3 – SSV stjórn

admin

3 – SSV stjórn

F U N D A R G E R Ð

STJÓRNARFUNDUR SSV

Fimmtudaginn  13. júlí 2000.

 

Mætt voru.  Dagný Þórisdóttir, Gunnar Sigurðsson, Kolfinna Jóhannesdóttir, Kristinn Jónasson, Ólafur Sveinsson, Sigurður Valgeirsson og Sveinn Kristinsson.

Sigríður Gróa Kristjánsdóttir og Guðrún Jónsdóttur boðuðu forföll.  Stefán Jónsson mætti ekki.

 

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

1.      Útsend og innkomin bréf lögð fram.

2.      Fundargerðir

3.      Framtíðarskipulag SSV.

4.      Önnur mál

 

Gunnar Sigurðsson setti fundin og bauð fundarmenn velkomna.

 

1. Útsend og innkomin bréf lögð fram.

Hrefna fór yfir þau bréf sem senda hafa verið út á vegum SSV.  Beiðni hefur verið send til Vegagerðarinnar að upp verði sett vegleg skilti , þar sem Vesturland skarast við aðra landshluta, og ferðamenn boðnir velkomnir til Vesturlands.

 

Í framhaldi af síðasta stjórnarfundi var Valgerði Sverrisdóttur, iðnaðarráðherra, sent bréf varðandi skipan í stjórn RARIK en Vesturland á nú engan fulltrúa í stjórn.

 

Landssímanum hf. hefur verið sent bréf vegna boðkerfis viðbragðsaðila en Landssíminn hyggst á næsta ári hætta rekstri símboðakerfisins.  Bent var á í bréfinu að forsenda þess að hægt sé að nýta GSM kerfið í stað hins er að það nái sömu útbreiðslu.

 

Bréf hefur borist frá Ferðamálasamtökum Vesturlands þar sem  þess er farið á leit við SSV að ráða aðila til starfa sem eingöngu sinnir ferðamálum til viðbótar við þann atvinnuráðgjafa sem er starfandi og hefur ferðamál að sérsviði.

Niðurstaða fundarins var að senda svarbréf og benda á þá aðila sem að vinna að ferðamálaverkefnum á Vesturlandi.

 

2.  Fundargerðir

Hrefna fór yfir fundargerðir sem að hafa borist SSV.

3.  Framtíðarskipulag SSV

Gunnar Sigurðsson kynnti tillögu sem ráðgjafar hjá Nýsi hf., Sigfús Jónsson og Ólafur Sveinsson hafa unnið að hans beiðni og byggð er á fyrirkomulagi sem hefur gefist vel m.a. í Kanada, Bandaríkjunum, Skotlandi, Danmörku og Írlandi.  Tillagan er að stofna til svæðisbundins samstarfs sveitar- og héraðsstjórna, annarra opinberra aðila, fulltrúa atvinnulífsins og jafnvel félagasamtaka.

 

Hann sagðist undanfarið ár hafa átt fjöldan allan af trúnaðarsamtölum við aðila um það hvernig megi tryggja hagsmuni SSV sem best í framtíðinni.  Samtökin yrðu að halda þeim tekjustofnum  sem þau hafa í dag og því reynist ekki raunhæft að binda endi á Samtökin.  Reyna hins vegar að flétta þau inn í eitthvað víðara umhverfi en nú er og ná til fleiri aðila en sveitarstjórnarfólks.

 

TILLAGA

Lagt er til að til þessa samstarfs, sem hér er nefnt Samstarfsvettvangur Vesturlands, verði stofnað á seinni hluta árs árið 2000. Þátttakendur verði sveitarfélög, ráðuneyti, ríkis­stofnanir, samtök atvinnurekenda og launþega, félagasamtök o.fl. Hugmyndin er að samstarfsvettvangurinn verði frjálst samstarf milli sjálfstæðra og óháðra aðila, er byggist á opnum og hreinskilnum rökræðum og gagnkvæmum skilningi á sameiginlegum hags­mun­um.

 

Semja þarf samstarfssamning, þar sem fram eru sett markmið, sjónarmið, meginreglur um samstarf og reglur um meðferð hugsanlegra ágreiningsmála. Eitt af markmiðum sam­starfs­­vettvangsins er að treysta samtakamátt, samstarfsvilja og samstarfssiði aðilanna.

 

Skipulag samstarfsvettvangsins er hugsað þannig:

  • Stjórn sem kosin er á aðalfundi, skipuð 5-7 manns.
  • Aðalfundur sem haldinn er árlega með seturétti þeirra 40-50 fulltrúa sem mynda samstarfsvettvanginn.
  • Samstarfssamningur sem fjallar um skipulag og fjármögnun samstarfs­vettvangsins, réttindi og skyldur aðilanna o.fl.
  • Stjórnsýsla.
  • Samráðsfundir sem haldnir eru tvisvar á ári þar sem tekið er fyrir eitt megin­viðfangsefni. Fundina sitja fulltrúar þeirra aðila sem þátt taka í samstarfs­vettvanginum. Þeir geta líka verið opnir ef ástæða þykir til.

 

Dæmi um þátttakendur getur verið sem hér segir:

*          Sveitarfélög á Vesturlandi                                        20-25

*          Samtök atvinnulífs                                                       4-5

*          Fyrirtæki                                                                     5-6

*          Samtök launafólks                                                       3-4

*          Ráðuneyti/ríkisstofnanir/menntastofnanir                       6-8

*          Frjáls félagasamtök                                                      2-3

*          Fjármálastofnanir                                                         1-3

 

Alls yrði því um að ræða 40-50 þátttakendur í samstarfsvettvanginum. Úr þeim hópi yrði kjörin 5-7 manna stjórn, eftir því sem ákveðið verður.

Samstarfsvettvangurinn þarf að taka tillit til mismunandi hagsmuna í sinni vinnu, tillögugerð og fundarhöldum.

Lagt er til að samstarfsvettvangurinn verði stofnaður í tilraunaskyni til 4ra ára og að haldnir verði u.þ.b. 2 samráðsfundir á ári. Fundina þarf að undirbúa vel og senda út tillögur og greinargerðir  tímanlega svo þátttakendur geti undirbúið sig vel og markvisst vegna nauð­synlegrar ákvarðana­töku.

 

 

 

 

 

 

UMRÆÐUR

Ólafur sagði að hér væri ákveðið tækifæri að virkja stofnanir og félagasamtök.

 

Ólafur sagðist vera ósammála einu í þessari tillögu og það væri að stofna þurfi hlutafélag eða byggðasamlag um Atvinnuráðgjöf Vesturlands.  Gunnar tók undir það og sagðist jafnvel geta séð sem Atvinuráðgjöfina sem rekstraraðila að þessu.

 

Gunnar sagði að þetta verkefni væri í sjálfu sér óunnið og spurningin í dag væri hvort það ætti að halda þessari vinnu áfram.

 

Sveinn Kristinsson sagði það ekkert sérstakt vandamál á Vesturlandi að landshlutasamtök eru í tilvistarkreppu.  Hann sagði það ánægjulegt að draga fleiri inn í þetta samstarf.  Um of væri einblínt á sveitarstjórnarfólk um að leysa hin og þessi mál sem oft er  ekki á valdi sveitarstjórnarfólks að gera neitt í eða segja neitt  um.  Hann sagðist jákvæður fyrir þessu plaggi.

 

Kolfinna sagði að ekki væri mikil áhætta í að senda þessa tillögu út eins og hún væri sett fram.  Hins vegar þyrfti að vanda vel til þegar svo mörgum hagsmunahópum væri blandað saman.

 

Kristinn tók undir það að tillagan yrði send út og taldi hagkvæmara að stofna ekki sér félag um  atvinnuráðgjöf.

 

Dagný tók undir málflutning fundarins.  Sagði þetta líta vel út og ef þetta fyrirkomulag gengi upp væri hér gott mál á ferðinni.

 

Sigurður tók undir það að senda þetta út til sveitarstjórna.  Hann varpaði því fram hvort að SSV mætti ekki vera áfram til?  Hvort SV þyrfti að verða til.  Gunnar svaraði því til að samkvæmt þeim ráðlegginngum sem að hann hefði fengið þá hefði SV meira vægi gagnvart heildinni.  Annars  vegar eru skýr lagaákvæði um það að félag sem væri opið eins og SV fengi ekki framlag úr Jöfnunarsjóði og þeirra hagsmuna yrðum við að gæta.

 

Niðurstaða fundarins er sú að senda tillöguna út með einni breytingu varðandi atvinnuráðgjöfina, þ.e. að athuga þurfi með rekstrarfyrirkomulag hennar.

Gefa þarf sveitarfélögum góðan tíma til að hugsa þessa tillögu og athuga með undirtektir varðandi hana.  Ef jákvæðar undirtektir berast frá þeim er mikil vinna eftir að ræða við þá aðila sem að málinum kunna að koma.  Samþykkt var að óska eftir afstöðu sveitarfélaga fyrir 15. september n.k.

 

Ólafur sagði frá heimsókn til Búnaðarsamtaka Vesturlands en þeir leituðu til okkar um samstarfsvettvang við ATSSV.  Þeim var sagt frá þeirri vinnu sem er í gangi og þeir gætu jafnvel tengst okkur í gegnum þann vettvang.  Þeir lýstu einnig áhuga sínum á því að rekstrarráðgjöf Búnaðarsamtakanna yrðu færðar til ATSSV.

 

4.  Önnur mál.

Hrefna sagði frá heimsókn Jóns Baldurs Sigurðssonar en hann veitir forstöðu Náttúrustofu Vesturlands í Stykkishólmi.  Hann er að kynna málþing um náttúru á Vesturlandi.  Málþingið verður haldið að Varmalandi í Borgarfirði dagana 8. og 9. september n.k.

 

Gunnar og Hrefna sögðu frá fundi landshlutasamtakanna sem haldinn var á Austurlandi 7. og 8. júlí sl.  Guðjón Ingvi kom einnig austur og var með seinni daginn en hann var hlýlega kvaddur af kollegum sínum í Hellisfirði og þakkað ánægjulegt og gott samstarf í gegnum árin.

 

Fundi slitið.

Hrefna B Jónsdóttir, fundarritari.