir framkvæmd verkefnisins og notkun heimilda ef þarf og ber ábyrgð á öllum þáttum verkefnisins.

Þessar úthlutunarreglur skulu endurskoðaðar við upphaf hvers árs.

Þannig samþykkt af stjórn Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi 28. september 2021.

Skoða reglur á pdf formi