Stafræn framþróun sveitarfélaga

SSVFréttir

Síðast liðinn miðvikudag hélt Samband íslenskra sveitarfélaga(Sambandið) í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi(SSV) áhugaverða kynningu um stafræna framþróun í húsnæði Símenntunar í Borgarnesi. Fyrirlesari var Fjóla María Ágústsdóttir, breytingastjóri stafrænnar þjónustu hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Sveitarfélögin á Vesturlandi sendu sína fulltrúa á fyrirlesturinn og SSV sendi einnig fulltrúa. Tilgangur þess að bjóða sveitarfélögum upp á þessa kynningu er að hefja samtalið um stafræna framþróun og vegferðina. Mikilvægt er að svipaður skilningur sé á því hvað stafræn framþróun þýðir fyrir sveitarfélögin og hvernig þau geta best skipulagt sig.

Stefna Sambandsins er að kynna fyrir sveitarfélögum forsendur fyrir stafrænni framþróun og tækifæri, kanna áhuga þeirra á stafrænu samstarfi, þarfir og væntingar þeirra til slíks samstarfs. Fjóla María þekkir vel til á þessu sviði en hún hefur kynnt sér stafræna framþróun í nágrannalöndunum og fjallaði m.a. um reynslu þeirra í stafrænni þróun og hvað við getum lært af þeim, stöðu ríkisins og sveitarfélaga, aðferðafræði, forgangsröðun verkefna, áherslur og virðið fyrir samfélagið.

Sveitarfélögin kalla í sífellt meira mæli eftir stuðningi við stafræna framþróun enda eru þau ekki eins langt á veg komin og sveitarfélögum í þeim löndum sem við berum okkur jafnan saman við.
Kynningin var vel sótt og góðar umræður sköpuðust um rafræna stjórnsýslu og stafræna þróun almennt.

Þátttakendur á kynningunni ræða um rafræna stjórnsýslu