Ungmennaráð Vesturlands tekur til starfa

SSVFréttir

Samkvæmt æskulýðslögum nr. 70/2007 skulu sveitarfélög á landinu hafa starfrækt ungmennaráð. Í Velferðarstefnu Vesturlands kemur jafnframt fram að stofnað skuli vera Ungmennaráð Vesturlands (hér eftir UV). Ráðið er skipað einum fulltrúa frá þeim sveitarfélögum sem hafa skipað ungmennaráð eða fulltrúa ungmenna. Með ráðinu starfa tveir fulltrúar æskulýðsmála á Vesturlandi. Þá situr verkefnastjóri velferðarmála hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi í ráðinu en stofnun UV er á ábyrgð SSV.

Þriðjudaginn 28. janúar  var haldinn stofnfundur UV þar sem fulltrúar fimm ungmennaráða komu saman og stofnuðu ráðið. Á fundinum var kosinn formaður UV Guðbjörg Halldórsdóttir frá Ungmennaráði Stykkishólmsbæjar, varaformaður Guðjón Snær Magnússon hjá Ungm.ráði Akraneskaupstaðar og ritari Stefanía Bláfeld Viðarsdóttir hjá Ungmennaráði Snæfellsbæjar.

Það er mikill kraftur í UV og aðilar í ráðinu hafa sterkar skoðanir og framtíðarsýn fyrir landshlutann.

Í tilefni af stofnfundinum hittust æskulýðs- og tómsstundarfulltrúar á Vesturlandi og ræddu ýmis mál, æskulýðsstarfið og forvarnir svo eitthvað sé nefnt. Voru allir sammála um að mörg tækifæri liggja í samstarfi innan málaflokksins á Vesturlandi og leitast var við að hafa fundi fulltrúanna með reglulegu millibili.

Á meðfylgjandi mynd er nýskipað Ungmennaráð Vesturlands.

Frá vinstri eru Guðjón Snær Magnússon f.h. Akraneskaupstaðar, Guðbjörg Halldórsdóttir f.h. Stykkishólmsbæjar, Stefanía Bláfeld Viðarsdóttir f.h. Snæfellsbæjar, Tanja Lilja Jónsdóttir f.h. Grundarfjarðarbæjar og Bjartur Daði Einarsson f.h. Borgarbyggðar. Auk þeirra sitja Ívar Orri Kristjánsson deildarstjóri æskulýðs- og forvarnarmála á Akranesi, Magnús Bæringsson æskulýðs- og tómstundarfulltrúi Stykkishólmsbæjar og Sigursteinn Sigurðsson verkefnastjóri hjá SSV sem starfsmenn ráðsins.