Tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi þolir enga bið

SSVFréttir

Á fundi stjórnar SSV í gær var rætt um fyrirhugaðar framkvæmdir við Vesturlandsveg á Kjalarnesi.  Stjórn SSV bókaði eftirfarandi vegna þessa:

Í samgönguáætlun Vesturlands sem samþykkt var af sveitarfélögunum árið 2017 kom fram að þung áhersla var lögð á tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi.  Sveitarfélögin á Vesturlandi hafa fylgt þessu eftir með íbúafundum, ályktunum, samtölum við forsvarsmenn samgöngumála og gerð sjónvarpsefnis.  Íbúar stofnuðu með sér samtök til þess að leggja áherslu mikilvægi vegabóta á Kjalarnesi og þúsundir íbúa skrifuðu undir áskorun um vegabætur og mikilvægi þess að strax yrði farið í framkvæmdir.

Stjórn SSV ítrekar mikilvægi þess að framkvæmdir við Vesturlandsveg á Kjalarnesi hefjist sem fyrst og þeim ljúki eigi síðar en árið 2022.  Það er öllum ljóst að tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi skiptir miklu máli varðandi öryggi, búsetu og frekari uppbyggingu á Vesturlandi.  Vegurinn er tenging Vestlendinga við höfuðborgarsvæðið og fjöldi íbúa sækir vinnu eða nám þangað og þarf því daglega að fara um veginn.  Fjölgun ferðamanna hefur verið mikil undanfarin ár og má reikna með því að tæplega milljón ferðamenn heimsæki Vesturland í ár.

Tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi þolir því enga bið.