Stjórn SSV ályktar um fyrirkomulag hrognkelsaveiða

SSVFréttir

Stjórn SSV ályktaði um fyrirkomulag hrognkelsaveiða á stjórnarfundi 26. ágúst sl. en undanfarið hafa sveitarfélög á Vesturlandi hvatt stjórnvöld til þess að endurskoða fyrirkomulag veiðanna.

Ályktun Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi um fyrirkomulag hrognkelsaveiða er svo hljóðandi:

„Stjórn samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi hvetur Alþingi til þess að taka til umfjöllunar breytingar á fyrirkomulagi hrognkelsaveiða.  Nauðsynlegt er að nýtt fyrirkomulag taki gildi fyrir upphaf næsta veiðiárs.

Sveitarfélög á Vesturlandi hafa ítrekað ályktað um nauðsyn þess að núverandi fyrirkomulag hrognkelsaveiða verði endurskoðað, en það sýndi sig s.l. vor að það er með öllu óboðlegt.   Þar kom glöggt í ljós að fyrirkomulagið skapar sjómönnum og vinnslum erfið rekstrarskilyrði og skekkir samkeppnisstöðu. Nauðsynlegt er að skapa greininni stöðuleika og fyrirsjáanleika sem er grunnþáttur í öllum rekstri.

Því er afar brýnt að Alþingi taki hið fyrsta til umfjöllunar breytingar á fyrirkomulagi um hrognkelsaveiðar til þess að bæta rekstrarumhverfi sjómanna og vinnsla með langtíma hagsmuni greinarinnar að leiðarljósi.“