Stjórn SSV ályktar um áhrif Covid-19 á rekstur sveitarfélaga á Vesturlandi

SSVFréttir

Á 154. fundi stjórnar SSV sem haldin var 27. maí sl. bókaði stjórn ályktun um áhrif Covid-19 á rekstur sveitarfélaga á Vesturlandi:

„Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) lýsir yfir þungum áhyggjum af áhrifum Covid-19 á rekstur sveitarfélaga á Vesturlandi.

Í nýrri greiningu sem Vífill Karlsson hagfræðingur hjá SSV er að vinna þessa dagana um fjármál sveitarfélaganna kemur glöggt fram að áhrif af efnahagshruni og atvinnuleysi líkt og nú er að verða raun hefur alvarleg áhrif á tekjur sveitarfélaga.  Útsvarstekjur lækka, ýmis þjónustugjöld dragast saman og framlög jöfnunarsjóðs skerðast vegna tekjulækkunar ríkissjóðs.  Greining Byggðastofnunar sem birt var nýverið um áhrif Covid 19 á sveitarfélögin er á sama veg.

Á sama tíma og tekjur sveitarfélaga eru að dragast saman þá eru flest þeirra að ráðast í aðgerðir til að efla atvinnulíf í þeim tilgangi  að draga úr áhrifum veirunnar á efnahagslíf þjóðarinnar.  Þetta er gert með átaksverkefnum í samstarf við ríkið um að skapa störf fyrir skólafólk, auknum fjárveitingum til viðhaldsverkefna og nýframkvæmda, meiri sveigjanleika fyrir íbúa og fyrirtæki varðandi greiðslu þjónustugjalda og áfram mætti telja.  Nú þegar er komið fram að kostnaður vegna félagsþjónustu hefur aukist og mun aukast frekar, en einnig er mikilvægt að hlúa að íþrótta- og æskulýðsstarfi og standa vörð um skólastarf til að draga úr neikvæðum áhrifum af þeim samdrætti sem fram undan er í þjóðfélaginu.

Þrátt fyrir að sveitarfélögin hafa undanfarin ár sýnt ráðdeild í rekstri og lækkað skuldir þá er ljóst að þau þurfa stuðning til þess að komast í gengum það tekjutap og þau auknu verkefni sem fram undan eru í kjölfar Covid-19.  Stjórn SSV telur því afar brýnt að gripið verði til almennra aðgerða af hálfu ríkisins til þess að styðja við sveitarfélögin í landinu.  Mikilvægast í því sambandi er að standa vörð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og tryggja að framlög hans til sveitarfélaganna skerðist ekki. 

Stjórn SSV skorar á ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála að beita sér fyrir því að ríkisstjórnin grípi nú þegar til aðgerða til þess að styðja við sveitarfélögin í landinu þannig að þau geti þrátt fyrir mikið tekjutap sinnt sínum lögbundnu verkefnum svo vel sé og komið að því endurreisnarstarfi sem bíður.“